„Er þetta pysja þarna inni í markinu?“ – Spurði fólkið í röðinni fyrir aftan fréttaritara Framsíðunnar á Hásteinsvelli í dag. Við nánari athugun reyndist þetta vera nauðaómerkileg dúfa og athyglin beindist aftur að frekar stórkarlalegum fótboltaleiknum. Lífið í Vestmannaeyjum þessi dægrin snýst um lundapysjur. Upplýsingaskjárnir í bátnum voru fullir af tölfræði um stöðu lundastofnsins og með praktískum leiðbeiningum fyrir ferðalanga sem gætu hugsað sér að bjarga fávísum fuglsungunum sem fljúga í átt að ljósinu í stað þess að halda til hafs. Litli sonur Daða Guðmundssonar varð allur peppaður og vildi ólmur fara í fuglabjörgun strax eftir leik. Meira að segja í upphituninni komu vallarverðir hlaupandi með pysju og fóru að ota henni að leikmönnum Fram, sem stukku vitaskuld flestir á flótta – borgarbörnin sem þeir eru!
Ætli það hafi verið nema 15-20 Framarar í stúkunni í dag. Rútuferð stuðningsmanna sem búið var að skipuleggja fór í skrúfuna þegar farið var að hringla til með leiktímann í eltingaleik við síbreytilega veðurspá. Daði sjálfur, sem ber titilinn rekstrarstjóri knattspyrnunnar í skipuriti, en er í raun ungapabbi og alhliða reddari alls sem þarf að redda hnippti í fréttaritarann og bauð honum að fljóta með í liðsrútunni – sem eru fágæt fríðindi. Fréttaritarinn og Óli Íshólm lögðu undir sig öftustu sætaröðina – partýsætin svokölluðu. Allir vita að svölu krakkarnir sitja aftast.
Eftir brottför eldsnemma úr Úlfarsárdalnum var rennt í hlað við Landeyjahöfn í góðum tíma fyrir brottför. Ferjumiðstöðin var full af starfsfólki verkfræðistofu úr bænum á leið á árshátíð og þegar farin að hafa áhyggjur af manndrápsslagveðri morgundagsins og mögulegri Þorlákshafnarferð í dallinum eða það sem verra er.
Fréttaritarinn dró sig í hlé með bókina sína. Í Vestmannaeyjum er ennþá rekinn Pizza 67-staður sem virðist hafa verið skyndifriðaður af yfirvöldum fornleifavörslu í landinu. Sömu mublur, Crazy Bananas enn á matseðlinum – það eina sem vantaði var Bubbleflies í hljóðkerfinu. Þarna var seldur bjór. Hann kostaði hins vegar ekki það sama og 1993. Klukkan hálftvö var tímabært að rölta á Hásteinsvöll þar sem miðavörslukona beið þolinmóð eftir að miðaldra sagnfræðingur með feita putta næði í sjöttu tilraun að virkja miðann sinn í Stubbi.
Afstæðiskenningin er gagnleg til að skilja ýmsa hluti í efnisheiminum – þar á meðal veður. Hún kennir okkur m.a. að það sem heitir rok í Reykjavík telst hraustlegur blær í Vestmannaeyjum. Það var nokkuð sterkur vindur en svo sem ekkert verra en maður má venjast þarna á Norður-Azoreyjum. Það komu nokkrir rigningarkaflar og greinilega hafði rignt vel um nóttina og fyrr um daginn því völlurinn var blautur og háll. Í rútunni á bakaleiðinni lýsti Aron Jó þeirri skoðun sinni að völlurinn hefði bara alls ekki verið svo slæmur – þetta snerist bara um að vera í réttum skóm. Þetta er gott dæmi um þær ranghugmyndir sem menn geta öðlast við að verja stórum hluta ferils síns í Grindavík. Réttum skóm? Þetta var ekki spurning um að vera á nöglum heldur keðjum!
Byrjunarlið Framara var það sama og Kórnum í síðustu umferð. Ólafur Íshólm – eða Óli sessunautur – eins og hann verður mögulega kallaður hér eftir var að sjálfsögðu í markinu. Delph og Þengill í miðvörðunum. Adam og Sigfús Árni bakverðir. Breki aftastur á miðjunni með Tiago fyrir framan sig. Fred og Aron Snær á köntunum. Jannik og Gummi frammi.
Meiðsla- og veikindafarganið frá síðusta leik hafði aðeins skánað og nöfnin á varamannabekknum orðin örlítið kunnuglegri. Fréttaritarinn hefði líklega ekki þurft að taka með sér takkaskóna til öryggis.
