fbpx
Guðjón og Sigga vefur

Guðjón Jónsson, kveðja frá Knattspyrnufélaginu Fram

Guðjón Jónsson F: 13. febrúar 1939. D: 7. apríl 2024.

* Útför Guðjóns fer fram frá Seljakirkju á morgun, miðvikudaginn 17. apríl 2024, kl. 13.

Við fráfall Guðjóns Jónssonar, heiðursfélaga Knattspyrnufélagsins Fram, sjá Framarar á eftir félagsmanni sem var félaginu mikilvægur.  Gauji, eins og Guðjón var kallaður, var mjög öflugur og litríkur félagsmaður sem setti afar sterkan svip á félagslíf Fram. Guðjón markaði djúp spor í sögu Fram, sem leikmaður í knattspyrnu, handknattleik og síðan sem þjálfari. Guðjón, sem kom úr „Grettisgötuklíkunni“, var geysilega útsjónarsamur leikmaður og þjálfari; var sannkallaður leikstjórnandi. Það kom snemma í ljós, eða þegar hann hóf ungur að eltast við knöttinn. Hann lék stórt hlutverk í sigursælum þriðja flokks- og annars flokksliðum og þegar hann var orðinn of gamall til að leika með varð hann þjálfari flokksins, þá 18 ára, sem vann Íslandsbikarinn til eignar 1959.

Þarna var grunnurinn lagður að hinu sterka liði Fram í handknattleik, sem varð sex sinnum Íslandsmeistari með Guðjón í fararbroddi, 1962, 1963, 1964, 1967, 1968 og 1970. Guðjón hóf að leika með Framliðinu 18 ára 1957, en lagði skóna á hilluna 1970.

 Guðjón lék 25 landsleiki í handknattleik á árunum 1959-1968. Meiðsli komu í veg fyrir að leikirnir yrðu fleiri.

Guðjón, sem var glettinn og stríðinn, varð ungur mikill leiðtogi, en þessi sigursælu unglingalið voru að mestu skipuð strákum frá Grettisgötunni, á milli Klapparstígs og Frakkastígs, og nágrenni. Hverfisleikvangur þeirra var róluvöllurinn við Grettisgötu 10. Þar var Guðjón foringinn og hann var átrúnaðargoð yngri strákanna í götunni, enda Guðjón bæði landsliðsmaður í knattspyrnu (tveir leikir) og handknattleik (25 leikir). Guðjón átti ekki langt að sækja getuna. Bróðir hans var Magnús Jónsson, sem varði mark Fram og lék tvo sögufræga landsleiki, 1:0 sigur á Noregi í Reykjavík 1954 og sama ár gegn Svíum í Kalmar, sem fór 3:2 fyrir heimamenn.  Haukur Bjarnason, landsliðsmaður, fyrirliði og þjálfari  Fram, var giftur Sigríði, systur Guðjóns. Haukur lék 4 landsleiki, sinn fyrsta á Melavellinum, er Svíar voru lagðir að velli, 4:3.

 Guðjón varð tvöfaldur Íslandsmeistari 1962; bæði með Fram í handknattleik og knattspyrnu. Guðjón lék stórt hlutverk í meistaraliði Fram í knattspyrnu.

 Hann hóf að leika með knattspyrnuliði Fram 19 ára 1958 og lék með því til 1965 er hann lagði skóna á hilluna vegna álags og meiðsla.

Guðjón lék tvo landsleiki 1960, gegn Vestur-Þýskalandi á Laugardalsvellinum og gegn Írlandi í Dublin.

Þegar hann lagði keppnisskóna á hilluna 1970, tók hann sér hvíld frá handknattleik, en tók að sér þjálfun karlaliðs Fram 1974-1975. Þá var hann beðinn um að taka við kvennaliði Fram. Guðjón svaraði kallinu og náði ótrúlegum árangri með liðið á árunum 1975-1980. Handbrögð Guðjóns sáust fljótt á leik liðsins. Stúlkurnar urðu 5 sinnum Íslandsmeistarar undir stjórn Gauja, 6 sinnum Reykjavíkurmeistarar, fjórum sinnum Íslandsmeistarar utanhúss og þrisvar bikarmeistarar.

Trésmiðurinn Guðjón byggði upp traustan grunn að afar sigursælu liði sem varð ellefu sinnum Íslandsmeistari á árunum 1976-1990 og tólf sinnum bikarmeistari.

Mikil og góð reynsla Guðjóns reyndist vel þegar hann tók við kvennaliðinu. Ekki skemmdi það fyrir að eiginkona hans var Sigríður Sigurðardóttir, ein besta handknattleikskona landsins – margfaldur meistari með Val og Íþróttamaður ársins 1964, en það ár var hún fyrirliði landsliðsins sem varð Norðurlandameistari. Svo skemmtilega vildi til að þegar Guðjón tók við kvennaliðinu kom fram í sviðsljósið 14 ára dóttir hans, Guðríður, sem átti eftir að verða besta handknattleikskona Íslands og sigursælasti íþróttamaður Íslands; varð 52 sinnum meistari í handknattleik og knattspyrnu. Guðríður lék einnig með 3. og 2. flokki þegar hún hóf að leika með meistaraflokki. Tvær aðrar dætur Guðjóns, Díana og Hafdís áttu síðan eftir að verða meistarar, en ekki undir stjórn pabba síns.

