fbpx
873A4970

Og nú verður allt gott…

„Farðu með mig á Framvöllinn“, sagði fréttaritari Framsíðunnar þegar hann stökk upp í leigubílinn í Lækjargötunni fimm mínútur yfir sjö. Hann hafði verið að leiðsegja erlendum túristum á vegum endurskoðunarfyrirtækis og enn eina ferðina þurfti brauðstritið að trompa áhugamálin. Leigubílstjórinn hváði. Hvar er Framvöllurinn? – Uhh, í Úlfarsárdal? – Ok, og hvar er hann? Leigubílstjórinn afsakaði sig í bak og fyrir en tók að lokum leiðbeiningum og stefndi á Bauhaus.

Í Ártúnsbrekkunni small í símanum, staðan var orðin 1:0. Framliðið hafði unnið hornspyrnu sem Fred tók, hún fór fyrir lítið en boltinn hraut aftur á Fred sem sendi inn í teiginn þar sem Gummi Magg skallaði í netið! Fjórum mínútum síðar var fréttaritarinn mættur í Dal draumanna, skokkaði í gegnum miðasöluna og hlammaði sér niður við hliðina á skjaldsveininum, Rabba og syni.

Byrjunarlið Fram var óbreytt þriðja leikinn í röð. Óli sessunautur í marki, Delph og Þengill miðverðir, Sigfús og Adam bakverðir. Breki og Tiago aftarlega á miðjunn, Fred og Aron Snær hvor á sínum kanti og Jannik og Gummi frammi.

Fréttaritarinn var umvafinn vinum og viðhlægjendum í stúkunni. Obba, mamma Ömma markvarðar var steinsnar frá, sem og Guðmundur Bé úr handboltanum – og mamma Guðjónssona var í röðinni fyrir neðan, með þessa vitnisburði til staðar var ekki erfitt að slá því föstu að Framararnir hefðu verið sterkari, jafnvel talsvert sterkari fyrsta kortérið.

Á tuttugustu mínútu fór Jannik nærri því að skapa sér færi sem Keflavíkurvörnin náði að stöðva. Mínútu síðar átti Sigfús góða sendingu á Gumma sem skallaði í stöngina úr dauðafæri! Nokkrum mínútum síðar átti Breki flotta sendingu innfyrir á Jannik sem virtist ætla að sleppa einn í gegn, en var kippt niður af varnarmanni sem uppskar ekki einu sinni áminningu.

Yfirburðir Fram virtust miklir en engu að síður small boltinn í stöng Frammarksins eftir 32 mínútna leik. Sóknin hafði orðið til upp úr engu. Síðustu mínútur fyrri hálfleiks sköpuðu Framarar sér ýmis tækifæri þar sem Sigfús lét vaða á markið frá víðateigshorni. Jannik setti boltann í netið eftir sendingu frá Gumma, en var flaggaður rangstæður og Tiago reyndi að leggja upp fyrir Adam í kjörstöðu.

Í leikhléi var fréttaritarinn fljótur að koma sér í öruggt skjól fínumannakaffisins á efri hæðinni. Hljóðið í viðstöddum var þungt. Öðlingarnir og valmennin í KA höfðu reyndar tekið að sér að vinna ÍBV fyrr um daginn en leikur Fylkis og HK var enn í járnum. Þótt uppgefnir áhorfendur á leiknum væru innan við 800 talsins var fínumannakaffið þéttsetið.

Seinni hálfleikur byrjaði ótrúlega dauflega. Fyrstu tíu mínúturnar dró ekkert til tíðinda nema að Jannik spilaði sig upp að endamörkum eftir tíu mínútur og átti árangurslitla sendingu fyrir. Tveimur mínútúm síðar sóttu Keflvíkingar og áttu bylmingsskot í þverslána!

Framliðið á þessum tíma virtist vera hópur svefngengla. Liðið hafði 1:0 forystu og kaus að beita sér ekki á nokkurn hátt.. Þegar um hálftími var eftir af leiknum má segja að Keflavíkurliðið hafi verið búið að taka öll völd.

Eftir rúmlega klukkutíma leik var Sigfúsi, sem staðið hafði sig mjög vel, skipt útaf fyrir Óskar. Fimm mínútum síðar fóru gestirnir upp að endamörkum, sendu fyrir og jöfnuðu metin 1:1 og allt í voða.

Á sömu mínútu og Keflavík jafnaði setti þjálfarateymið Magga inná fyrir Aron Snæ, mögulega var skiptingin raunverulegt viðbragð við gaufinu sem einkenndi stöðu liðsins. Hvað sem öðru líður áttu Keflvíkingar skalla franhjá úr góðu færi og Magnús sótti hart að andstæðingunum og kallaði eftir víti.

Keflavík virtist mun líklegri til að komast yfir en Framarar að snúa stöðunni sér í vil þar til hestaveðreiðamennirnir tóku málin í sínar eigin hendur.

Á 73. mínútu fengu Framarar horn, Fred sendi fyrir og Delph – sem fréttaritarinn vill tilnefna sem mann leiksins – skallaði til Jannik sem setti boltann í netið með skemmtilegri bolvindu. Þegar tíu mínútur voru til leiksloka kom loks lokaskiptingin þar sem Aron Jó kom inná fyrir Gumma.

Þegar fimm mínútur lifðu af veniulegum leiktíma vann Tiago boltann glæsilega á miðjunni, stakk í gegn á Jannik sem sendi til hliðar á Aron Jó sem skoraði glæsilega af löngu færi, staðan orðin 3:1 og allar áhyggjur af orkuskorti á bak og burt. Framliðið er búið að koma sér í ágæta stöðu og góð úrslit gegn KA á heimavelli á sunnudag gætu endanlega slegið á allar áhyggjur. Þau skora sem þora.

Stefán Pálsson

Share this post

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
Share on pinterest
Share on email
Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0

Skráðu þig á póstlistann!

Fáðu allar fréttir, tilboð og aðrar upplýsingar beint í æð!