„Manstu eftir því að við höfum unnið í fyrstu umferð?“ – spurði Þorbjörn Atli Sveinsson Fréttaritara Framsíðunnar í fínumannaboðinu í salatkörfunni í Dal draumanna. „Ég man bara eftir tapleikjum í byrjun móts“ – bætti hann við. Fréttaritaranum vafðist tunga um tönn. Auðvitað hafa Framarar alveg unnið fyrstu umferðarleiki, en þeir sitja fæstir eftir í minningunni. Þess í stað virðist saga okkar mörkuð af útivallartöpum eða heimavallar jafnteflum gegn slakari andstæðingum í fyrsta leik. Þegar við bættist að mótherjarnir voru nýliðar sem verið hafa utan efstu deildar í fjörutíu ár og þá undir öðru nafni, var fyllsta ástæða til að vera á varðbergi.
Það er eitthvað skrítið við að byrja Íslandsmót fyrstu vikuna í apríl og leiktíminn kl. 13 á sunnudegi ekki síður óhefðbundinn, en Fréttaritarinn skottaðist þó út á strætóstöð í Hlíðunum laust fyrir hádegið og tók leið 18-hraðferð beina leið upp í Úlfarsárdal. Veðurspáin var tvísýn. Hiti í kringum frostmark og sterkur vindur. Með rýmingar vegna snjóflóðahættu fyrir vestan og austan var rétt að búa sig vel og því var dregin fram ógnarþykk lopapeysa, fagurblá en fagurskreytt með hestamynstrum yfir brjóstinu. Hún gengur því í daglegu tali undir nafninu Miðflokkspeysan.
Það var múgur og margmenni í móttökunni fyrir leik. Eftirvæntingin í Úlfarárdal er mikil enda liðið sterkara en í fyrra og Breiðhyltingurinn Rúnar Kristinsson, uppalinn í Leikni – okkar ágæta systurfélagi – kominn heim eftir stutta viðdvöl í Vesturbæ og útlöndum. Gamlar kempur úr gullaldarliðinu létu sig ekki vanta og sérdeilis ánægjulegt að sjá sum andlitin. Rúnar mætti og gerði grein fyrir liðsuppstillingunni. Hún var varnarsinnuð: 5-3-2, þótt vissulega benti hann á að stundum kysu þjálfarar að kalla kerfið 3-5-2 þegar þeir vildu hljóma sókndjarfari.
Óli Íshólm var vitaskuld í markinu með þá Þorra, Kyle og Kennie Chopart fyrir framan sig. Már og Alex í bakvarðastöðunum. Á miðjunni voru þeir Fred, Tryggvi og Tiago. Jannik og Gummi frammi. Mjög svipuð liðsuppstilling og gaf góða raun í æfingarleik gegn Grindvíkingum á dögunum.
Mótherjarnir, Vestri, voru óskrifað blað. Allir fótboltaáhugamenn hljóta að halda smá með Ísfirðingum í sumar og vona að þeim gangi vel. Ísafjörður þarf hins vegar alltaf að sæta því að liðið er lengi að koma sér í gang og stilla saman strengi á vorin, svo kannski var fyrsta umferð hárréttur tími til að mæta þeim.
Lambhagi, hinn nýi samstarfsaðili Fram, bauð frítt á völlinn og íbúar í póstnúmeri 113 létu ekki segja sér það tvisvar. Nýtt áhorfendamet var sett: 1861 áhorfandi sem er þeim mun merkilegri árangur í ljósi þess hvað gestirnir voru langt að komnir. Geiramenn létu sig ekki vanta og kunnuglegir og sígildir slagarar voru teknir í stúkunni.
Framarar byrjuðu af krafti, leikandi undan sterkum vindi og þegar á fjórðu mínútu skeiðaði Már upp að endamörkum, sendi fyrir og Jannik skallaði yfir úr hörkufæri. Okkar allra besti danski framherji fékk svo annað prýðilegt færi tæpum tíu minútum síðar þegar boltinn hraut óvænt fyrir fætur hans, einum á móti markverði, en honum vannst ekki tími til að ná almennilegu skoti.
Andinn í stúkunni var góður. Fréttaritarinn og skjaldsveinninn Valur Norðri sátu saman. Rabbi trymbill var upptakinn við að ferma annan grísinn og mátti láta sér nægja fréttir í gegnum smáskilaboð. Í röðinni fyrir framan sat varnarjaxlinn Jón Pétursson og á hörðum steypukantinum fyrir aftan hafði gamli Framformaðurinn Kjartan tannlæknir fengið sér sæti, hugsandi sér gott til glóðarinnar að vera ekki of fjarri markafleygnum víðfræga ef drægi til tíðinda.
Fljótlega kom í ljós að Miðflokkspeysunni var fullkomlega ofaukið. Stúkan á Framvellinum er byggingarfræðilega fullkomnasta mannvirki á Íslandi sem birtist í því að þar er alltaf blíðviðri. Þótt gjólaði úti á velli bærðist ekki hár á höfði í stúkunni og sterk sólin gerði það að verkum að áhorfendum hitnaði mjög. Eftir stundarfjórðungsleik gafst fréttaritarinn upp, svipti sér úr bæði jakka og lopapeysu og kláraði leikinn á stuttermabolnum eins og sá fíni maður sem hann er.
