fbpx
THengill-2

Á skilorði

Stjórn knattspyrnudeildar Fram kom saman til neyðarfundar á laugardaginn. Tilefnið var að ræða stöðu fréttaritara Framsíðunnar, sem hafði skilað vandræðalega snubbóttri skýrslu um fágætan sigurleik á móti Keflavík – augljóslega skrifaðan með alltof mörg prómill í blóðinu, birtist seint og illa og ekki einu sinni heldur tvisvar voru Keflvíkingar kallaðir Eyjamenn eins og þetta væri eitthvað andskotans apóteks/bakarís-ruglingsmál. Eftir langan fund var samþykkt yfirlýsing þar sem stjórnin lýsti fullum stuðningi við fréttaritarann í störfum sínum. Við vitum öll hvað slík stuðningsyfirlýsing merkir. Hér er það feigur maður sem stýrir lyklaborði.

Það var fréttaritari með örlítið sært sálartetur sem lét fjölskylduna skutla sér beint úr barnafmæli Róberts Páls, sex ára gamals systursonar og upp í Dal draumanna. Þar var þéttsetið fínumannaboð með snittum og veigum. Fréttaritarinn leitaði samviskusamlega uppi alla Evertonmenn á svæðinu – til að núa hnífnum í sárinu – en hlustaði svo á Ragnar þjálfara kynna byrjunarliðið. Þar var ein veigamikil breyting. Jannik er meiddur og ekki í hópi en að öðru leyti var uppstillingin sú sama og verið hefur í úrslitakeppninni, nema skipt var úr 4-4-2 í 4-5-1.

Óli var vitaskuld í markinu. Þengill og Delphin í miðvörðunum. Delph hefur leikið eins og hugur manns upp á síðkastið og frammistaðan í kvöld var í takti við það, þar sem hann var einn af þremur bestu Frömurunum. Þengill er að hratt og örugglega að verla költ-hetja eins og bara gerist með táninga sem óvænt detta inn í byrjunarlið sem öftustu varnarmenn og virtast skora mikilvæg mörk að vild (Höskuldarviðvörun). Adam og Sigfús voru bakverðir. Breki aftastur á miðjunni með Tiago og Aron Jó fyrir framan sig. Fred og Aron Snær á köntunum og Gummi einn frammi.

Úrslit annars staðar gáfu ekki tilefni til bjartsýni. Fylkismenn höfðu unnið í Keflavík og því engin ástæða til að ætla annað en að Framarar yrðu að hirða þrjú stig í dag. Magasár og stress gerðu það að verkum að fréttaritarinn lagði ekki í að setjast í stúkunni, heldur stóð aftast í transfitureykjarkófi hamborgaragrillanna ásamt félaga Rabba. Skjaldsveinninn Valur Norðri var hvergi nálægur og sama gilti um markafleyginn góða sem leikið hafði fréttaritarann svo grátt. Það er ekki eins og þetta tímabil hafi búið menn undir þriggja sjússa leik!

Strax á fyrstu mínútum leiksins var ljóst hvort liðið var að berjast fyrir lífi sínu og hvort sigldi lygnan sjó í toppsæti neðrihlutans. Akureyringar lágu til baka og einsettu sér að verjast sóknarlotum okkar manna. Á níundu mínútu fengu Framarar fyrstu markverðu færin. Þar sem Aronarnir tveir áttu hvor sitt skotið að marki með skömmu millibili, en í bæði skiptin náðu Akureyringar að komast fyrir. Skömmu síðar tók Adam á rás eftir kantinum og sendi fyrir þar sem Fred kom aðvífandi og negldi hátt og fast yfir.

Þegar fyrri hálfleikur var nákvæmlega hálfnaður leit besta færið dagsins ljós. Fred var með boltann úti á kanti og fréttaritarinn byrjaður að mögla yfir því að hann væri alltof lengi að koma honum frá sér, þegar okkar maður tók frábæra stungu inn á Tiago sem lyfti boltanum út á fjarstöng þar sem Gummi stökk hæst allra (hann vann öll skallaeinvígin í kvöld) og náði að beina boltanum að marki úr þröngu færi – búsældarlegur KA-markvörðurinn varði en boltinn hraut til Arons Jó sem náði að lokum skoti á markið sem var glæsilega varið. Skömmu síðar var Tiago nærri því að ná frábærri sendingu inn á Aron Snæ sem rataði ekki alla leið.

Þegar um fimm mínútur liðu af fyrri hálfleik átti Gummi enn einn góða skallann sem barst á Breka (sem hlýtur að vera til rannsóknar hjá heilbrigðisvísindasviði Háskólans, grunaður um þindarleysi) sem lyfti boltanum í átt að Aroni Snæ en markvörður KA sló boltann frá á síðustu stundu. Skömmu síðar skallaði Gummi boltann í öxl eins Eyjamannsins (nei, djók) og kallaði eftir víti – sem virtist þó tilefnislítið. Á markamínútunni varð þvaga í vítateig KA-manna sem endaði að lokum á máttlitlu skoti frá Sigfúsi – sem var valinn maður leiksins á Framvellinum í kvöld og prýðilega að því kominn þótt fleiri leikmenn hafi líka átt stjörnuleik.

