fbpx
Fagn mfl. kv. vefur

Blátt og hvítt

Til skamms tíma voru það óskráð lög á Íslandi að á mánudögum væri ýsa með kartöflum í matinn. Knattspyrnufélagið Fram er hins vegar félag sem hikar ekki við að storka hefðunum – þess vegna var boðið upp á dýrindis lasagne í fínumannaboðinu fyrir upphafsleik Lengjudeildar kvenna í kvöld. Í veisluna var boðið fjölskyldum leikmanna og velunnurum liðsins… Fréttaritarinn fékk að fljóta með líka.

Það var fjölmennt í samkvæminu og mannskapurinn tók vel til matar síns. Óskar Smári þjálfari mætti og bauð upp á power point með kynningu sinni á byrjunarliðinu, mótherjunum og áformum Fram fyrir sumarið – gríðarleg fagmennska! Eftir að hafa verið spáð hraksmánarlegri útreið tvö síðustu tímabil, en staðið sig svo öllum vonum framar, er Fram komið í aðra stöðu. Þjálfarar og fyrirliðar Lengjudeildarliðanna spáðu okkur á dögunum þriðja sætinu í deildinni. Ljóst er að markmiðið er að blanda sér í toppslaginn.

Byrjunarliðið í þessum fyrsta leik var sem hér segir (leikaðferð 3-5-2): Marie Berg í markinu. Erika, Telma og Katrín í varnarlínunni. Mackenzie, Emma og Eva á miðjunni með Ólínu Sif og Eyrúnu hvora á sínum kanti. Alda og Murielle frammi.

Það var fjölmennt í stúkunni en bakhjarlar okkar í Lambhaga buðu áhorfendum frítt á leikinn. Íbúar hverfisins létu ekki segja sér það tvisvar, þrátt fyrir kalsa í veðrinu. Sterkur vindur setti mark sitt á leikinn og byrjuðu okkar konur með hann í bakið.

Ljóst er að fegurri litasamsetning búninga hefur ekki sést í Dal draumanna það sem af er ári – og jafnvel ekki á nokkrum knattspyrnuvelli. Búningar Fram og ÍR, mótherjanna í kvöld, eru eins og spegilmynd. Þar sem Frambúningurinn er blár er ÍR-búningurinn hvítur og öfugt. Til að fullkomna heildarmyndina er blár renningur á miðri ÍR-treyjunni sem kallast fullkomlega á við hvítu rákina á Frambúningnum sem kunnugir segja að sé auglýsing fyrir Rolexúrsalann. Til að fullkomna þetta fallega samspil var verðlaunaafhending fyrir leik þar sem sameiginlegur flokkur Fram og ÍR í 3ja flokki stúlkna veitti móttöku medalíum fyrir að verða Reykjavíkurmeistarar.

ÍR-liðið er nýliðar í deildinni og munu eiga erfitt verkefni fyrir höndum. Þær byrjuðu þó með látum. Kæruleysisleg sending aftasta varnarmanns Fram til eigin markvarðar reyndist of laus og framherji ÍR náði að stinga sér á milli og skora auðveldlega, 0:1. Annað kvöldið í röð gera andstæðingar Fram þau mistök að skora fyrsta markið í Salatskálinni. Það er ekki góð hugmynd að reita Móðurskipið til reiði.

Framkonur höfðu sótt stíft fyrir markið og héldu áfram eftir það. Á átjándu mínútu kom jöfnunarmarkið. Murielle fékk boltann í þröngri stöðu í vítateig Breiðhyltinga en náði að vinda upp á sig og vippa boltanum fyrir fætur Öldu sem þrumaði upp í þaknetið, 1:1. Tveimur mínútum síðar kom annað mark með sömu persónum og leikendum. ÍR mistókst að koma boltanum frá eftir aukaspyrnu, Murielle náði í knöttinn og renndi á Öldu sem var dauðafrí, 2:1.

Eftir rétt tæpan hálftíma tóku Framarar hornspyrnu og flestir bjuggust við sendingu fyrir markið. Þess í stað var boltinn sendur niður á Emmu sem var ein og óvölduð við vítateigshornið og lét bara vaða fast að marki og inn fór hann, 3:1 og mótspyrna gestanna virtist brotin amk um sinn.

