„Þessir pistlar þínir eru komnir út í tómt rugl“, sagði málsmetandi maður við fréttaritara Framsíðunnar á dögunum. „Það er hreinasta hending ef þú nennir að skrifa um sjálfan fótbolta, heldur er þetta endalaus hedónísk lofgjörð og rant um hversu marga bjóra þú drakkst með hinum og þessum eða hverju þú raðaðir í vömbina í fínumannaherberginu. Þú liggur einhvern veginn mitt á milli þess að vera Henry Birgir fátæka mannsins eða Shane MacGowan fótboltaskríbentanna!“ – Hörð orð en ekki vissulega ekki alveg úr lausu lofti gripin.
Í ljósi þessarar ádrepu ákvað fréttaritarinn að vera bara á bílnum þegar Framarar tóku á móti Breiðabliksmönnum á Lambhagavelli í dag. Það kom sér vel þar sem Hnífsdælingurinn ljúfi gat þar með fengið far og komið trommusettinu í skottið. Þetta er station-bíll með mjög gott skott sem væri örugglega hægt að nota til að flytja lík. Ekki það að fréttaritarinn áformi slíkt – en möguleikinn er amk fyrir hendi. Félagi Valur Norðri var sóttur í Fossvoginn. Eftir síðasta leik birtist mynd af þessu vígalega þríeyki á samfélagsmiðlum, sem olli víst nokkrum föstum lesendum þessara pistla sárum vonbrigðum þar sem þeir höfðu ímyndað sér að Valur Norðri væri uppskálduð persóna.
Þegar á völlinn var komið fann Kristján Freyr sér sæti með trommurnar í fríðum flokki Geiramanna en fréttaritarinn, skjaldsveinninn, Rabbi trymbill (sem heitir trymbill í þessum pistlum af því að hann trommaði þegar hann var í Versló í gamla daga – ekki vegna þess að hann berji húðir á Framleikjum) og Auðun Georg fundu sér sæti aðeins sunnar í stúkunni. Auðun Georg, Framarinn með ÍK-hjartað, hafði auðvitað tvöfalda ástæðu til að mæta og vonast eftir sigri á Blikum. Gamlir ÍK-menn eru ennþá sárir yfir að Breiðabliksmafían hafi leyft þeim grænoghvítröndóttu að verða gjaldþrota útaf smáskitnum reikningi frá auglýsingadeild RÚV.
Hinn nýrúðustrikaði fréttaritari hélt sig víðsfjarri fínumannaherberginu og fékk því fregnir af uppstillingu liðsins bara í gegnum Fótbolta-púnkt-net. Óli í markinu. Adam, Kyle og Þorri miðverðir. Már og Alex bakverðir – sá síðarnefndi kominn í byrjunarliðið í stað Halla. Tiago, Fred og Tryggvi á miðjunni. Gummi Magg frammi og svo ungstirnið Viktor Bjarki sem byrjaði að þessu sinni í stað Minga. Við söknum enn Dananna okkar tveggja sem báðir eru meiddir – líklega af því að þeir eru aldir upp í Danmörku og fengu því hvorki lýsi né kókópöffs í barnæsku, en hvort tveggja mun vera bannað í Evrópusambandinu.
Það var hlýtt í veðri og á meðan sólarinnar naut við var hreinlega of heitt og fréttaritarinn reif sig úr jakkanum. Stjórnendur félagsins eru klókir og moka út Fram-sólgleraugum á leikjum, en hvar er Fram-sólarvörnin? Úti á velli var samt nokkur vindur sem Framarar byrjuðu með í bakið í fyrri hálfleik.
Framarar fengu tvö hálffæri á fyrstu mínútunum, bæði upp úr hornspyrnum. Það var hins vegar hinu megin á vellinum sem fyrst dró verulega til tíðinda strax á sjöundu mínútu. Hár bolti barst inn í Framteiginn þar sem einn Blikinn fékk frían skalla sem Óli varði frábærlega, frákastið barst fyrir fætur annars Kópavogsbúa sem skaut þegar að marki á tveggja metra færi en Óli náði einhvern veginn að slæma höndinni fyrir og verja. Algjörlega stórkostlegar vörslur og kraftaverk að gestirnir væru ekki komnir með forystu.