Framarar kveðja og minnast Guðjóns með þakklæti fyrir ómetanleg störf í þágu félagsins. Eiginkonu hans Sigríði Sigurðardóttur og fölskyldu eru sendar hugheilar samúðarkveðjur.

Sigmundur Ó. Steinarsson.

Sigríður Sigurðardóttir og Guðjón Jónsson.


Línusendingar Guðjóns –
12 sinnum meistari!

Guðjón Jónsson varð 12 sinnum Íslandsmeistari með Fram. Einu sinni í knattspyrnu, 1962. Sex sinnum sem leikmaður í handknattleik; 1962, 1963, 1964, 1967, 1968 og 1970.
Guðjón fagnaði fimm sinnum Íslandsmeistatitli sem þjálfari kvennaliðs Fram; 1976, 1977, 1978, 1979 og 1980.

Guðjón Jónsson ásamt tveimur leikmönnum sínum, Sigrúnu Blomsterberg og Margréti Blöndal.

Guðjón fór í markið á Skaganum

Einn eftirminnilegasti knattspyrnuleikur, sem Guðjón hefur eflaust leikið; fyrir utan aukaleikinn gegn Val um Íslandsmeistaratitlinn 1962, 1:0, er viðureign ÍA og Fram á Akranesi 1964, 4:1. Guðjón sýndi þá fjölhæfni sína er hann fór í markið á 38 mín., eftir að markverðinum Geir Kristjánssyni var vísað af leikvelli fyrir að slá Ríkharð Jónsson niður.

Guðjón sýndi takta sem allir markverðir gátu verið hrifnir af. Guðjón skoraði fyrsta mark leiksins, eftir 120 sek. með föstu skoti af 20 m færi og síðan skoraði hann annað mark, 3:1, með þrumuskoti af 35 m færi. Guðjón var síðan í banastuði í markinu og hélt hreinu; gerði Skagamönnum lífið leitt. Guðjón sýndi þarna að hann gat leikið allar stöður á vellinum. Hann var t.d. innherji með þeim Ellert B. Schram og Þórólfi Beck, í landsleikjum sínum 1960, bakvörður í meistaraliði Fram 1962, en yfirleitt lék hann sem miðvallarleikmaður.

Guðjón Jónsson fór á kostum í markinu á Akranesi 1964, þegar Fram vann 4:1. Guðjón skoraði tvö mörk og hélt hreinu í markinu.

Guðjón blés upp tyggjóblöðru

Guðjón, sem var glettinn, sýndi prakkaraskap í leik gegn FH á Hálogalandi 1964, 27:20. Þegar hann ógnaði vörn FH með því að stinga knettinum niður, blés hann úr munni sínum stóra tyggjóblöðru. Stakk fyngri í hana, þannig að hún sprakk. Um leið skaut hann lúmsku skoti að marki FH – knötturinn hafnaði á gólfinu áður en hann skaust fram hjá Hjalta Einarssyni, markverði. 

Guðjón og vatnsflaskan

Guðjón fékk áhorfendur í stúkunni á Laugardalsvellinum til að hlægja tvisvar á stuttum tíma á landsleik Íslands – Vestur-Þýskalands 1960, 0:5. Guðjón hafði kallað eftir vatni til að drekka. Þegar Guðjón hljóp með Þjóðverja á hælunum upp kantinn, sá hann að flaskan féll á hliðina. Hann stoppaði til að rétta flöskuna við og hélt síðan áfram með knöttinn. Þá var hlegið og enn meira stuttu síðar er Guðjón brunaði upp kantinn; stöðvarði knöttinn og beygði sig eftir flöskunni og fékk sér að drekka!

Guðjón Jónsson, Grétar Sigurðsson og Rúnar Guðmannsson á góðri stundu á 50 ára afmælisfagnaði hjá Fram 1958. Guðjón og Rúnar léku eftir það saman í landsliðunum í knattspyrnu og handknattleik.
Tvisvar á TOPP 10!

Guðjón var tvisvar á TOPP 10 listanum í kjöri Íþróttamanns ársins; 1962 og 1963. Fyrra árið var hann í níunda sæti, seinna árið í sjötta sæti.

* Sigríður Sigurðardóttir, eiginkona Guðjóns, komst einu sinni á TOPP 10 listann. Það var þegar hún var fyrst kvenna kjörin Íþróttamaður ársins 1964, sem fyrirliði kvennalandsliðsins í handknattleik sem varð Norðurlandameistari á Laugardalsvellinum.

