Það er ekki auðvelt fyrir Fréttaritara Framsíðunnar að skrifa um fótboltaleiki Fram og Vals, þar sem hann er faðir fimmtán ára Valsara. Það er einkum erfitt vegna þess að eiginkona Fréttaritarans tekur því yfirleitt frekar illa þegar faðirinn hæðist að táningnum eftir fræga sigra Fram. Það er þó mikilvægt til að styrkja karakter barnsins og kenna því að heimurinn er táradalur. Það verður sofið á sófanum í nótt.
Eftir að hafa rignt niður á tveimur leikjum á Rey Cup og tekist á við örlitla þynnku eftir sérlega velheppnað kvöldverðarboð með góðum vinum daginn áður, var það örlítið framlágur Fréttaritari sem tók leið 18 upp í Dal draumanna tæpum tveimur tímum fyrir leik. Þegar þangað var komið var gesti farið að drífa að í fínumannaboðið þar sem fram var borið lasagne með hvítlauksbrauði. Siggi Tomm og Garðar sendiráðsbílstjóri léku á als oddi og Gullbaukarnir runnu ljúflega niður. Helgi aðstoðarþjálfari mætti og kynnti liðsuppstillingu sem markaðist af meiðslum og leikbönnum. Jannik og Brynjar Gauti voru báðir meiddir og Tryggvi í leikbanni. Varamannabekkurinn var kornungur.
Óli stóð auðvitað á milli stanganna. Kennie, Kyle og Þorri mynduðu illvíga miðvarðalínu með Alex og Halla í bakvarðarstöðunum. Már var færður á miðjuna, en sagan segir að hann munu ekki ná meira en næstu tveimur leikum áður en hann heldur til náms í Bandaríkjunum. Alltaf sorglegt að sjá á eftir ungum mönnum í gin menntunardjöfulsins! Fred og Tiago voru með honum á miðjunni. Mingi og Gummi Magg frammi. Orðið á götunni er að Framliðið sé búið að tryggja sér krafta stórs og stæðilegs hollensks framherja. Er hinn nýi Oerleamans meðal vor?
Eftir að hafa fengið liðsuppstillinguna rölti Fréttaritarinn niður til skrílsins í Bar-áttunni, þar sem Kristján Freyr Hnífsdalstrymill var mættur með sneriltrommuna. Skjaldsveinninn er á Spáni eins og fínn maður í íbúðaskiptum (einhver er nú innkoman) en félagi Rabbi var mættur. Markafleygslausir settust hann og Fréttaritarinn við hliðina á mömmu Guðjónssona og rétt fyrir ofan Geiramenn.
Fyrir leik var hjartnæm stund þar sem Hlynur Atli var heiðraður, en hann lagði á dögunum skóna á hilluna. Hlynur Atli hefur lengi verið einn eftirlætisleikmaður Fréttaritarans og þá einkum fyrir leiðtogahlutverk sitt. Þegar Fram komst upp úr Lengjudeildinni um árið, þá skal það fúslega viðurkennt að sá sem hér stýrir penna átti ekki von á að Hlynur Atli ætti erindi í liðið, en fljótlega varð hann fyrsti maður á blað og sárlega saknað þegar hans naut ekki við. Eitthvað segir manni að við eigum eftir að njóta krafta hans áfram í framtíðinni í gegnum stjórnir og trúnaðarstörf.
Leikurinn hófst með látum. Fram lék undan sterkum vindi og rigningu og Fred klippti boltann framhjá með hálfgerðri bakfallsspyrnu eftir sendingu frá Gumma strax á annarri mínútu. Þremur mínútum síðar leit fyrsta dauðafærið dagsins ljós þegar Mási lyfti boltanum fyrir markið þar sem Alex kom aðvífandi en sópaði yfir markið af örstuttu færi. Mínútu síðar var Mingi nánast sloppinn í gegnum Valsvörnina. Framarar ætluðu greinilega að byrja af krafti!
Fyrsta markið kom á tíundu mínútu og var nokkuð óvænt. Már var með boltann við vítateigsbogann og lét vaða, skotið virtist hættulítið en varnarmaður Vals stökk fyrir það og af honum hrökk boltinn í fallegum boga yfir markvörðinn sem átti aldrei möguleika, 1:0.
Valsvörnin virtist sundruð og óskipulögð og Framarar sóttu að vild með sterkan vindinn í bakið. Eftir tuttugu mínútna leik átti Fred fína sendingu á Minga sem náði föstu skoti en beint á Valsmarkvörðinn. Þremur mínútum síðar settu Valsmenn boltann í netið úr sinni fyrstu almennilegu sókn, en rangstöðuflaggið var löngu komið á loft.
Þegar foreldrar Fréttaritarans voru grunnskólabörn, var þeim kennt að málfræðingurinn Rasmus Kristján Rask, hefði veriði eini góði Daninn í sögu Íslands. Núna eru þeir orðnir tveir – og hinn heitir Kennie Chopart. Á 25. mínútu ákvað danski miðvörðurinn að stinga af alla Valsvörnina, leika upp að endamörkum og krossa fyrir á Má sem sendi inn í teiginn, þar var Gummi Magg keyrður niður og vítaspyrna réttilega dæmd. Athygli vakti að Fred fór á punktinn og þrumaði í markið, óverjandi fyrir markvörðinn sem þó valdi rétt horn, 2:0.
