fbpx
Fagn mfl. kv. vefur

Aðkomumenn að verki

Þau sem fylgst hafa með fréttum frá Stór-Akureyrarsvæðinu undanfarin ár og áratugi velkjast ekki í vafa um hvaða manngerðir berist fyrst og fremst að varast: það eru aðkomumenn. Hvers kyns spellivirki, gripdeildir, skjalafals og húsbrot sem upp kemst við Eyjafjörð virðist mega rekja til aðkomumanna, sem þekkjast best á linmæli og ófráblásnum lokhljóðum inni í orðum. Svo virðist sem óöldin sé farin að breiðast suður fyrir heiðar og alla leið á stór-Bauhaussvæðið. Í kvöld þurftum við í það minnsta að horfa upp á aðkomulið ræna okkur tveimur stigum um hábjart kvöld! Þetta vill enginn sjá.

Þegar allt er gott og eðlilegt eiga Framarar að leika fullt af fótbolta í júlí og mörkunum að rigna. Að þessu sinni hafa mótanefndin og Microsoft í sameiningu plottað nánast algjöra leikjaþurrð hjá okkar fólki í mánuðinum þar sem öllu öðru hefur rignt en fótboltamörkum. Fréttaritari Framsíðunnar og Hnífsdælingurinn Kristján Freyr þurftu því að rifja upp rangstöðuregluna og fleiri grunnþætti fótboltans á leiðinni í Dal draumanna, til að horfa á Framkonur taka á móti Skaganum. Það er langt liðið á mánuðinn og pyngjur margra farnar að léttast allverulega, en í kvöld skipti að engu máli því höfðingjarnir í rafverktakafyrirtækinu Raflaxi buðu frítt á völlinn. Enginn skal segja Fréttaritaranum annað en að þetta fyrirtækjaheiti hafi verið valið til þess eins að geta samið ferskeytlu með orðinu „graflax“.

Piltarnir úr Hlíðunum voru komnir vel tímanlega fyrir leik og björguðu kvöldverðinum með flatbökusneiðum og dýrindis ostasamlokum sem okkar manneskjur í veitingasölunni göldruðu fram. Milli forréttar og aðalréttar gengu þeir í flasið á sjálfum Togga Pop, altmúlígmanni og andlegum leiðtoga kvennaflokksins, sem rakti allar helstu vendingar í leikmannamálum. Fram er að missa allnokkrar stúlkur út í nám (enn og aftur hefnist okkur fyrir að vera almennt betur gefin en hin liðin) og því var gripið til þess ráðs að fá tvo erlenda leikmenn: markvörð sem kemur í næsta leik og varnarjaxl frá Jamaíku, sem þreytti frumraun sína í kvöld.

Liðið var annars svona skipað (miðað við 3-5-2): Þóra Rún í markinu. Katrín Ásta, Telma og hin nýja Dominiqe í öftustu varnarlínu. Sylvía og Eyrún Vala á köntunum. Emma öftust á miðjunni með Birnu og Mackenzie fyrir framan sig. Alda og Murielle frammi. Að mestu óbreytt lið frá því sem vann frábæran sigur á Selfossi í síðasta leik.

Framliðið hóf sókn gegn smávegis vindi og ætlaði greinilega að láta finna fyrir sér strax í byrjun. En margt fer öðru vísi en ætlað er. Eftir rétt um sex mínútna leik kom löng sending innfyrir sem smaug yfir kollinn á Dominiqe, Skagakona var fljót að hugsa og stakk sér ein í gegn og skoraði auðveldlega, leikurinn varla byrjaður og staðan 0:1. Skemmst er frá því að segja að gestirnir fengu varla meira en 2-3 hálffæri það sem eftir lifði leiks og strax eftir stundarfjórðung var markvörður þeirra farin að reyna að tefja í hvert sinn sem hún átti að koma boltanum frá marki. Þetta var einn af þessum leikjum.

Framkonur létu markið ekki slá sig út af laginu og – það sem meira er – þær létu heldur ekki þokulúðurinn, þjálfara Skagaliðsins, gera það heldur. Téðum þjálfara er vitaskuld vorkunn, þar sem hann er væntanlega alinn upp á Skipaskaga og vanur að þurfa að þenja raddböndin upp í vindinn. Í veðraparadísinni á Lambhagavellinum er hins vegar alveg nóg að nota inniröddina. Muna það næst!

Murielle var nærri því að jafna strax á níundu mínútu þegar hún átti skalla rétt framhjá. Eftir rúmt kortér stakk hún svo Skagavörnina af, hljóp upp að endamörkum og sendi fyrir en Alda náði ekki til boltans. Það tókst henni hins vegar tveimur mínútum síðar eftir snilldarsendingu frá Dominiqe en þrumuskot hennar fór naumlega yfir. Aftur komst Alda í marktækifæri eftir rúmlega hálftíma leik eftir skringilegan misskilning í Skagavörninni, en tilraun hennar til að vippa í netið fór rétt framhjá.

Geysisprettur frá Murielle á 39. mínútu endaði með skoti í hliðarnetið. Tvö þrjú hálffæri fylgdu í kjölfarið en umdeildasta atvikið átti sér stað á síðustu mínútu fyrri hálfleiksins þegar augljóslega virtist keyrt aftan í bakið á Birnu Kristínu inni í Skagateignum en ekkert var dæmt. Dómari leiksins leyfði raunar liðunum að spila af talsverðri hörku, sem kom okkar kröftuga liði prýðilega. Stuðningsmenn ÍA-liðsins höfðu hins vegar lítinn húmor fyrir þessari línu og töldu mjög á sig hallað í dómgæslunni. Þegar kveinstafirnir úr Skagastúkunni keyrðu um þverbak heyrðist nálægur áhorfandi segja stundarhátt: „Úff, þetta er bara eins og maður sé kominn á Stokkseyri!“ (Minnið mig á að nota þann frasa eftirleiðis!)

