fbpx
FRAM mfl

Rafhlöður ekki innifaldar

Hugmyndin um Sundabraut var sett fram árið 1975 í tillögu að aðalskipulagi Reykjavíkur og raunar munu vangaveltur í þá átt hafa verið reifaðar enn fyrr af samgönguverkfræðingum. Giskað hefur verið á að byggingarkostnaður Sundabrautar kunni að liggja á bilinu 70 til 80 milljörðum króna, eftir því hvaða útfærsla verður valin. Reynslan af stórum opinberum framkvæmdum hérlendis felur þó í sér vísbendingar um að endanleg fjárhæð kynni að verða mun hærri. Sumir hafa sett spurningamerki við skynsemi þess að eyða öllum þessum fjármunum til þess eins að tryggja að í framtíðinni þurfi enginn – nokkru sinni – að keyra í gegnum Mosfellsbæ. Þau eru þó miklu fleiri sem telja að fyrir þann ávinning verði þetta gjöf en ekki gjald.

Fréttaritarinn lifir ekki í tölvuteiknuðum útópíum skipulagsyfirvalda þar sem karlar spóka sig á pólóbolum og konur með barðastóra hatta fara um á sumarkjólum á reiðhjóli. Nei, hann ók einn síns liðs á metanfáknum upp Ártúnsbrekkuna og meðfram Korputorgi á meðan kjöldfréttir sjónvarps drundu í viðtækinu. Þar var sagt frá útlenskum aðgerðarsinnum sem klöngrast höfðu upp í reiða á hvalbát Ahabs skipstjóra og kúldrast þar dagpart. Pff… að húka í tunnu við Miðbakkann er sældarlíf miðað við alvöru fórnir í þágu málstaðar, eins og að mæta á heimavöll Aftureldingar sem er meira að segja kenndur við malbik í septembersúld að horfa á leik sem skiptir í raun engu alvöru máli. Það eru ekki allar hetjur skikkjuklæddar!

Velgengnin hjá karlaliði þeirra Mosfellinga hefur gert það að verkum að búið er að koma upp heljarmiklum áhorfendapöllum frá því síðast þegar fréttaritari Framsíðunnar sótti völlinn heim. Mætingin var þokkaleg ef haft er í huga að hvorugt liðið hafði að neinu að keppa. Hamborgarar steiktust á grillinu og litu ágætlega út, þótt engar bragðprufur væru teknar enda eitthvað skrítið við að graðka í sig nauti í sveitarfélagi sem byggt hefur tilveru sína á að rækta hænsn.

Byrjunarliðið var komið á netið, þótt reyndar væru einhver treyjunúmer einstakra leikmanna á reiki. Athygli vakti að Framarar stilltu fram óvæntu nafni í markvarðarstöðunni: varnarjaxlinu Guðlaugu Emblu. Það er alltaf gaman að sjá fólk spreyta sig í nýjum verkefnum og taka að sér nýj hlutverk á ferlinum – þótt það sé kannski óvenjulegt að sjá slíkar frumraunir í deildarleik. Fyrir framan hana voru Telma og Jóhanna Melkorka í miðvörðum, Írena og Erika hvor í sinni bakvarðarstöðunni. Lilja og Alexa á miðjunni með Ólínu Ágústu fyrir framan sig. Þórey og Ólína Sif á köntunum og Breuk frammi. Meiðsli hafa höggvið skarð í Framliðið í ár, öfugt fyrir tímabilið í fyrra. Tveir sterkir erlendir leikmenn eru þegar á braut, þær Elaina og Grace. Meðalalduri liðsins í kvöld var mjög lágur.

Vandræði Óskars og Anítu jukust strax á fyrstu mínútu þegar hinn nýuppgötvaði markvörður meiddist að því er virðist upp úr þurru og þurfti að fara af velli. Líklega mun enginn geta svarað því hvað gerðist nema kannski Mulder og Scully. Afskaplega svekkjandi niðurstaða en sem betur fer reyndumst við hafa gamla brýnið Mist Elíasdóttur á bekknum, þrautreyndan markmann. Afar heppilegt!

Fréttaritarinn hélt sig í Framklíkunni. Sjálfur Toggi Pop var aldrei þessu vant í áhorfendahópnum en ekki á hliðarlínunni að smella af myndum. Það kom reyndar ekki til af góðu – hann var með myndavélina í lúkunum en rafhlaðan var heima á eldhúsborði í hleðslu. Fréttaritarinn og Toggi ólust upp saman í friðarhreyfingunni og voru því venju fremur friðsælir og spakir. Reyndar var almenn ró yfir öllu. Meira að segja varamannabekkur Aftureldingar sem er alræmdur fyrir að rífast og skammast frá fyrstu mínútu hélt sig að mestu til hlés fyrsta klukkutímann eða svo.

Og fyrri hálfleikur var bragðdaufur. Framliðið var heldur meira með boltann og skapaði sér nokkur hálffæri. Breuk og Ólína Sif komust báðar í álitleg færi á fyrsta kortérinu en náðu engum krafti í skot sín. Betur tókst eftir um átján mínútna leik þegar sú síðarnefnda lét vaða á Aftureldingarmarkið en boltinn var naumlega sleginn yfir.