Fjórum mínútum síðar hefði stðan hæglega getað orðið 3:0 þegar Kennie þrumaði rétt yfir úr góðu færi. Uppgjöf gestanna var algjör. Á 32. mínútu var niðurlæging þeirra nánast fullkomnuð þegar Kennie prónaði sig í gegnum steinsofandi vörnina og endaði á að setja boltann í fjærhornið með hnitmiðuðu skoti sem sérhver framherji hefði verið fullsæmdur af, 3:0.
Stuðningsmenn Vals, allir fjörutíu, voru slegnir út af laginu og það sama gildir um leikmennina. Á 39. mínútu náðu rauðklæddir þó aðeins að klóra í bakkann þegar Framvörnin opnaðist nokkuð óvænt, 3:1. Tiago fékk aukaspyrnu á besta stað mínútu síðar en skaut rétt yfir. Sama gerðu þeir Mingi og Fred beint í kjölfarið og á lokamínútinni skaut Kennie rétt framhjá eftir flottan einleik.
Það var létt yfir mannskapnum í Bar-áttunni í hléi. Það að vinna KR er alltaf skemmtilegt, en í seinni tíð geta allir gert það. Að vinna Val er hins vegar jólin, páskarnir og afmælið manns! Það vakti þó ákveðinn ugg að Gummi Magg var haltrandi frá 35. mínútu og fæstir gerðu ráð fyrir að hann myndi hefja leik eftir hlé – og þá yrði fátt um fína drætti af bekknum.
Seinni hálfleikur hófst og óhætt er að segja að Valmenn hafi byrjað með stórsókn. Fyrsta kortérið buldu sóknirnar á Framvörninni, sem dró sig jafnt og þétt aftar á völlinn. Við náðum aldrei að halda boltanum á miðjunni og andstæðingarnir hófu nýja sóknarlotu fáeinum sekúndum eftir að þeirri fyrri slotaði. Strax á fyrstu mínútunum nötraði Framstöngin eftir bylmingsskot.
Kyle baut klókindalega á Valsmanni rétt fyrir utan vítateig á 52. mínútu og Valsmaðurinn sem spilaði lengi á Bretlandseyjum en verður ekki nafngreindur hér í pistlinum því maður verður að halda í einhver prinsip skaut rétt framhjá í kjölfarið. Tveimur mínútum síðar varði Óli frábærlega skot frá téðum Bretlandsfara. Enn og aftur átti Óli stórkostlega vörslu eftir skot frá sama leikmanni á 56. mínútu og á næstu fimm mínútum sá Fréttaritarinn ástæðu til að hripa niður þrjár góðar vörslur frá okkar allra besta markverði. Óli Íshólm átti erfitt uppdráttar á síðasta tímabili og var oft lítill í sér, en það hefur verið allt annað að sjá til hans í ár þar sem hann er klárlega einn af betri markvörðum deildarinnar. Rökrétt er að tengja það beint við Gareth Owen, markmannsþjálfarann sem Rúnar kom með sér og sem kunnugir segja að hafi rifið upp markvörsluna í félaginu.
Á þessum tímapunkti var það orðið nokkuð áhyggjuefni hversu mikil einstefna leikurinn var orðinn. Valsmenn sóttu og sóttu en okkar menn lögðu rútunni fyrir framan markið. Með sterkan mótvind var bara spurning hversu lengi þetta gæti varað. Valsmenn vildu víti á 65. mínútu og séð úr fjarska virtist það ekki alveg fráleit hugmynd. Skömmu síðar settist Gummi Magg niður og hafði lokið leik eftir magnaða baráttu. Adam kom inná í hans stað, í skiptingu sem verður seint talin mjög sóknarsinnuð…
Valsmenn áttu skot framhjá á 70. mínútu en mesti sóknarþrótturinn virtist úr þem. Sóknarleikur þeirra þýddi líka að Fram gat alltaf ógnað með skyndisóknum og á 73. mínútu vann Fred boltann á miðjunni, tók á rás, sendi til hliðar á Má sem skilaði boltanum aftur á uppáhalds Brasilíumanninn okkar sem setti hann í bláhornuð, 4:1 og leikurinn nálega búinn.
Til að fagna fjórða markinu fór Fréttaritarinn á salernið og missti því af skiptingunni þar sem Mingi fór útaf fyrir Frey, sem hljóp um stuttur og rauðbirkinn allt til loka, nákvæmlega eins og við viljum. Valur reyndi að sækja af litlum mætti en Óli og vörnin sáu við öllu sem að þeim var rétt. Í Uppbótartíma gerðu Rúnar og félagar tvöfalda skiptingu þar sem Alex og Már fóru af velli en Sigfús Árni og Markús Páll komu inná, sá síðarnefndi í sínum fyrsta meistaraflokksleik og ástæða til að óska honum til hamingju með það. Síðustu mínúturnar voru Framarar mun nær því að bæta við fimmta markinu en Hlíðarendapiltar að klóra í bakkann og Fred þrumaði yfir úr flottu færi á lokasekúndunum.
Það voru kúguppgefnir Framarar sem fögnuðu frægum sigri með siggasagga í leikslok. Már Ægisson var verðskuldað valinn maður leiksins. Hann var frábær á miðjunni, en Kennie og Óli hefðu báðir komið til greina. Fred var líka frábær og í raun var frammistaða alls liðsins til fyrirmyndar. Fréttaritarinn missir illu heilli af næsta leik, gegn Fylki í Árbæ, en treystir því að Framarar fjölmenni og við höldum sigurgöngunni áfram gegn reykvískum liðum.
Stefán Pálsson