Fréttaritarinn var ekki fyrr búinn að fletta sig klæðum en fyrsta markið leit dagsins ljós. Á sautjándu mínútu fékk Fred boltann, bar hann aðeins upp völlinn, sendi út á Má sem aftur kom boltanum á Tryggva sem lagði hann fyrir fæturnar á Fred sem kom aðvífandi rétt fyrir utan teig og skoraði með hnitmiðuðu skoti niðri í hornið, 1:0. Tappinn fór úr markafleygnum og innihaldið reyndist vera kornungur Ardbeg, móreyktur skrattakollur frá Islay. Viðeigandi!
Markið riðlaði leik gestanna og Framarar héldu áfram að halda völdum á miðjunni, þar sem Fred og Tryggvi létu mest fyrir sér fara. Tíu mínútum eftir markið þjörmuðu Framarar aftur að Ísfirðingum og uppskáru hornspyrnu. Hún var tekin hratt og barst fyrir tærnar á Kenny Chopard sem tók örlítið bjartsýnislegt skot, sem einn Vestfirðingurinn reyndi að verjast en tókst þó ekki betur til en svo að hann hann sendi boltann glæsilega í eigið net, 2:0 og útlitið orðið verulega gott.
Þriðja markið virtist ekki langt undan og þegar tíu mínútur liðu til leikhlés náði Már að skeiða í gegnum vörn hvítklæddra og átti skot sem smaug naumlega framhjá, rétt áður en Jannik kom aðvífandi í tilraun til að pota í netið. Í uppbótartíma gerðu Vestramenn svo mjög heiðarlega tilraun til að skora annað sjálfsmark eftir harða hríð frá þeim Alex og Tiago.
Það var léttur andi í fínumannaboðinu í hléi. Menningarráðherrann var í essinu sínu og hafði greinilega ákveðið að taka leikinn fram yfir einhverjar leiðindastjórnarmyndunarviðræður. Þau sjónarmið heyrðust þó að forskotið hefði gjarnan mátt vera meira fyrir seinni hálfleikinn, einkum þar sem nú myndi taka við stífur mótvindur og erfitt yrði að hemja boltann í sókninni.
Framlið síðustu tveggja ára hefði líklega haldið áfram að sækja eftir hlé, en um leið gefið færi á sér í vörninni – lekið inn aulamarki og svo hefði allt endað í voða. En það var gamla Fram. Hið nýja Fram undir stjórn Rúnars Kristinssonar hefur skynsamlegri (en um leið örlítið leiðinlegri) nálgun á tilveruna. Frá fyrstu mínútu seinni hálfleiksins reyndum við að drepa niður leikinn og tókst það bara fjári vel.
Fyrstu tæpu tuttugu mínúturnar dró ekkert það til tíðinda sem tók sig að pára í minnisbók Fréttaritarans. Vestramenn vildu reyndar vítaspyrnu þegar hálfleikurinn var nærri því hálfnaður en snertingin var alltof lítil og leikmaðurinn fleygði sér alltof auðveldlega til jarðar til að slíkt væri möguleiki. Atvikið var þó ákveðin viðvörun þess efnis að Framliðið væri farið að bakka einum of mikið og hleypa mótherjunum aðeins of nærri sér, þótt engin raunveruleg hætta skapaðist.
Skömmu síðar kom Kyle vel til bjargar þegar Vestfirðingarnir virðust ætla að komast í dauðafæri. Ekki hafði verið búist við að kaliforníski miðvörðurinn yrði leikfær í upphafi móts og var því verulega gleðilegt að sjá góða innkomu hans. Vallarþulir völdu Kyle mann leiksins í lokin og er það nokkuð nærri lagi.
Fyrstu skiptingarnar komu þegar stundarfjórðungur var eftir. Þjálfarateymið freistaði þess þá að endurheimta eitthvað af miðjuspilinu sem Framarar höfðu að mestu gefið upp á bátinn með því að taka Tiago og Tryggva útaf fyrir Breka og Frey Sigurðsson sem er rauðbirkinn Hornfirðingur – betra gerist það varla! Fimm mínútum síðar voru svo Kyle og Gummi kallaðir af velli fyrir Þengil og Aron Snæ, sem var afar frískur.
Fimmta og síðasta skiptingin kom skömmu síðar eftir að Þorri tók að stinga við og Adam kom inná í staðinn. Það reyndist heillaspor því á fyrstu mínútu uppbótartíma komst sóknarmaður Vestra einn í gegn, sendi boltann framhjá Óla og virtist öruggur með að skora þegar Adam náði einhvern veginn að renna sér á eftir honum og sópa frá á marklínunni. Tilþrif leiksins!
Síðustu mínúturnar runnu út og kotrosknir Geiramenn sungu: „Takk fyrir komuna! – Aftur í Lengjuna!“, sem var nú óþarfa kerskni í garð prýðilegra mótherja sem eiga vonandi eftir að næla í mörg stig í sumar. Þá er bara að tryggja sér gistingu á Ísafirði í júní en vinna fyrst Víkingana á mánudaginn kemur. Í millitíðinni er Fram komið á toppinn á stafrófsröðinni – það er alltaf besta röðin!
Stefán Pálsson