Fréttaritari Framsíðunnar er kominn með tengdason. Hann er hávaxinn, teppir stundum sturtu heimilisins og drekkur mjólkina úr ísskápnum, en það er ásættanlegt gjald fyrir að stækka fjölskylduna. Hann er líka að fara að byrja í heimspeki með haustinu. Þá sér fréttaritarinn fram á skemmtilegar og frjóar umræður um sígildar heimspekilegar þversagnir á borð við það: hver rakar rakarann? Önnur sígild heimspeki spurning er sú hvort það heyrist í raun hljóð ef tré fellur í skógi og enginn er viðstaddur? Þá stórt er spurt, verður oft fátt um svör…
Þversögnin um tréð í skóginum raungerðist í kvöld á leik Fram og KR í Kaplaskjóli. Fréttaritarinn hafði yfirgefið heimili sitt í Hlíðunum snemma dags til að labba með Þróttara, um Laugardalinn í sögugöngu. Þróttarar eru næstmesti uppáhaldslitlibróðir okkar á eftir Víkingum og því sjálfsagt og eðlilegt að bregðast vel við slíkum erindum. Eftir spásseringstúrinn í bongóblíðunni leystu höfðingjarnir í Bismarck-brjóstsykursbúningum fréttaritarann út með sallafínni viskíflösku í selófani og með rauða og hvóta borða. Vel gert! – Leiðin lá í kjölfarið á Ölver þar sem gefnar voru sjálfur og horft á íslenskan og breskan fótbolta, eins og menn gera á sunnudagseftirmiðdögum á Íslandi.
Skjaldsveinninn Valur Norðri, sem aldrei þessu vant var hvorki á Svalbarða né í Timbúktú, sótti fréttaritarann í menningarmiðstöðina í Glæsibæ á fína slyddujeppanum sínum skömmu áður en flautað var til leiks í Kaplaskjóli. Á leiðinni vestur rann upp fyrir honum að markapelinn dýrmæti hefði gleymst, en það kom ekki að sök – enda seelófónklædd viskýsflaska með í för! En hvernig komum við henni inn? Tjah, með því að reyna ekki að dyljast heldur valsa í gegnum hliðið með borðaskreytta gjöfina á arminum eins og ekkert væri sjálfsagt. Fréttaritarinn og skjaldsveinninn parkeruðu fyrir utan blokkina hjá gamalli gaggó-vinkonu og skunduðu glaðbeittir að vellinum.
Klukkan sýndi 18:19 þegar loksins tókst að komast inn á völlinn út á fínumannaskírteini frá einhverjum KR-vinum. (Þegar fréttaritarinn er ekki að arka um með Þróttara pro bono þá er hann að kenna KR-ingum að drekka bjór á skemmtikvöldum í sjálfboðavinnu. Ef þú ert stjórnandi íþróttafélags í Reykjavík – þá máttu treysta á ókeypis vinnuframlag varaborgarfulltrúa VG ef beðið er kurteislega.) Um leið og þeir hlömmuðu sér niður í stúkunni fyrir framan Skúla Helgason og Hallgrím bróður hans, voru þeir upplýstir um að Fram hefði fengið tvö stórkostleg færi á upphafsmínútunum. Í fyrra skiptið hefði Aron Jó sloppið einn í gegn en ákveðið að senda til hliðar og ekkert orðið úr neinu. Í seinna skiptið hefði Aron Snær fengið dauðafæri en sett hann í hliðarnetið. Hverju skal trúa? Ef Fram fær dauðafæri og fréttaritarinn er ekki viðstaddur til að færa það til bókar – er það í raun færi? Maður spyr sig. Og fréttaritarinn mun klárlega spyrja tengdasoninn Ísleif.
Um leið og búið var að setjast í stúkunni gafst færi á að átta sig á liðsuppstillingunni. Okkar allra besti Jannik sat á aftasta bekk. Endurkoma hans í liðið hefur enn frestast og segja má að hún hafi haldið okkur í gíslingu stóran hluta tímabilsins. Vonir höfðu líka staðið til þess að bæði Brynjar og Hlynur yrðu leikfærir sem miðvarðapar í dag en hvorugur var á skýrslu. Þess í stað voru Delph og Orri fyrir framan Óla í markinu. Adam og Óskar voru hvor í sinni bakvarðastöðu og Breki Baldurs aftastur á miðjunni. Það kom kannski ekki nægilega skýrt fram í síðustu skýrslu, sem var rituðu í hálfgerðri áfengisþoku hversu vel Breki er að koma inn í liðið og er einn af ljósu punktunum á þessum annars skringilegu ágústdögum. Framar á vellinum voru Aron Snær á öðrum kantinum og svo Fred og Tiago að skiptast á hinu megin eða að leita inn á miðjuni og Gummi fremstur.
Þremur mínútum eftir að fréttaritarinn og skjaldsveinninn voru sestir reið ógæfan yfir. KR sótti upp kantinn og náði sendingu fyrir sem Framarar virtust hafa tal tækifæri til að hreinsa frá en tókst ekki. KR skoraði, 1:0. Mínútu síðar stormuðu heimamenn upp aftur og Framliðið, enn steinsofandi, náði ekki að verjast og staðan allt í einu orðin 2:0. Helvítis, fokkíng fokk. Við tók algjör einstefna það sem aftir var fyrri hálfleiks. KR sótti og fékk 3-4 góð marktækifæri. Fram náði einni góðri sókna þar sem skalli frá Fred var varinn í horn og í kjölfarið varð darraðardans við KR-markið en að öðru leyti sköpuðum við ekki neitt. Núll og nix. Nada.
