fbpx
fred gegn ÍH

Þórðargleði?

Gárungar eru hvimleiður þjóðflokkur manna sem fer með flimtan og spé – uppnefnir, stríðir og snýr útúr. Til eru gárungar sem kalla Akranes: „Mosfellsbæ-nyrðri“ eftir að þeir létu bora gatið undir fjörðinn sem aldrei skyldi verið hafa. Við það hætti Akranes að vera sá bær úti á landi sem var næst höfuðborgarsvæðinu og varð í staðinn afskekktasti hluti þess. Við það lyppaðist knattspyrnuveldi Skagamanna niður líkt og Samson eftir misráðnu heimsóknina til rakarans. Þetta er ómerkilegt uppnefni sem enginn skyldi lepja up. Aðrir gárungar kalla Úlfarsárdalinn og Framhverfið: „Mosfellsbæ-syðri“ sem er líka mjög óþroskað og hreint ekkert sniðugt.

Mosfellsbær-nyrðri og -syðri áttust við í kvöld í „bardaganum um knæpuna Áslák og KFC“. Nærri áttahundruð manns, langflest Framarar, mættu í Dal draumanna til að fylgjast með uppgjörinu. Það var vel gert ef haft er í huga að það var napurt maí veður og ein af þessum fágætu vindáttum sem verndar áhorfendur ekki í stúkunni á Lambhagavellinum. Allt þetta fólk eru sannkallaðar hetjur.

Fréttaritarinn tók risastóran gulan Volvo upp að salatskálinni og hlustaði á galgopaleg hlaðvörp á leiðinni. Síminn stóð því ekki nema í einu prósenti þegar komið var til fyrirheitna landsins, en það dugði til að snara upp Stubbnum og fá aðgang í fínumannaboðið. Þar var þéttsetið. Fréttaritarinn fékk sér sæti hjá Garðari sendiráðsbílstjóra, sem er enn að reyna að ná kjarnhita eftir að hafa nærri því orðið úti í Breiðholtsslagnum um helgina. Það er háskabragð að mæta í stuttbuxum á fótboltaleiki í maí fyrir ofan snjólínu.

Helgi Sig mætti og kynnti byrjunarliðið. Óli í marki. Adam, Kyle og Þorri miðverðir. Mási og Halli bakverðir. Tryggvi, Tiago og Fred á miðjunni. Gummi og Mingi frammi. Fátt óvænt en vonandi verður Kennie ekki mjög lengi frá. Eftir að hafa fengið liðsuppstillinguna staðfesta lá leiðin niður í almenninginn til dónanna. Þar sátu skjaldsveinninn Valur Norðri og Hnífsdalstrymbillinn Kristján Freyr saman á borði. Fljótlega mætti annar trymbill, félagi Rabbi ásamt báðum sonunum. Rabbi og Valur ennþá skömmustulegir og hálfþunnir eftir að hafa tekið Mínus-tónleika framyfir bikarsigurinn á móti ÍH. (Talandi um bikarkeppnin – hversu súrt er að dragast á móti KA á útivelli og það á virku kvöldi!!?? Og enginn þorir að kalla þetta samsæri!)

Þessi vígalegi sex manna hópur fann sér sæti á hefðbundnum slóðum fyrir miðri stúku, steinsnar frá klappliðstjóranum og einni röð fyrir ofan mæður Guðjónssona og Ömma markvarðar. Ef ykkur finnst þessar leikskýrslut vera hægt og bítandi að breytast í hverjir-voru-hvar-pistla þá er það líklega hárrétt stöðumat…

Norður- og Suður-Mosó eru tvö fótboltalið sem kunna því alls ekki illa að leyfa andstæðingnum að vera með boltann og sækja hratt þess á milli. Þess sá rækilega stað í upphafi leiks. Bæði lið lágu til baka og biðu þess að hinir misstu þolinmæðina og álpuðust fram á við. Það voru gulklæddir sem fyrst töpuðu kúlinu og á 11. mínútu skeiðaði eitt sementsbarnið upp kantinn alla leið frá miðlínu, enginn varnarmanna Fram náði að hlaupa hann uppi en skotið var ómarkvisst og beint á Óla sem varði vel.

Eftir þetta fyrsta færi tóku Framarar völdin á vellinum í tuttugu mínútur. Snjall samleikur Tiago og Minga eftir stundarfjórðung endaði með sendingu sem Gummi náði ekki að koma tánum í. Þremur mínútum síðar ógnaði Kyle Skagamarkinu rækilega eftir furðulegt markmannsúthlaup í horni. Beint í kjölfarið átti Halli skot sem fór beint á Skagamarkvörðinn. Þegar hálfleikurinn var nærri hálfnaður átti Tryggvi frábæra sendingu innfyrir á Minga sem lyfti boltanum í snyrtilegum boga yfir markvörðinn en sem dansaði á markslánni og afturfyrir.