Nú var röðin komin að hinni stóru og stæðilegu Murielle að setja sig á markareikninginn. Hún skoraði tvívegis, á 36. og 38. mínútu, í bæði skiptin eftir frekar einfaldar sendingar í gegnum ÍR-vörnina, þar sem varnarmenn hrutu af þeirri bandarísku eins og flugur. Staðan orðin 5:1 og áhorfendur fóru að huga að því að koma sér í kaffi og húsaskjól.

Fréttaritarinn stóð upp á endann allan leikinn, lengst af við hlið Hnífsdælingsins Kristjáns Freys, sem mætti beint úr vinnunni í útvarpinu þar sem hann tók m.a. viðtal við forsetaframbjóðandann Ástþór Magnússon sem upplýsti að hann héldi með Manchester United. Ef til vill munu einhverjir láta þessar upplýsingar ráða atkvæði sínu.

Karlalið Fram er með svarta beltið í að drepa niður fótboltaleiki eftir hlé, svo nú biðu margir spenntir eftir að sjá hvort stúlkurnar hans Óskar Smára myndu grípa til sömu bragða. Fram lék gegn vindi í seinni hálfleik, sem hafði nokkuð að segja og Breiðhyltingar höfðu náð að koma örlitlu skikki á spilamennsku sína í leikhléinu. Í það minnsta var seinni hálfleikur í mun meira jafnvægi stærstan hluta tímans.

Murielle fullkomnaði þrennuna eftir hornspyrnu þegar fimm mínútur voru liðnar, 6:1. Leiðindapúkar hefðu getað skráð markið á óheppinn varnarmann í ÍR-liðinu en slíkt væri algjör óþarfi.

Þegar hálftími var eftir gerði Fram tvöfalda skiptingu. Ólína og Telma fóru af velli fyrir Þórdísi Emblu og Írenu. Síðar í leiknum áttu Birna og Thelma Lind eftir að koma inn fyrir Öldu og Eyrúnu og loks kom Þórey inn fyrir Evu síðasta stundarfjórðunginn.

Um miðjan hálfleikinn hljóp ÍR kapp í kinn og liðið fékk nokkur marktækifæri á skömmum tíma. Í einu þeirra fékk ein hvítklædd boltann utarlega í vítateignum og náði að vippa í fallegum boga yfir Marie í markinu, 6:2.

„Ekki förum við að gera jafntefli í seinni hálfleiknum?“ – hnussaði fremur pirraður félagi Hermann Valsson, sem hafði tekið sér stöðu við hlið Fréttaritarans til að ræða um sögu Kolviðarhóls og sögu skíðalyfta á Íslandi. Áhyggjurnar reyndust ástæðulausar. ÍR-ingar fengu að sönnu eitt gott marktækifæri til viðbótar, en á 84. mínútu átti Írena langskot eða sendingu í átt að marki sem vindurinn feykti með sér í stórum sveig og þaðan úr fangi markvarðarins á hinn klunnalegasta hátt, 7:2. Tíunda markið leit svo dagsins ljós í blálokin. Emma átti langskot sem fór í slána og hrökk þaðan í bakið á markverðinum og í netið. Ef mótanefndin skráir markið ekki á Emmu mun Toggi sjálfur fara með málið til íþróttadómstólsins í Lausanne.

8:2 sigur þýðir væntanlega að Fram mun tróna á toppi Lengjudeildarinnar eftir fyrstu umferð. ÍR-liðið mun eiga í basli í sumar, en á klárlega eftir að stela einhverjum stigum af liðunum í deildinni. Næsti leikur er heima gegn Selfossi annan þriðjudag. Þar verður mótspyrnan væntanlega öllu meiri og enn mikilvægara að fá sem allra flesta á svæðið þegar fulltrúar kótilettubæjarins mæta á Lambhagann.

Stefán Pálsson

Share this post

Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0

Skráðu þig á póstlistann!

Fáðu allar fréttir, tilboð og aðrar upplýsingar beint í æð!