Það eru tvær leiðir til að nálgast umfjöllun um lokaleik á Íslandsmóti þar sem liðið manns bjargar sér frá falli þrátt fyrir að skíttapa og fá á sig fimm mörk í leik þar sem markvörðurinn er þrátt fyrir allt maður leiksins. Önnur er sú að rífast og skammast, velja titil á borð við: „Ekki boðlegt“ eða „Skandall“. En það hefur lítið upp á sig að rífast og skammast, hvað þá þegar mótinu er lokið. Þjálfarateymi og leikmannahópur Fram er skipaður fullorðnum mönnum (þótt sumir megi ekki keyra bíl og þurfi að sæta reglum um útivistartíma ungmenna) og þeir vita að þessi frammistaða var ekki í lagi og að það sé hundfúlt að hanga uppi á því einu að Eyjamenn séu enn dáðlausari og allar bjargir bannaðar.
Hin leiðin er sú að telja glasið hálffullt. Benda á að Íslandsmót ráðist ekki af stökum leikjum heldur frammistöðunni í 27 viðureignum. Fram hafi í raun verið sloppið fyrir leikinn nema hamfarir upp úr Opinberunarbókinni riðu yfir og því skiljanlega skort einbeitingu á móti andstæðingum með bakið upp að veggnum. Svo hefði mátt hrósa Fylkismönnum fyrir góðan leik og segja: áfram gakk!
Fréttaritarinn nennir hvorugu og sleppir því að splæsa í fyrirsögn. Pistilinn verður að skrifa, þó ekki sé nema upp á prinsipið. Það mun hins vegar ekki kjaftur berja sig í gegnum skýrsluna. Framarar lesa þessi skrif í stórum stíl eftir sigurleiki og í nokkru minna mæli eftir tapleiki til að sleikja sárin. Eftir svona antíklímax munu væntanlega engir renna í gegn aðrir en stöku Fylkismenn í von um að fá að lesa eitthvað fallegt um sig og svo Tóti eða Daði – og það bara af því að þeir einir geta sett pistla inn á heimasíðuna.
Fréttaritarinn fór einn síns liðs upp Í Dal hófstilltra væntinga. Veðrið var fallegt en kalt. Lofthitinn örlítið lægri en hitinn á bjórnum sem í boði var. Skjaldsveinninn og Rabbi báðir fjarri góðu gamni en það var enginn hörgull á Frömurum í stúkunni. Fljótt á litið virtust bláir ívið fleiri en heimamenn. Byrjunarliðið var svipað og verið hefur. Óli í marki. Þengill og Delph miðverðir. Adam og Sigfús bakverðir. Breki og Tiago á miðjunni með Fred og Aron Snæ á köntunum. Gummi frammi og Jannik kom inn í liðið að nýju. Einfalt 4-4-2.
Framarar byrjuðu frísklega og voru mun sterkara liðið fyrstu tuttugu mínúturnar. Sköpuðu nokkur hálffæri en besta tilraunin var skoð frá Aroni Snæ rétt framhjá eftir góðan undirbúning frá Gumma. Tiltölulega bragðdaufur leikurinn gaf næg tækifæri til að líta á símann og fylgjast með gangi annarra leikja þar. Stóra málið var viðureign ÍBV og Keflavíkur. Myndi hið fáránlega gerast og Eyjamenn skora hálfa tylft marka? Nei, fjandakornið…
Þessar vangaveltur urðu ágengari eftir að heimamenn náðu forystunni á 26. mínútu með ágætu skoti eftir að Framliðinu hafði mistekist að hreinsa boltann frá eftir fast leikatriði. Framvörnin var ekki sjálfri sér lík. Menn voru staðir, fóru tveir í sömu bolta og almennt í vandræðum með að koma boltanum í burtu. Þetta átti bara eftir að ágerast.
Tíu mínútum síðar tvöfölduðu heimamenn forystuna, aftur eftir að Framliðið nýtti ekki næg tækifæri til að hreinsa frá. Og snögglega voru áhorfendur í stúkunni farnir að rifja upp hugarreikninginn úr grunnskólanum.
Á 39. mínútu sýndu Framarar loks lífsmark. Fylkir komst í dauðafæri en Óli varði frábærlega og aldrei þessu vant tókst að koma boltanum hratt fram völlinn þar sem Jannik tók á rás, sendi áfram á Fred sem stakk inn fyrir vörnina þar sem Aron Snær hljóp hraðast allra og þrumaði glæsilega upp í markhornið, 2:1. Fyrri hálfleikurinn tafðist rækilega vegna höfuðmeiðsla eins Fylkismannsins en í uppbótartímanum komu appelsínugulir sér í 3:1 eftir ótrúlega klaufalegan varnarleik okkar manna. Stemningin í hléi var gallsúr og örlítið fiðrildi farið að gera vart við sig í maganum.
Hafði þjálfarateymið gefið liðinu orð í heyra í búningsklefunum? Það myndi koma í ljós. Fylkismenn byrjuðu seinni hálfleikinn hæstánægðir með tveggja marka forystuna og sýndu litla tilburði til að ógna. Aron Snær náði skalla úr lágri stöðu eftir hornspynu fljótlega eftir að seinni hálfleikur fór af stað og skömmu síðar komst Breki í ágætt skotfæri en ákvað frekar að reyna að lyfta boltanum inn á samherja sem þar var hvergi að finna. Allar vonir um að ná að kóra sig aftur inn í leikinn voru hins vegar slökktar þegar tíu mínútur voru liðnar af hálfleiknum þegar Fylkir tættist upp völlinn í skyndisókn og breytti stöðunni í 4:1.
Strax eftir markið fóru kröfurnar um að fá nýja menn inn af bekknum að gerast háværar en það liðu þó enn tíu mínútur uns þreföld skipting var gerð þar sem Breki, Jannik og Aron Snær fóru af velli en Maggi Viktor Bjarki og Aron Jó komu inn. Um svipað leyti bárust fréttir af því að Eyjamenn, sem höfðu lent undir í sinni viðureign væru búnir að jafna. Gætu þeir ef til vill…? Nei, fjandinn hafi það!
Óli varð frábærlega þegar einn heimamanna slapp einn í gegn þegar stundarfjórðungur var eftir. Fimm mínútum síðar kom Már inná fyrir Guðmund. Tíminn hélt áfram að renna út og leikurinn í Eyjum var fimm mínútum á undan. Um það leyti sem vallarklukkan sýndi 90 mínútur barst staðfesting á því að leik væri lokið í þar með jafntefli. Fáeinir Framstuðningsmenn brugðust við með því að klappa – en í sömu andrá kom fimmta mark Fylkis, enn og aftur eftir slappa vörn.
Það er almennt talinn góður eiginleiki í mannlegu samfélagi að kunna að laða það besta fram í öðru fólki. Ég veit samt ekki alveg hvað mér á að finnast um það að Framliðið láti Fylki ítrekað líta út eins og Brasilíumenn á góðum degi. Lokamínútan var kannski táknræn. Fylkismaður splundraði vörninni og virtist ætla að skora auðveldlega en Óli náði einni að vörslum tímabilsins til að bjarga því sem bjargað varð.
Súr úrslit og líklega munu Framstuðningsmenn stilla sig um að hlusta á fótboltahlaðvörp og uppgjörsþætti þessa helgina. Skrítnu sumri er lokið og ljóst að við ætluðum að gera betur en að enda í tíunda sæti og detta út í bikarnið við fyrstu hindrun. En 2024 er handan við hornið þar sem við keppum við KA en ekki Dalvík og KR en ekki ÍR.
Stefán Pálsson