Eftir stundarfjórðungsleik náðu Framarar forystunni. Fred og Tiago tóku stutt horn af þeirri gerðinni sem maður veit að aldrei kemur neitt út úr… nema að núna virkaði það! Fred setti boltann hárnákvæmt á kollinn á Gumma sem stökk upp á nærstönginni og skallaði hárnákvæmt upp í hornið og fagnaði með kúrekadansi að hætti hússins, 1:0.
Forystan entist ekki nema í fimm mínútur. Varnarmenn Framara voru furðulega gjafmildir – og ekki í síðasta sinn í leiknum – og gáfu einum Blikanum alltof mikið pláss í teignum til að snúa sér við með Kyle á bakinu og renna knettinum í netið, 1:1.
Eftir jöfnunarmarkið fóru Framarar aftur að gera sig líklega. Fred átti langskot úr fínu færi en beint á markvörð andstæðinganna á 24. mínútu. Þremur mínútum síðar kom gullfalleg sending í gegnum Blikavörnina á Tryggva sem hljóp upp að endamörkum og þvínæst til hliðar í vítateignum. Hann virtist ætla að bíða of lengi með að ná skoti eða sendingu, en sendi loks á Má sem var í gullnu færi en skaut fast en yfir markið.
Þegar tíu mínútur voru eftir af fyrri hálfleik áttur Viktor og Tryggvi fínasta samleik og voru nærri búnir að prjóna sig alla leið í gegnum Blikavörnina er síðasta snertingin sveik. Á lokamínútu fyrri hálfleiksins var Gummi aflitaðri hársbreidd frá því að ná að skalla inn á Viktor Bjarka sem hefði verið sloppinn einn í gegn. – Af upptalningunni hér að framan mætti ætla að Framarar hafi átt hálfeikinn með húð og hári. Svo var ekki. Blikar fengu líka sín færi en þau eru fæst rakin hér, enda er þetta okkar leikskýrsla á okkar vefsvæði, ef þið viljið lesa eitthvar Blikamont getið þið bara farið á Blikar-púnktur-is þar sem Pétur Már Ólafsson skrifar yfirleitt frábærar leikskýrslur með hátimbruðum bókmenntavísunum.
Það var létt yfir fréttaritaranum, skjaldsveininum og trymblunum tveimur í gildaskála alþýðunnar, Bar-áttunni. Þar voru líka fulltrúar óvinarins, s.s. Gylfi Steinn Gunnarsson Luton-stuðningsmaður og pílukastari, sem er grænn í hjarta en var líka grænn af öfund yfir því hvað aðstaðan er flott hjá okkur í Dal draumanna. Almennur samhljómur var um að leikurinn væri tvísýnn og að rétt væri að gefa Óla Íshólm strax verðlaunin fyrir vörslur ársins.
Eftir hlé kólnaði talsvert eftir að sólin hvarf á bak við ský. Um leið varð vindurinn á vellinum áberandi, sem gestirnir höfðu nú í bakið. Fram gerði engar breytingar í hléi og leikurinn hélt áfram eins og verið hafði með sóknum á báða bóga. Adam missti boltann illa eftir tveggja mínútna leik en Bliki skaut framhjá úr prýðisfæri. Hinu megin voru Tryggvi og Már (þeir ná lygilega vel saman) með fínt samspil sem endaði á að Fred tók skotið en hitti bara aðvífandi varnarmann. Blikar heimtuðu víti strax í næstu sókn en dómarinn lét sér fátt um finnast – lína hans í dómgæslunni var að flauta sem minnst og nánast hvetja liðin til bakhrindinga hvenær sem færi gafst. Sérkennileg lína en það var þó samkvæmni í henni.
