fbpx
Aron Snær gegn Fylki

Eftir þrumuna

Fréttaritari Framsíðunnar yfirgaf heimili sitt í Hlíðunum kátur og reifur síðdegis í dag og valhoppaði út á strætóstoppistöð. Leið 18 flutti hann hratt og örugglega í Dal draumanna. Var hægt að biðja um nokkuð betra? Og þó! Í Smálöndunum fór veðrið að þykkna. Ólguský vomuðu yfir. Rétt fyrir ofan Gullhamra í Grafarholtinu fór að rigna. Fyrr um daginn höfðu þrumur og eldingar raskað ró íbúa hverfisins. Starfsfólk Dalslaugar hafði meira að segja þurft að reka gesti uppúr til að bregðast við þrumuveðrinu.

Það var dumbungur þegar fréttaritarinn steig inn í Framheimilið en bongó þegar hann fór aftur út. Í millitíðinni hafði hann setið í fínumannaboðinu og gúffað í sig nautahakki með sósu, osti og hrásalati. Stemningin í partýinu var lævi blandin. Óháð því hvaða skoðun Framarar hafa á þjálfaraskiptunum á dögunum, þá er almenna skoðunin sú að liðið hafi ekki verið nógu bitmikið í sumar og að fótboltinn sem boðið er upp á sé ekki nógu kjarkmikill framávið og varnarsplið slakt. Myndi eitthvað breytast með sársaukafullum hrókeringum?

Aðalsteinn Aðalsteinsson mætti í fínumannastúkuna og útskýrði liðuppstillinguna. Hún var talsvert byltingarkennd. Að hluta af nauðsyn vegna meiðsla lykilmanna og að hlut til að hrista upp í hlutum. Óli var í markinu með Delph og Orra í miðvörðum – í fjarveru bæði Brynjars Gauta og Hlyns sem voru meiddir. Óskar var í örðum bakverðinum en Már í hinum. Aftast á miðjunni var Breki Baldursson mættur í sínum fyrsta byrjunarliðsleik með Tiago og Aron Jó fyrir framan sig, Fred og Aron Snæ – ferskan frá Þrótti – hvorn á sínum kanti og Gumma Magg fremstan. Þegar gengið var út í stúkuna hafði stytt upp og sólin skein sem aldrei fyrr.

Fram byrjaði af krafti og boltinn lá í marki Árbæinga eftir bara fjórar mínútur. Fred átti frábæra hælsendingu á Tiago sem skóp sóknina, sem hann lyfti á fjærhornið þar sem Aron Snær skallaði fyrir þar sem Aron Jó fékk boltann á auðum sjó og skoraði auðveldlega, 1:0 og fréttaritarinn, Rabbi og sonur hans fögnuðu vel – en þó þurrbrjósta þar sem skjaldsveinninn Valur Norðri var ennþá fastur norður í landi að þurrka einhvern helvítis tjaldvagn á einhverri Hólmavík! Núna er hann bara farinn að búa til örnefni til að afsaka fjarvistir sínar!

Það var ekki bara að Fram hefði skorað sitt fyrsta mark í óratíma, heldur leit liðið miklu betur út en verið hafði. Tiago, sem kominn var af kantinum og inn á miðja miðjuna var allt í einu kominnn með fyrra sjálfstraust í sendingum í stað þess að sparka bara sinnulaust fram á við. Orri var góður í vörninni og almennt var minna fát í varnarleiknum en verið hefur. Það hjálpaði að Fylkismennirnir léku eins og svefngenglar í sýnileikavestum. Árbæjarliðið fékk tvö verulega góð færi í fyrri hálfleik. Í fyrra skiptið kom Már vel til varnar og í því seinna var darraðardans sem endaði í hornspyrnu. Framsóknirnar voru miklu fleiri. Fred skaut naumlega framhjá úr þröngu færi á 18. mínútu og átti annað lúmskt markskot þremur mínútum síðar eftir sendingu frá Tiago.

Fred og Aron Snær (sem hefur greinilega haft mjög gott af tímanum hjá Þrótti) fengu svo hvor sitt góða marktækifærið undir lok hálfleiksins. Eins marks forysta í hléi kom brosi á andlit Framara í hléi, en allir vissu að meira þyrfti til!

Seinni hálfleikur hófst á skiptingu þar sem Adam kom inná fyrir Má. Nánast um leið virtist leikurinn hafa skipt niður um gír. Framarar höfðu hafð talsverða yfirburði fyrstu 35 mínúturnar af fyrri hálfleik en hleypt þá gestunum inn í leikinn. Sú þróun hélt áfram í seinni hálfleik þar sem Framarar drógu sig sífellt aftar til að halda fengnum hlut en Árbæingar byrjuðu að fikra sig framar.

Gestirnir heimtuðu víti á Delphin í upphafi seinni hálfleiksins, en það var líklega ekki rétt. Dómari leiksins hafði raunar frá upphafi tekið þá línu að leyfa leikmönnum mjög mikið sem hafði skilað sér í endalausum höfuðhöggum þar sem olnbogar fengu að fljúga. Þegar vallarklukkan sýndi klukkustund gerðu Ragnar og Aðalsteinn þrefalda skiptingu sem vakti nokkra undrun. Magnús, Tryggni og Ion Perello, spánverjinn sem er nýkominn frá Akureyrar-Þór, komu inná fyrir Breka, Óskar og Aron Jó. Allir þrír höfðu fram að þessu átt prýðilegan leik og voru ekki farnir að sýna mikil þreytumerki, en þjálfarateymið vildi greinilega fá breytingar. Spánverjinn að norðan leit reyndar ansi vel út og gaf í skyn talsverða knatttækni það sem eftir var af leiknum.

Á 73. mínútu komu Fylkismenn boltanum í net Fram en rangstöðuflaggið var þegar hátt á lofti. Það sló þó tóninn um það sem gerast kynni. Mínútu síðar olli sakleysisleg sending í gegnum Framvörnina allskonar vandræðum og gestirnir jöfnuðu 1:1, upp úr sáralitlu. Beint í kjölfarið var Fred skipt af velli fyrir Egil Otta í skiptingu sem hlýtur að hafa verið ákveðin áður en markið kom. Skiptingar Framliðsins voru því tæmdar þótt t.d. Gummi Magg og Tiago væru orðnir útvinda í lokin.

Delph gerði heiðarlega tilraun tl að gefa Árbæingum öll stigin með kæruleysislegum skalla aftur fyrir sig sem Óli varði vel. Markvörðurinn átti fínan leik í kvöld. Eftir því sem leið á leiktímann varð sífellt betur ljóst að bæði lið sættu sig ágætlega við jafntefli, þótt Fram hefði gert heiðarlega tilraun til að stela öllum þremur stigunum með þvi að gera harða hríð í uppbótartíma. Jafntefli þýðir að staðan í fallbaráttunni er óbreytt, þar sem Fram, Fylkir og ÍBV eru í hnapp. Góðu fréttirnar eru að næsti leikur er auðunninn í vesturbæ Reykjavíkur á móti KR. Sjáumst þar!

Stefán Pálsson

Share this post

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
Share on pinterest
Share on email
Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0

Skráðu þig á póstlistann!

Fáðu allar fréttir, tilboð og aðrar upplýsingar beint í æð!