Það var léttir þegar flautað var til hálfleiks og fréttaritarinn og skjaldsveinninn flúðu í fínumannaboð KR-inga í Frostaskjóli, sem var einu sinni frekar glötuð félagsmiðstöð táninganna í Vesturbænum. Palli Kristjáns formaður knattsyrnudeildarinnar (sem er nafngreindur þrátt fyrir að vera úr óvinaliðinu af því að hann er frændi fréttaritarans og mætir stundum með honum á Luton-leiki) bauð upp á slappan lager og hamborgara sem höfðu aldrei séð neitt kálkyns. Ástarhaturssamband fréttaritarans, sem er alinn upp í Frostaskjóli, verður stöðugt skrítnara eftir því sem tímar líða. Með hverju árinu færist KR þó neðar á listanum yfir lið sem fréttaritaranum er verulega illa við, sem eru ekki endilega góðar fréttir fyrir svarthvíta.
Það var komið að því að fylla á krúsirnar með fínumannapössunum um það leyti sem flautað var til seinni hálfleiks. Fram gerði enga breytingu en KR þrefalda skiptingu. Þrefaldar skiptingar eru koss dauðans. Meðan gengið var meðfram stúkunni Kaplaskjólsmegin heyrðist fyrst hvellt flaut þegar dómarinn gaf merki um að byrja leik og skömmu síðar hávært klapp og flaut. Hafði árvökrum fréttaritaranum tekist að missa af marki? – Um leið og sest var fyrir framan Helgasonarbræður kom sannleikurinn í ljós. Fram hafði byrjað leikinn og Aron Jó tekið negluna í átt að KR-markinu vel fyrir utan vítateig og sleikt neðanverða stöngina – eitt af mörkum tímabilsins og staðan orðin 2:1! Telur svona mark í raun og veru? Nú þarf að spyrja tengdasoninn Ísleif.
Nokkrum mínútum síðar kom fyrsta skipting Framara. Breki fór af velli fyrir lipra Spánverjanum sem kom frá Þór. Nú kynni fólkið að spyrja: Stefán, hefur maðurinn ekki nafn? En þá er því til að svara að eftir öll þessi ár af því að fylgja Fram hef ég komist að þeirri niðurstöðu að ég nenni ekki að muna nöfnin á útlendingum eða nokkrum nýjum leikmönnum ef því er að skipta fyrr en fullljóst er að þeim sé ekki tjaldað til einnar nætur. Enn sem komið er heitir þessi leikmaður því ennþá „númer átta sem er helvíti flinkur en lítill“ en ekki t.d. Ion Machi. Það kann þó að breytast mjög hratt.
Eftir mark Framara jafnaðist leikurinn mjög. Framarar fóru að skapa sér meira og verulega dró úr sóknarþunga heimamanna. Það hafði þó ekki áhrif á stuðningsmenn þeirra sem létu mikið í sér heyra. Þetta lið er t.d. búið að stela einkennissöng Geiramanna með nýjum texta og talsvert slappari útfærslu. Og svo sungu þau amk einu sinni „Einn Rúnar Kristins. Það er aðeins einn Rúnar Kristins!“ – Sem er bókstaflega rangt. Einföld leit á ja.is leiðir í ljós að það eru amk fjórir menn sem heita Rúnar Kristinsson og sem eru með skráðan síma. Hvernig væri að reyna að halda smá standard og nákvæmni í svona köllum?
KR fékk hörkufæri þegar um hálftími var eftir en Óli, sem var almennt góður í kvöld, varði vel. Skömmu síðar fór Orri af velli fyrir Aron Kára Aðalsteinsson sem sneri aftur eftir langt hlé. Alltaf gaman að sjá gamlar kepmpur á ný og ekki vetti af aukinni breidd í vörninni.
Þegar kortér var eftir gerði Fram tvöfalda skiptingu. Már og Maggi komu inná fyrir Aronana tvo. Fljótlega í kjölfarið fékk Framliðið eitt sigg besta færi þegar Tiago átti bylmingsskot að marki en Fref lenti í skotlínununni og boltinn útaf. Beint í kjölfarið ruku KR-ingar hins vegar upp og skoruðu 3:1 nánast upp úr engu og leikurinn mátti heita búinn.
„Þið eruð landsbyggðarfélag“ sungu KR-stuðningsmennirnir undir lokin – sem var vissulega dálítið sniðugt. Við svöruðum engu, enda hvorki með trommu né klappliðssveit. Leikurinn virkist koðna niður og fátt líklegt til að gerast fyrr en á lokamínútunni þegar Már vann boltann á kantinum og sendi inn á Magga sem virtist skora upp úr engu, 3:2. Af hverju voru þeir ekki löngu komnir inná?
Því miður tókst okkur ekki að þjarma frekar að Vesturbæingum á lokasprettinum. Lokastaðan 3:2 lítur líklega skömminni skár út fyrir okkur en efni stóður til, en það var samt barátta í seinni hálfleiknum sem hægt er að byggja á. Það er alltof mikil svartsýni í gangi í kringum liðið okkar sem er í raun bara í sama pakka og nokkur önnur lið í neðri hluta deildarinnar þar sem lítið þarf að breytast til að staðan á töflunni gjörbreytist. Fréttaritarinn verður að lenda í Keflavík rétt áður en næsti leikur gegn KA byrjar og mun aka í loftköstum í Dal draumanna. Það væri hreinlega kjánalegt ef þið hin létuð ekki öll sjá ykkur.
Stefán Pálsson