Eftir rúmlega hálftíma leik fékk Kyle furðulegt gult spjald eftir frábæra tæklingu sem hefði frekar verðskuldað einhvers konar medalíu. Dómari leiksins virtist hins vegar á köflum dæma meira eftir eyranu en augunum, þar sem öskur og óp virtust duga til að koma mótherjum í svörtu bókina. Eftir þetta atvik virtist vindurinn tímabundið hverfa úr seglum Framara og Skaginn komst furðuskjótt inn í leikinn. Fyrsta alvöru færi þeirra frá því á elleftu mínútu kom með fríum skalla eftir hornspyrnu á 33. mínútu. Þremur mínútum síðar þurfti Mási að verjast nánast á marklínu eftir aðra hornspyrnu gestanna.

Eftir tíu mínútna kafla þar sem Skagamenn virtust ætla að taka leikinn yfir náðu Framarar vopnum sínum undir lok hálfleiksins. Már átti skot yfir eftir flotta sendingu frá Tiago og skömmu áður hafði Mási komið boltanum á Minga sem var í flottu færi en flaggaður rangstæður. Á lokamínútu hálfleiksins missti ÍA boltann í öftustu varnarlínu. Gummi hirti hann að hljóp upp völlinn en tók aðeins of langan tíma í samspil við Tryggva sem endaði á að sá fyrrnefndi lúðraði boltanum yfir. Markalaust í hálfleik.

Framarar byrjuðu með látum eftir hlé. Markvörður ÍA, sem var mögulega bestur á vellinum, varði vel frá Gumma á 48. mínútu þar sem frákastið barst til Halla sem lyfti boltanum í boga en hann skoppaði á slánni. Halli átti mjög góðan leik í kvöld og kom fastlega til greina sem besti maður Fram.

Skaginn átti skalla yfir Frammarkið úr dauðafæri eftir klukkutíma leik og beint í kjölfarið misnotaði Fred fínasta færi eftir undirbúning Magnúsar Inga. Á 65. mínútu kom svo fyrsta markið – nánast upp úr engu. Eftir hratt innkast frá Minga hljóp Fred upp að endamörkum og sendi fyrir þar sem Gummi Magg náði einhvern veginn að þvæla boltanum í netið af harðfylgi, 1:0.

Fyrsta skiptingin kom þegar tuttugu mínútur voru eftir. Alex leysti Halla af hólmi, sem hafði hlaupið úr sér lungu og lifur. Alex kom sterkur inn og uppörvandi er að sjá hversu vel bakvarðar/kantmannsstöðurnar eru hjá okkur. Tæpum fimm mínútum eftir að Alex kom inná átti hann ágætt skot að marki eftir undinrbúning frá Tiago sem Skagamarkvörðurinn varði vel yfir.

Á sama hátt og mark Framara kom óvænt þá höfnuðu Skagamenn upp úr engu þegar kortér var til leiksloka. Langur bolti innfyrir Framvörnina endaði hjá óvölduðum Skagamannai sem skoraði. Úr stúkunni virtist rangstöðulykt af markinu en línuvörður var í ágætri stöðu til að meta svo líklega var þetta hárrétt, 1:1.

Eftir markið skipti þjálfarateymið Minga útaf fyrir Viktor Bjarka, eftirlætisungling okkar allra. Fátt markvert gerðist næstu mínúturnar og skömmu fyrir lok venjulegs leiktíma kom lokaskiptingin þegar Gummi fór af velli fyrir Frey. Allt virtist stefna í jafntefli, þar til sturlaðar lokasekúndur tóku við. Þremur mínútum var bætt við og þegar vallarklukkan sýndi 92 mínútur fengu Skagamenn frían skalla úr miðjum vítateig en settu hann beint í lúkurnar á Óla. Framarar blésu til sóknar og á síðustu andartökum leiksins skeiðaði Alex upp völlinn, sendi fyrir áViktor Bjarka í dauðafæri sem var örlítið of nálægt boltanum og markvörður Skagamanna varði glæsilega.

Kalt mat er að 1:1 jafntefli endurspegli leikinn ágætlega og bæði lið megi vel við una. Það að klúðra dauðafæri á lokasekúndubrotunum er hins vegar alltaf svekkjandi og því hætt við að gleðin sé örlítið meiri í kvöld hjá liðinu þar sem allir heita meira og minna Þórður. Í lok leiks var tilkynnt að Fred að hafi verið valinn maður leiksins – Fréttaritarinn hefði frekar skellt þeirri nafnbót á Tryggva sem hefur verið algjörlega frábær í síðustu leikjum. Við tekur skyldusigur gegn Blikum á spínatbeðinu næsta sunnudag.

Stefán Pálsson

Share this post

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
Share on pinterest
Share on email
Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0

Skráðu þig á póstlistann!

Fáðu allar fréttir, tilboð og aðrar upplýsingar beint í æð!