Beint eftir vítakallið þurfti Kyle að koma til bjargar þegar sóknarmaður Blika var sloppinn í gegn. Eftir hetjutæklingu settist hann á völlinn og þurfti aðhlynningu. Kalt vatn rann milli skinns og hörunds allra bláklæddra í stúkunni. Hjartað og í sálin í vörninni má ekki meiðast. Sem betur fer hafa sjúkraþjálfarar íþróttahreyfingarinnar fullkomnað læknavísindin með uppskriftinni: kælisprey núna og Voltaren forte í kvöld og okkar allra besti Bandaríkjamaður var kominn á fullt skrið skömmu síðar. Um miðjan hálfleikinn kom Mási boltanum á Fred sem virtist í prýðilegu færi en skaut enn í varnarmann. Besta útflutningsafurð Brasilíu ásamt kaffi hefur átt betri daga en í kvöld.
Handboltamenn eru meistarar tungumálsins og hafa þróað hugtakið „tæknifeill“ um það sem við hin köllum einfaldlega „að missa boltann klaufalega“. Þetta var leikur tæknifeilanna. Raunar urðu flest helstu færi beggja liða til í kjölfar þess að hitt liðið missti boltann frá sér upp úr engu.
Á 73. mínútu reið ógæfan yfir. Framarar misstu boltann í álitlegri sókn og gestirnir brunuðu upp völlinn, stungu Framvörnina af og skoruðu snyrtilega framhjá Óla, staðan orðin 1:2. Framarar jöfnuðu sig ekki á þessu kjaftshöggi og greinilegt var að mjög var af mörgum leikmönnum dregið. Þjálfarateymið hjá Fram er lítið gefið fyrir að skipta inná varamönnum, en við erum með öflugan bekk og mættum að ósekju vera duglegri við að hleypa ferskum fótum inná.
Það segir sína sögu um hvað Framliðið var slegið út af laginu að á 79. mínútu fengu gestirnir hornspyrnu og hver einn og einasti leikmaður Fram dró sig aftur í vítateiginn. Fréttaritarinn hefur aldrei skilið hvers vegna þjálfarar halda ekki amk einum manni frammi í hornum – þó ekki væri nema til að binda þar mótherja – en marki undir er það óskiljanlegt. Sömuleiðis var hvimleitt að sjá leikmenn Fram ítrekað senda boltann alla leið aftur á markvörðinn og láta Óla sparka upp í vindinn í stað þess að sækja fram á við.
Fyrstu skiptingarnar komu þegar tíu mínútur voru eftir. Halli og Freyr komu inná fyrir Viktor Bjarka og Alex, sem hafði látið sína fyrrum félaga finna vel fyrir sér.
Framarar litu aldrei út fyrir að vera líklegir til að jafna og náðarskotin komu svo með tveggja mínútna millibili á 83. og 85.
mínútu þegar Blikar skoruðu tvívegis í bæði skiptin eftir trúðslæti í vörn og markvörslu Fram. Fyrst lak laflaust skot undir Óla og síðan stensváfu varnarmenn okkar meðan Blikar dönsuðu í gegn og breyttu stöðunni í 1:4. Afhroðið hefði getað verið fullkomnað á lokasekúndunum þegar einn Kópavogskóninn átti skot af örstuttu færi sem small í bringunni á Óla og þaðan útaf.
Fyrsta tap sumarsins er staðreynd (nei – við viðurkennum ekki Víkingsleikinn sem tap, það var réttarmorð!) Breiðablik er besta lið sem við höfum mætt í ár og það sást í kvöld. Lokatölurnar gefa þó villandi mynd af leiknum. Engir í Framliðinu brilleruðu í kvöld en engir áttu heldur afleitan leik. Upp með hökuna. Næsta verkefni er að vinna FH í Kaplakrika kvöldið fyrir kjördag.
Stefán Pálsson