* Þess má geta að þegar Guðjón varð Íslandsmeistari bæði í handknattleik og knattspyrnu 1962, varð Sigríður Íslandsmeistari í handknattleik með Val.

 Sigríður Sigurðardóttir var kjörinn Íþróttamaður ársins 1964. Hér er hún ásamt Guðjóni og Guðríði dóttur þeirra, er komið var með bikarinn heim.
 Fyrstu Evrópumörk Íslands

Guðjón afrekaði það að verða fyrstur Íslendinga til að skora mark í Evrópukeppni í handknattleik. Hann skoraði fyrsta markið gegn danska liðinu Skovbakken í Árósum. Danirnir náðu að tryggja sér framlengingu þegar þeir jöfnuðu 24:24 þegar sjö mín. voru eftir, eftir ótímabært skot Framara. Danirnir skoruðu síðan sigurmarkið 28:27 þegar 20 sek. voru til leiksloka á framlengingunni. Guðjón og Ingólfur Óskarsson fóru á kostum í leiknum; skorðu sín hvor 9 mörkin og voru kallaðir Litli og Stóri; Bi og FY! eftir leikinn í dönskum blöðum.

* Sigríður varð fyrst kvenna til að skora mark í Evrópukeppni; gegn norska liðinu Skogn í Laugardalshöllinni, 11:9.

Íslenska landsliðið í handknattleik, sem lagði Svía að velli í Bratislava á HM í Tékkóslóvakíu 1964. Aftari röð frá vinstri: Ragnar Jónsson, Einar Sigurðsson, Hörður Kristinsson, Gunnlaugur Hjálmarsson, Ingólfur Óskarsson og Birgir Björnsson. Fremri röð:  Guðjón Jónsson, Örn Hallsteinsson, Hjalti Einarsson, Guðmundur Gústafsson, Karl Jóhannsson og Sigurður Einarsson.

Hvað sögðu þeir um Guðjón?

* Karl G. Benediktsson, þjálfarinn góðkunni, lýsti Guðjóni þannig í 100 ára afmælisriti Fram 2008: „Guðjón sérstakur fyrir sína hæfileika, sem birtust í því hvað hann hafði gaman af að plata og svekkja andstæðinginn með sínum sérstöku lúmsku línusendingum og skotum. Guðjón var ekki mjög skotfastur, en klókur að koma andstæðingnum úr jafnvægi – bæði varnarmönnum og markvörðum, og notfæra sér síðan jafnvægisleysi andstæðingsins. Guðjón, sem var geysilega skotviss, var markvarðahrellir af guðs náð – hann þurfti ekki annað en kinka kolli; þá voru þeir komnir á hreyfingu. Þeir réðu oft ekki við lúmsk gólfskot hans, eða hnitmiðuð skot út við stangir og undir þverslánna. Þá hafði hann glöggt auga fyrir samspili, sem var hans aðalmerki. Guðjón og Ingólfur náðu oft gríðarlega skemmtilega saman og gátu tætt hvaða vörn í sig með fjölbreytilegum leik. Ég held að það hafi enginn leikmaður haft eins mikið yndi að koma andstæðingnum í opna skjöldu. Guðjón hafði mikla leikgleði, sem smitaði út frá sér til árangurs.“ 

Guðjón Jónsson sendir knöttinn fram hjá Hjalta Einarssyni í leik gegn FH að Hálogalandi.

Guðjón var þekktur fyrir línusendingar sínar. Þegar Guðjón yfirgaf fjalirnar tók Axel Axelsson við hlutverki hans – að mata línumenn, en Axel hafði verið í góðu námi hjá Guðjóni, til að læra galdra línuseninganna.

* Guðmundur Jónsson „Mummi“, knattspyrnuþjálfari. „Guðjón var mjög yfirvegaður leikmaður, teknískur og vel spilandi. Hann hafði mjög gaman að því sem hann var að fást við hverju sinni; mikill keppnismaður.“

* Ingólfur Óskarsson, fyrirliði Fram: „Guðjón var besti leikmaðurinn sem ég lék með hjá Fram og landsliðinu; frábær handknattleiksmaður. Hann var mjög góð skytta og hafði mjög gott auga fyrir línuspili. Þá var hann mjög góður gegnumbrotsmaður og las leikinn vel. Guðjón var einnig mjög sterkur varnarmaður.“ 
Sigmundur Ó. Steinarsson.

Jóhann Gunnar Kristinsson hefur tekið saman myndir úr starfi Guðjóns fyrir Fram.
Þær má sjá hérna http://frammyndir.123.is : Guðjón Jónsson, 1939-2024 | 10.04.2024

Share this post

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
Share on pinterest
Share on email
Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0

Skráðu þig á póstlistann!

Fáðu allar fréttir, tilboð og aðrar upplýsingar beint í æð!