„Ferðu uppeftir með Strætó? Hvenær er brottför?“, spurði Hnífsdælingurinn og trymbillinn Kristján Freyr Fréttaritarann á netinu seinnipartinn í dag. Fréttaritarinn var upptekinn við að undirbúa sögugöngu um Hengilinn næstu helgi, með því að lesa rit Skúla Helgasonar um sögu Kolviðarhóls. Það er ekki eini Skúli Helgasoninn sem kemur við sögu í þessum pistli.
Fréttaritarinn og eftirlætissonur Hnífsdals komu sér saman um tíma til að hittast á Bústaðaveginum og taka leið 18 upp í Dal draumanna. Miðað við gæði almenningssamgangna er í raun fáránlegt að nokkur maður í Hlíðahverfi haldi ekki með Fram. Lent var á Úlfarsbrautinni kortér í sex. Leikmenn meistaraflokks voru enn að narta í upphitnarsnarlið sitt yfir sjónvarpsútsendingu frá Akureyri í fínumannaherberginu en svo varð klukkan sex og bestu syni og dætur Fram tók að drífa að. Boðið var upp á snitsel með ORA grænum, rauðkáli og sósu. Við erum Múlakaffi eystribyggða Reykjavíkur!
Aðstoðarþjálfarinn Helgi Sig. fékk það hlutverk að kynna byrjunarliðið. Hann upplýsti að þjálfarateymið hefði staðið frammi fyrir ýmsum forföllum. Kennie og Freyr voru báðir meiddir og Mási hefur verið veikur í vikunni – vonandi ekki með sömu eyðniberklana og voru næstum búnir að drepa Fréttaritarann fyrir fáeinum vikum. En maður kemur í manns stað. Uppstillingin var sem fyrr 5-3-2 og byrjunarliðið svona: Óli í markinu. Þorri, Kyle og Adam í miðvörðum. Alex og Halli – nýendurheimtur frá FH – í bakvörðum. Miðjan var Fred – Tiago – Tryggvi. Gummi Magg og Magnús Ingi frammi. Sterkt lið þrátt fyrir mikla blóðtöku.
Fréttaritarinn og Hnífsdælingurinn hlömmuðu sér niður á kunnuglegum slóðum við hliðina á Skúla og Hallgrími Helgasonum. Skjaldsveinninn var búinn að kokka upp enn eina vandræðalegu afsökunina svo það var enginn markafleygur, en Rabbi trymbill og annar sonurinn mættu skömmu eftir að flautað var til leiks og settust Fréttaritara á vinstri hönd. Stúkan var þéttsetin og spyrja má sig hvort skynsamlegra væri að stefna Frömurum í suðurenda stúkunnar og hafa gestina norðanmegin, við innganginn. Það myndi gera það að verkum að á fjölmenum leikjum væru Framarar ekki allir að troðast öðru megin á meðan hálftómt væri í gestastúkunni.
Lambhagavöllurinn er verkfræðilegt undur eins og margoft hefur komið fram, þar sem er aldrei kalt og aldrei bærir vind. Í kvöld var hins vegar ekki ríkjandi vindátt Úlfarsárdalsins heldur stóð frekar sterkur vindstrengur beint inn í stúkuna. Það var því örlítið kalt á köflum – ekki þó fyrir fréttaritarann sem var í fínu hvítu ullar-/polyesterpeysunni sinni sem einu sinni náði niður fyrir vömbina á honum með góðu móti. Það var skjálfti í stuðningsmönnum, einkum eftir að einhver vefmiðillinn rifjaði upp að við hefðum ekki unnið Fylki síðan 2014!!!
Fram byrjaði af krafti. Halli Ásgríms – og mikið er nú gott að sjá okkar uppáhalds-Harald aftur í réttum búningi – skeiðaði upp kantinn og sendi fyrir markið strax á fimmtu mínútu en Gummi Magg náði ekki tánni í boltann. Fimm mínútum síðar áttu Framarar svo besta færi hálfleiksins þegar Tryggvi náði frábærri stungu inn á Tiago sem slapp einn í gegn en missti boltann aðeins of langt frá sér og í stað þess að ná fríu skoti kom Fylkismarkvörðurinn út og greip hann á síðustu stundu.
Skömmu síðar átti Fred flotta sendingu inn fyrir á Kyle sem náði bylmingsskoti að marki sem var naumlega varið, en rangstöðuflaggið var komið á loft. Rétt í kjölfarið sleppur Mingi einn inn fyrir Fylkisvörnina en þótt margir Framarar kæmust í færi náði enginn skoti að marki.
Sóknir Framara voru margar fyrsta hálftímann, þótt erfitt væri að tala um yfirburði. Eftir hálftíma leik náðu Fylkismenn hins vegar sínu fyrsta skoti að marki og skoruðu, nánast upp úr engu. Framarar höfðu átt ágætis sókn, misst boltann og Árbæingar brunuðu upp, létu hættulítið skot ríða að marki en það skipti um stefnu á varnarmanni Fram og lak í netið, staðan 0:1.