Þótt heimkonur ættu minna í fyrri hálfleiknum náðu þær þó einhverjum hálffærum og eftir sléttan hálftíma kom ekki bara bara færi leiksins, heldur besta færi knattspyrnusumarsins 2023 í öllum kynjum og aldursflokkum. Eftir augnabliks andvaraleysi í Framvörninni slapp Aftureldingarkona ein í gegn, skaut fram hjá Mist í markinu og boltinn small í stöng, skaust eftir marklínunni og small þar í hinni stönginni, skoppaði aftur til baka eftir línunni og þar tókst að hreinsa hann frá!

Beint í kjölfarið á þessu dauðafæri skapaðist hætta hinu megin á vellinum. Erika og markvörður Aftureldingar skullu saman. Erika stóð á fætur en yfirgaf svo völlinn nokkrum mínútum síðar fyrir Katrínu Ástu. Í millitíðinni fékk Telma gult spjald fyrir það sem var í raun bara frábær tækling á Aftureldingarkonu sem var sloppin ein í gegnum örlítið brothætta vörnina.

Flautað var til leikhlés. Eftir að það hafði staðið nokkurn veginn eins lengi og hefðin er gengu heimakonur inn á völlinn. Enn áttu eftir að líða margar margar mínútur áður en bólaði á dómaratríóinu og Frömurum. Voru gárungarnir Frammegin á pöllunum farnir að velta því fyrir sér hvort þjálfaradúettinn hafi ákveðið að leita í smiðju Óskars Blikaþjálfara og farið með leikmennina í búningsklefana í Dal draumanna. Það hefði amk verið vit – enda frábærir klefar.

Þegar leikurinn hófst loks að nýju var Alexa farin af velli fyrir Eydísi. Fljótlega kom í ljós að Afturelding hafði nýtt sitt (þó öllu styttra) leikhlé mun betur. Liðið náði völdum á miðjunni og átti fjórar prýðilegar marktilraunir áður en kominn var klukkutími á klukkuna. Stemningin meðal Framara á pöllunum varð stöðugt stressaðri, þar til Framliðið nældi sér í fágæta hornspyrnu á 70. mínútu. Hún var tekin beint fyrir markið þar sem blá treyja kom askvaðandi og kom boltanum í netið, 0:1. Hver leit á annan í Framklíkunni og allir spurðu hver í ósköpunum hafi átt markið? Ýmsar uppástungur komu og lausnamiðaðri einstaklingar í hópnum reyndu að leita uppi fréttamiiðla. Fótbolti.net byrjaði á að eigna Jóhönnu markið er breytti síðar færslunni og eignaði Breuk markið – sem við skulum þá bara taka trúanlegt.

Tvöföld skipting var gerð eftir markið. Þórey og Lilja fóru út af fyrir Fanneyju Birnu og Ylfu Margréti. Framliðið hresstist allt við markið en heimaliðið var örlítið slegið. Það var því grátbölvað að einungis sjö mínútum síðar fékk Afturelding jöfnunarmark á silfurfati. Mist spyrnti frá marki sínu en leikmaður Aftureldingar stökk í veg fyrir skotið – fékk það mögulega í hendina en hvað sem því líður skoppaði boltinn í netið og staðan orðin jöfn, 1:1.

Mörk breyta leikjum og allt í einu varð þessi frekar dauflega viðureign bráðskemmtileg síðustu mínúturnar. Mist varði meistaralega bylmingsskot frá Mosfellingum. Þegar rétt rúmar fimm mínútur voru eftir fékk Framliðið aukaspyrnu vel fyrir utan vítateig. Eftir mikið japl, jaml og fuður þar sem dómarinn gaf sér furðulangan tíma til að rökræða við leikmenn var loksins hægt að taka spyrnuna. Breuk virtist ætla að lyfta boltanum inn í teiginn með háum boga en lét þess í stað vaða hárbeint upp í samskeytin. Gjörsamlega óverjandi og stórkostlegt mark, 2:1.

Adam var ekki lengi í Paradís (að svo miklu leyti sem hægt er að nota Paradísarhugtakið í sömu andrá og Mosfellssveit). Afturelding skapaði stórhættu eftir aukaspyrnu tveimur mínútum eftir markið og uppskar horn. Hornspyrnan var svo skölluð snyrtilega í netið. Vörnin okkar leit ekki sérlega vel út, 2:2.

Sáralitlu mátti muna að Fram tapaði öðrum leiknum í röð 3:2 með marki í blálokin þegar leikmaður Aftureldingar fékk boltann í fæturnar, óvölduð á markteig á lokamínútunni en líklega varð henni svo mikið um gjafmildi gestanna að hún kinksaði og náði ekki skoti. Flautan gall. Sanngjarnt jafntefli og uppskeran gegn Mosfellingum í sumar tveir sigrar og jafntefli – ekkert tap. Kvörtum ekki yfir því. Tímabilinu lýkur svo gegn kærum vinum í KR í Úlfarsárdal um næstu helgi.

Stefán Pálsson

Share this post

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
Share on pinterest
Share on email
Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0

Skráðu þig á póstlistann!

Fáðu allar fréttir, tilboð og aðrar upplýsingar beint í æð!