Einn af þjálfurum Taekwondo deildarinnar, Bjarki Kjartansson, skrapp á dögunum til Kóreu þar sem hann sótti meistaranámskeið á vegum World Taekwondo Headquarters og tók próf úr því í kjölfarið. Um er að ræða alþjóðlegt þjálfaranámskeið þar sem þátttakendur eru fræddir um alla þætti Taekwondo og hvernig þeir eru kenndir.
Að standast þetta námskeið er ein af forkröfunum fyrir það að hljóta titilinn “meistari“ og að geta gráðað aðra iðkendur upp í svart belti. Hin krafan er að taka próf fyrir 4. Dan svart belti, sem Bjarki stefnir á að gera eftir nokkur ár.
Bjarki hafði lokið bóklega prófinu fyrir ferðina þar sem hann tók það á netinu hér heima og stóð það með prýði. Námskeiðið sjálft og verklega prófið þurfti hann hins vegar að taka í sjálfu fyrirheitna landinu, Kóreu.
Fyrstu daga ferðarinnar æfði Bjarki hjá Grandmaster Jeong In-choul sem undirbjó hann fyrir námskeiðið og sá vel um hann á meðan á dvölinni stóð.
Grandmaster Jeong In-choul hefur hefur helgað líf sitt Taekwondo og komið víða við á löngum ferli sínum. Hann leggur mikla áherslu á það sem hann kallar “Combative Taekwondo“ þar sem hann kennir iðkendum sínum að yfirfæra Taekwondo tækni á raunverulegar aðstæður.
Grandmaster Jeong In-choul má finna bæði á Instagram og Facebook og auk þess er hægt að fræðast nánar um Combative Taekwondo hér, en undirbúningur hans og velvild skipti sköpum fyrir okkar mann og kunnum við hjá Taekwondodeild Fram honum góðar þakkir fyrir.
Ferðin var afar lærdómsrík fyrir Bjarka og í heild sinni afskaplega vel heppnuð. Bjarki þarf að vísu að bíða í einhverjar vikur eftir niðurstöðum úr prófinu en við höfum engar efasemdir um að hann hafi staðið prófið með glans og erum afar stolt af okkar manni.