Af upptalningunni hér að framan mætti ætla að hálfleikurinn hefði verið eign Framara með húð og hári en sú var þó ekki raunin. KA reyndi vissulega oft að sækja en þær sóknarlotur brotnuðu nær alltaf á Þengli og Delph þó sérstaklega.

Það var markalaust í hálfleik og staðan í Kórnum, þar sem ÍBV hafði forystu, gaf ekki tilefni til bjartsýni. Framarar yrðu einfaldlega að vinna sinn leik! Í stað þess að halda upp í fínumannaboðið héldu fréttaritarinn og Rabbi sig innan um sauðsvartan almúgann í Bar-8, löptu Classic af krana og ræddu stöðu mála við fulltrúa Esperantisahreyfingarinnar á Íslandi, Gylfa Orrason og Gumma frænda úr efnahagsbrotadeildinni, auk þess að kaupa asnalega marga miða í treyjulotteríinu. Myndi Fram ná að skora eftir hlé?

Seinni hálfleikur byrjaði mun rólegar en sá fyrri. Fréttaritarinn og félagi Rafn stóðu enn á sama stað og Þorbjörn Atli slóst í hópinn – það eru ekki til stressaðri menn en Bjössi á Framleikjum.

KA fékk fyrsta færið í seinni hálfleiknum sem náði máli, þegar einn gulklæddur skaut framhjá upp úr engu og Óli sessunautur stóð frosinn á línunni. Ástæða til að stressast? Njah, þremur mínútum síðar kom markið. Tiago lyfti boltanum snyrtilega inn í teig KA-manna þar sem Gummi Magg stökk enn eina ferðina hæst allra, skallaði niður í teiginn þar sem Þengill kom aðvífandi – teygði fram löppina og setti boltann í markhornið, 1:0 og hafsentinn kominn með sitt annað mark í örfáum leikjum. Unglingastarfið hjá Fram heldur áfram að gefa. Af hverju er svona miklu skemmtilegra og meira fullnægjandi að horfa á fótboltaleiki með uppalda stráka í liðinu en málaliða?

Fimm mínútum eftir markið komu fyrstu skiptingarnar. Aronarnir tveir fóru af velli, eftir fína frammistöðu en Magnús Ingi og hinn fimmtán ára Viktor Bjarki leystu þá af hólmi. Þessi ákvörðun virtist djörf í ljósi þess hversu vel þeir Snær og Jó höfðu staðið sig fram að þessu, en reyndist skynsamleg.

Eftir klukkutíma leik kom Viktor Bjarki sér í frábært færi þar sem hann stakk sér í gegnum KA-vörnina, hefði líklega átt að senda boltann til hliðar á liðsfélaga í opnu færi en lét frekar vaða í belginn á KA-markverðinum (sem var mögulega maður leiksins og forðaði KA frá ljótum skelli). Mínútu síðar átti Fred góða sendingu fyrir markið sem Gummi skallaði fyrir Viktor sem var dauðafrír á markteig en aftur reyndist skrokkurinn á markverði andstæðinganna of stór. Langbesta færi leiksins en staðan ennþá bara 1:0.

Um miðjan seinni hálfleikinn var krækt í fótinn á Magga inni í vítateig KA-manna, en ekkert dæmt – kannski  vegna þess að hann gleymdi að heimta vítið. Rétt mínútu síðar fengu gestirnir hins vegar dauðafæri til að jafna metin en skutu framhjá.

Viktor Bjarki fékk þriðja upplagða marktækifærið þegar kortér var eftir af leiknum eftir góðan undirbúning Magga. Hann tók sér góðan tíma en setti svo boltinn utanfótar rétt framhjá markstönginni. Vissulega ekki til fyrirmyndar hjá okkar allra efnilegasta unga leikmanni að misnota svona hvert tækifærið á fætur öðru, en um leið aðdáunarvert hversu rólegur og afslappaður hann var meðan á þessu öllu stóð og hætti ekki að reyna. Þessi strákur er að fara að ná fáránlega langt.

Þegar tíu mínútur voru eftir náðu KA-menn óvæntu langskoti upp úr engu sem Óli varði vel í horn. Í kjölfarið kom Tóti inná fyrir Gumma sem ver búinn að hlaupa úr sér lungu og lifur. Framarar einbeittu sér að því að drepa leikinn og ná þar með sínu öðru hreina neti í sumar. KA skapaði sér lítið og raunar áttu Framararnir bestu færin á lokamínútunum þar sem Tiago hefði mátt gera mun betur í uppbótartíma þegar við fengum færi á að geirnegla sigurinn – en hverjum var ekki sama þegar flautað var til leiksloka. Fram hefur nú fengið átta stig í fjórum leikjum úrslitakeppninnar. Liðið leikur frábærlega en fáir eins vel og Fred sem var gríðarlega duglegur í vörninni ofan á snilldarsendingar sínar frammi á vellinum. Fram er ekki sloppið – bara alls ekki – ÍBV getur auðveldlega slátrað Keflavík á heimavelli í lokaumferðinni og því þurfum við að sækja stig í Árbæinn – en helst öll þrjú. Það skal enginn segja mér annað en að Ragnar Sigurðsson hafi einhverja pervertíska þrá um að senda uppeldisliðið sitt niður í síðustu umferð – því þannig gerir maður bara.

Stefán Pálsson

Share this post

Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0

Skráðu þig á póstlistann!

Fáðu allar fréttir, tilboð og aðrar upplýsingar beint í æð!