Þetta hefðu Fylkismenn betur látið ógert því nú var búið að reita okkar menn til reiði. Þremur mínútum eftir markið átti Halli frábæra sendingu á Tiago sem hljóp að marki, náði skoti en var straujaður niður af Fylkismanni í sömu andrá. Alltof oft sér maður dómara sleppa svona brotum, en góður dómari leiksins stóð í lappirnar og dæmdi vítaspyrnu. Gummi Magg fór á punktinn og átti ágætt skot úti við stöng en markvörður Fylkismanna varði vel. Svekkelsi og staðan óbreytt.
Á 36. mínútu skeiðaði Alex upp kantinn, sendi á Þorra sem átti frábæra sendingu á Fred sem aftur lagði boltann á Halla sem kom aðvífandi og setti boltann í netið, 1:1. Svona eiga menn að snúa aftur til uppeldisfélagsins! Það er búið að vera svo sárt að sjá Halla í hvíta og svarta búningnum, en núna eru hlutirnir loksins aftur orðnir eins og þeir eiga að vera! Og mörkin munu halda áfram að koma!
Mínútu eftir markið var Gummi nærri búinn að koma okkur yfir eftir góða sendingu frá Alex. Tveimur mínútum síðar vann Fred boltan við endamörk og sendi á Tiago sem átti gullfallega sendingu beint á kollinn á Gumma sem var sterkari og kröftugri en Fylkismennirnir í kringum hann og skallaði í netið, 2:1.
Það voru kotrosknir Framarar sem fóru í hálfleik í almúgastúkuna í Áttunni og sötruðu öl með skrílnum. Allir og amma þeirra voru á leiknum og öllum bar saman um að frammistaðan væri góð.
Rúnar Kristinsson er ekki þjálfari sem hefur mikla trú á skiptingum í fótboltaleikjum, svo það var ekki von á miklum mannabreytingum í byrjun seinni hálfleiks. Alex sýndi snilli sína snemma eftir hlé með glæsilegri varnartæklingu en annars sóttu Fylkismenn lítið og okkar menn voru mjög góðir að drepa leikinn niður.
Þegar um klukkutími var liðinn af leiknum áttu Framarar nokkrar snarpar sóknir á skömmum tíma þar sem Fred, Tiago og Mingi voru allir nærri því að skora. Fylkismenn sáu ekki til sólar, en Framarar í stúkunni gerðust óþreyjufullir: myndi þriðja markið ekki koma og væri þá ekki stórhætta á því að gestirnir jöfnuðu í lokin?
Fyrsta skiptingin kom á 80. mínútu þegar Viktor Bjarki kom inná Fyrir Gumma Magg sem var orðinn nokkuð þreyttur. Viktor reyndist mjög röskur þessar loka tíu mínútur þótt hann kæmist ekki í teljandi færi. Þremur mínútum síðar kom Aron Snær inná fyrir Minga.
Fylkir fékk sitt fyrsta og eina alvöru færi á 89. mínútu þegar einn appelsínugulur náði bylmingsskoti að marki sem Óli varði glæsilega og greip svo boltann í hornspyrnunni í kjölfarið. Allir á vellinum sáu boltann í netinu og við vitum öll að í fyrra hefði Óli aldrei varið þennan bolta – standardinn á liðinu og varnarleiknum hefur hins vegar gert það að verkum að okkar maður milli stanganna er miklu betri núna en fyrri tvö árin okkar í þessari deild!
Fylkir fékk annað tækifæri til að stela stigi með skoti rétt framhjá á 91. mínútu. Beint í kjölfarið fór Fred af velli fyrir Breka og Fram landaði öruggum sigri.
Hver var bestur? Tiago var valinn á vellinum og átti það svo sem skilið – en kandídatarnir voru miklu fleiri. Þorri var stórkostlegur í vörninni. Halli átti frábæra innkomu í fyrsta leik í byrjunarliði. Mingi var ofboðslega duglegur framávið og hársbreidd frá því að skora. Alex öflugur að sækja fram og loksins að hrökkva í gang á þeim hluta vallarins – en Fréttaritarinn nefnir þó Tryggva sem mann leiksins. Frábær frammistaða!
Er þetta skemmtilegasta tímabilið frá því að við rusluðum upp Lengjunni hér um árið? Það er amk mikil stemning í kringum liðið og engin ástæða til annars en að stefna sem hæst. Næsti karlaleikur er í kæliskápnum í Garðabæ á föstudag og því rétt að grafa upp Max-kuldagallann – en á morgun, mánudag, taka stelpurnar okkar á móti ÍR og enginn vill missa af því!
Stefán Pálsson