Reyndar leit út fyrir að gera þyrfti breytingar á þessari vinningsuppskrift strax eftir tveggja mínútna leik þegar Delph fékk kjaftshögg í hornspyrnu í eigin vítateig og lá flatur. Bæði lið áttu bágt með að fóta sig á blautum og hálum vellinum og öll spilamennska tók mið af því. Liðin reyndu háar og langar sendingar í þeirri von að vindurinn og færðin myndi einhvern veginn gagnast sínum manni betur en mótherjanum. Óli átti í nokkrum vandræðum í 2-3 skipti við að koma boltanum fram á við upp í vindinn og jafnóðum reyndu heimamenn að refsa með langskotum að marki sem sköpuðu þó aldrei teljandi hættu. Eftir tólf mínútna leik fengu Eyjamenn svo aukaspyrnu rétt fyrir utan teig sem sessunauturinn sló yfir með tilþrifum.
Eyjamenn fengu ívið betri færin í fyrri hálfleiknum en Framarar héldu boltanum betur en sköpuðu fátt stórhættulegt. Aron Snær, sem var mjög frískur í dag, komst þó í óvænt færi þegar hálfleikurinn var akkúrat hálfnaður en skot hans var varið úti við stöng. Fimm mínútum síðar skallaði Jannik framhjá í þokkalegu færi. Eftir tæpan hálftíma varð Sigfús Árni fyrstur til að komast í bókina hjá Pétri dómara þar sem hann braut skynsamlega af sér til að stöðva efnilega sókn. Þrátt fyrir að vera á gulu spjaldi dró hann ekki af sér í tæklingunum á meðan hann var inná.
Eyjamenn fengu þrjú síðustu færin fyrir hlé á síðustu fimm mínútunum. Fyrst kom skalli rétt framhjá marki. Í annað skiptið stukku 4-5 leikmenn beggja liða upp í sama boltann, skullu allir saman og enduðu flestir í jörðinni en boltinn skoppaði aftur fyrir endamörk. Þriðja og besta færið kom á lokasekúndunum þar sem knöturinn small í stöng Frammarksins. Þegar flautað var til leikhlés máttu Framarar þakka fyrir að vera ekki komnir undir, en gátu þó huggað sig við að hafa vindinn í bakið eftir hlé auk þess sem veðrið virtist vera að þykkna upp.
Fyrir leik hafði Norðfirðingurinn glaðbeitti, Daníel Moritz, boðið Frömurum að mæta í stuðningsmannakaffið í hléi. Glöggir lesendur þessara pistla muna kannski eftir orðahnippingum téðs Daníels og Óskars með hattinn þegar bæði lið voru í Lengjudeildinni í gamla daga. Það er allt gleymt og grafið! – Með boð austfirska kennarans að vopni náði fréttaritarinn að kjafta ekki bara sjálfan sig heldur líka Hallgrím Helgason í kaffi og ostaslaufur. Hallgrímur hefur lítið sést á vellinum í sumar sem gerir það enn virðingarverðara að hann skelli sér út í Eyjar á leik! Við tóku miklar umræður við heimamenn um aðstöðumál og hvenær ÍBV ætli að fara að spila á gervigrasi?
Seinni hálfleikur var nýhafinn þegar fréttaritarinn náði að koma sér aftur í stúkuna eftir að hafa klofað yfir dauðan máv. (Máf? Máv? … hmh… segjum máv.) Engar breytingar höfðu verið gerðar á Framliðinu og merkilegt nokk hafði létt til í veðrinu, rigningarskúrunum fækkaði og aðeins dró úr vindi. Leikurinn fór rólega af stað og lítið virtist vera að gerast þegar Fred vann boltann fyrir framan vítateig ÍBV eftir klaufaskap heimamanna, tók 2-3 skref áður en hann renndi til hliðar á Tiago sem tók á móti og lét svo vaða af löngu færi í markhornið, 0:1! Ó hvað það er alltaf notalegt að sjá svona Lennon/McCartney – Fred/Tiago mörk.