Flautað var til leikhlés og Fréttaritarinn og Hnífsdalstrommarinn flúðu inn í Framheimilið til að skoða úrslitasíður. Í ljós kom að íslensku liðin höfðu meira og minna tapað fyrir Langtbortistan og Bretzelborg. Hvaðan koma þessir staðir eiginlega? Við Framarar höfum eiginlega aldrei nennt að keppa í Evrópu nema þá helst á móti Barcelona og Real Madrid. – Annars var mál manna í hléi að Fram hefði haft talsverða yfirburði úti á vellinum, pressað vel og haldið boltanum nær allan tímann en kæruleysislegar sendingar á síðasta þriðjungi hefðu tekið sinn toll og í raun hefði liðið ekki skapað mörg færi.

Það var miklu ákveðnara Framlið sem mætti eftir hlé. Skagaliðið, sem hafði jafnt og þétt dregið sig aftar á völlinn frá sjöundu mínútu virtist nú staðráðið í að pakka alfarið í vörn. Frábær þversending frá Murielle strax á annarri mínútu fór fram hjá öllum Frömurum. Aukaspyrnusérfræðingurinn Telma freistaði þess að skjóta undir varnarvegginn úr spyrnu á 50. mínútu, sem skilaði sér í hornspyrnu þar sem stórhætta skapaðist – boltinn virtist á leið í markið en dómarinn hafði flautað sóknarbrot. Mínútu síðar fékk Fram aftur horn en eftir darraðardans í teignum náðu gestirnir að hreinsa frá. Enn leið ekki nema mínúta uns bjartsýnustu Framarar í stúkunni heimtuðu víti eftir að ýtt var á bak Öldu, en svo sanngirni sé gætt (en slíkt er raunar fátítt í þessum pistlum) þá var snertingin alltof lítil til að réttlæta slíkt.

Eftir klukkutíma leik skapaðist mikil hætta eftir að Eyrún Vala var fljót að hugsa, tók innkast hratt á Murielle sem óðu upp og hratt af sér öllum aðvífandi Skagastúlkum, en náði ekki nægum krafti í skot sitt. Strax í kjölfarið gerði Óskar þjálfari fyrstu skiptingu þar sem Eva kom inná fyrir Birnu, sem var skömmu síðar nærri búin að ná stungusendingu frá Murielle en Skagamarkvörðurinn var augnabliki á undan.

Á sjötugustu mínútu sendi Alda á Murielle sem var umvafin varnarmönnum í vítateignum og virtist vera búin að missa knöttinn, þegar hún náði með harðfylgi að toga hann til sín aftur og kom skoti á markið sem slegið var í horn. Upp úr horninu vörðu gestirnir á marklínu.

Eitthvað hlaut undan að láta og þegar rúmur stundarfjórðungur var eftir af venjulegum leiktíma fengu Framarar hornspyrnu, sem Fréttaritarinn giskar á að Eyrún Vala hafi tekið – hann og Hnífsdælingurinn höfðu raunar fært sig til í stúkunni og mun þetta vera í fyrsta sinn í sögu þessara pistlaskrifa að höfundur þeirra hefur neyðst til að flytja sig úr stað til þess að flýja hróp og köll þjálfara hins liðsins! Eyrún (eða hver svo sem tók spyrnuna) sendi stuttan og lágan bolta inn í teig sem barst svo aftur til hennar og þá spyrnti hún fast inn í þvöguna. Mikið fát braust út í vörninni og Sylvía nýtti sér upplausnina og jafnaði metin, 1:1. Frábær leikur hjá Sylvíu í kvöld og var hún verðskuldað valin Dominos-leikmaður kvöldsins.

Fyrir jöfnunarmarkið má segja að bara eitt lið hafi verið á vellinum og það breyttist líkið. Mackenzie átti skot framhjá marki á 81. mínútu. Eyrún Vala fór af velli fyrir Söru Svanhildi. Markvörður Skagakvenna kom sér í stórvandræði þegar hún reyndi að hreinsa frá marki en skaut beint í Murielle sem var nærri búin að ná frákastinu. Sóknarloturnar buldu á Skagamarkinu, en um leið var greinilegt að mjög var af leikmönnum dregið og alltof margar sendingar misheppnuðust. Til að snúa hnífnum í sárinu ákvað dómarinn að sleppa því að dæma vítaspyrnu á lokasekúndum uppbótartímans, þegar varnarmaður ÍA féll til jarðar og endaði nánast með boltann í fanginu. Þjálfarateymi Framliðsins reif hár sitt og skeggrót og það er rétt mögulegt að Fréttaritarinn og trymbillinn hafi sagt upphátt eitthvað sem ekki sæmir miðaldra menningarvitum.

Hundfúlt jafntefli í leik þar sem okkar lið hafði öll heimsins tækifæri til að hirða stigin þrjú. En við virðum þá stigið. Margt jákvætt í spilamennskunni í kvöld og nýjasta viðbótin í vörninni lofar mjög góðu. Eftir örlítið andvaraleysi í markinu í byrjun sló hún ekki feilnótu og á eftir að koma að góðu gagni í lokaátökunum. Næsti leikur hjá stelpunum verður í Kórnum á miðvikudag, en þá verður Fréttaritarinn kominn í frí austur á landi.

Stefán Pálsson

Share this post

Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0

Skráðu þig á póstlistann!

Fáðu allar fréttir, tilboð og aðrar upplýsingar beint í æð!