Markið neyddi Eyjamenn framar á völlinn. Þegar vallarklukkan sýndi 60 mínútur vildu stuðningsmenn þeirra fá víti fyrir hendi alveg í bláhorni vítateigsins. Annars virtist liðið á pöllunum aðallega verða brjálað yfir fullkomnum smáatriðum á borð við það hvort innkast væri tekið á réttum stað eða bolta sparkað of seint í burtu frekar en raunverulegum álitamálum – og nóg var af þeim. Það var líka pínkulítið svekkjandi að missa af alræmdum strigakjöftum úr Eyjasveitinni sem ekkert heyrðist í – en kannski voru þeir einhvers staðar annars staðar, s.s. í námunda við hljóðnema Stöðvar 2 sports?
Aron Snær átti góða sendingu sem stefndi á kollinn á Gumma og Jannik en markvörður ÍBV náði á síðustu stundu að slá hana frá. Skömmu síðar fór Aron Snær af velli ásamt Sigfúsi Árna en Már og Óskar komu inn í staðinn. Ekki veitti af frískum löppum á þungum vellinum og Sigfús á gulu spjaldi eins og fram hefur komið. Sex mínútum síðar gerði þjálfarateymið þrefalda skiptingu. Gummi Magg hafði fengið högg á hnakkann og þurfti að yfirgefa völlinn. Þórir var snarlega settur inná og í leiðinni voru þeir Jannik og Tiago teknir útaf fyrir Tryggva Snæ og Aron Jó.
Eftir á að hyggja má velta því fyrir sér hvort fimm skiptingar á sex mínútum hafi riðlað of miklu í leik okkar manna – eða hvort krafturinn í Eyjaliðinu sem var að berjast fyrir lífi sínu hafi haft meira að segja. Í það minnsta er ljóst að ÍBV mátti alls ekki við því að tapa þessum leik í fallbaráttunni.
Þegar tíu mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma komst Eyjamaður upp að endamörkum, sneri á vörnina og lyfti fyrir markið þar sem einn hvítklæddur náði að skalla í netið, staðan orðin 1:1. Stemningin súrnaði enn hraðar fimm mínútum síðar þegar úthlaup hjá Óla misheppnaðist þegar hann skall á mótherja og boltinn datt fyrir fætur Eyjamanns sem átti ekki í vandræðum með að skora. Heimamenn voru komnir í 2:1 og það var nákvæmlega það eina sem ekki mátti gerast.
Tilhugsunin um þunglyndislegustu rútuferð sögunnar aftur til Reykjavíkur steyptist yfir fréttaritarann. Ekki voru fleiri skiptingar í boði og því ljóst að Framararnir ellefu inni á vellinum yrðu að reyna að herja eitthvað út úr leiknum. Á 89. mínútu fengum við horn þar sem Þengill stökk hæst allra til að reyna að ná skalla, en var dæmdur brotlegur. Tveimur mínútum síðar, eftir mínútu af fimm mínútna uppbótartíma, fengu Framarar aukaspyrnu lengst úti á velli. Aron Jó stillti henni upp og sendi svo flottan bolta inn í miðjan vítateig andstæðinganna sem höfðu enga lærdóma dregið af atvikinu örskömmu áður – Þengill fékk að stökkva fram óvaldaður og stangaði boltann í netið. Endaði svo á trýninu og var alblóðugur og stórglæsilegur í viðtali við Fótbolta.net í leikslok. Sögum um borð í Herjólfi bar ekki saman um hvort hann væri orðinn tönninni fátækari eða ekki! Óháð tannheilsu Þengils var staðan orðin 2:2 og við tóku æðisgengnar lokamínútur. ÍBV sótti stíft en varnarmenn Fram hentu sér fyrir alla aðvífandi bolta. Á 94. mínútu fékk ÍBV dauðafæri en Óli varði frábærlega. Ætlaði okkar mönnum að takast að missa þetta niður?
En sóknirnar voru á báða bóga. Á síðustu mínútunni náði Framvörnin að spyrna fram þar sem Már náði að stinga varnarmennina af á miðlínu og virtist vera að brjótast einn í gegn, þegar einn hvítklæddur reif einfaldlega í handlegginn á honum og kippti í jörðina. Rautt spjald virtist augljósasti kosturinn en dómarinn ákvað að flauta frekar til leiksloka.
Annan leikinn í röð verða Framarar að sætta sig við eitt stig þegar þrjú hefðu komið sér ólíkt betur. En stig á útivelli er þó alltaf stig á útivelli. Aðalmálið er að þótt leikurinn í dag hafi ekki verið mikið fyrir augað og frammistaðan ekki frábær, þá eru örlögin enn í okkar eigin höndum og það er mikilvægt. Sjáumst í Dal draumanna á fimmtudag þegar Keflvíkingar mæta.
Stefán Pálsson