„Það mælti það ok mín móðir / að mér skyldi kaupa senn / til hreystiverka hænuegg / til að henda í göngumenn.“ – Svo orti söngvaskáldið Böðvar Guðmundsson í óð sínum um táninginn af Arnarnesinu sem var sendur út af örkinni til að grýta grandvara herstöðvaandstæðinga sem gengu frá Keflavík til að mótmæla hernaðarbrölti og beisnum á Heiðinni. Kvæðið endar á að sögumaður tekur út þroska og endar á að ganga með „framsóknarliði sem þorir og fylkingarliðið gott – í kommúnista og kratastóð sem kveða herinn brott!“
Böðvar Guðmundsson orti þennan brag í hringiðu Kalda stríðsins um þau félagslegu og menningarlegu átök sem fylgdu deilunum um her í landi. En í raun hefði hann allt eins geta samið hann um viðureign kvöldsins, frægan sigur Framarar, móðurskips íslenskrar knattspyrnu, á Garðabæjarpiltum sem lögðu af stað í leiðangur í von um hreystiverk og eggjakast en lærðu þess í stað dýrmæta lexíu.
Það var hlýtt á Lambhagavelli í kvöld – sem vænta mátti í veðraparadísinni. Skömmu áður en fréttaritari Framsíðunnar vappaði út á strætóstöð rifu himnarnir af sér þykkustu skýjahulurnar með ærlegri dembu, sem gerði ekki annað en að bleyta enn betur upp í gervigrasinu. Klukkutíma fyrir leik stoppaði leið átján á Úlfarsbrautinni. Þá þegar var orðið prýðilega mætt í fínumannaboðið. Fréttaritarinn, einn á ferð þar sem Skjaldsveinninn var fastur í tollinum í Leifsstöð á leið heim eftir enn eina sólarlandareisuna, tyllti sér hjá foreldrum Þorra varnarjaxls. Þorbjörn Atli upplýsti að sonurinn hefði lofað því að skora í leiknum. Höskuldarviðvörun: hann skoraði ekki í leiknum.
Helgi Sig mætti og gerði grein fyrir liðsuppstillingu og uppleggi. Þau tíðindi voru helst að hollenski framherjinn, sem fréttaritarinn er að hugsa um að kalla Djenairo alltaf þegar við vinnum en Daniels þá sjaldan sem við töpum, fór í byrjunarliðið. Það var annars skipað sem hér segir: Óli í marki. Kennie, Kyle og Þorri í miðvörðum. Mási og Halli bakverðir. Tryggvi aftastur á miðjunni. Fred og Tiago fyrir framan hann. Gummi Magg og Djenairo fremstir. Sókndjörf og kraftmikil uppstilling.
Eftir rúmlega hálftímasetu í fínumannaboðinu var tímabært að rölta niður í almenninginn og þar var valinkunnur skríllinn. Hirðtölfræðingurinn Jón Einar var mættur í fullum skrúða, hafandi brugðið sér í borg óttans til að láta Kjarra tannlækni skrapa burt tannsteininn. Fréttaritarinn getur vottað að enginn er betri í að skrapa burtu tannstein en félagi Kjartan Þór Ragnarsson, enda kemur hann fram við allar tennur eins og Fram-tennur. Flautað var til leiks og fréttaritarinn þefaði uppi Rabba og synina tvo, sem voru nýkomnir úr Dalslaug.
Stjarnan fékk fyrsta hálffærið í leiknum eftir rúma mínútu en eftir það tóku Framarar völdin og náðu hverri sóknarlotunni á fætur annarri. Flestar þeirra áttu það sameiginlegt að byrja á löngum sendingum yfir á Mása sem skeiðaði upp hægri kantinn að vild án þess að Stjörnuvörnin fengi við neitt ráðið. Strax á níundu mínútu átti Fred gullsendingu þá leiðina en fyrirgjöf Más á Djenairo skilaði engu. Sá hollenski mætti þó greinilega til leiks staðráðinn í að láta finna fyrir sér og hljóp út um allt nánast allan tímann sem hann var inná.
Á tólftu mínútu sá Tiago að Stjörnumarkvörðurinn stóð of framarlega og frestaði þess að vippa yfir hann af löngu færi, en án árangurs. Rétt í kjölfarið áttu Már og Tryggvi flottan samleik upp kantinn sem lauk með þrumuskoti þess síðarnefnda í hliðarnetið, að því er virtist með viðkomu í varnarmanni.
Tryggvi kom aftur við sögu í besta marktækifæri fyrri hálfleiksins þegar klukkar sýndi 23 mínútur. Hann átti langa sendingu á Fred sem náði af harðfylgi að snúa af sér varnarmann, sólaði sig svo einn í gegn og komst í opið færi einn á móti markverðinum, sem náði að verja með fætinum – dauðafæri og gestirnir stálheppnir. Tveimur mínútum síðar tognaði Tiago aftan í læri og þurfti að yfirgefa völlinn skömmu síðar. Inná kom Freyr, eftirlætis Hornfirðingur okkar allra, og átti eftir að láta til sín taka.
Framarar vildu fá víti á 35. mínútu eftir að boltinn hrökk í hönd Stjörnumanns. Á þessum tímum vídeódómgæslu er alltaf erfitt að leggja mat á svona atvik. Í leik með vídeóteymi hefði niðurstaðan líklega alltaf orðið vítaspyrna, en út frá brjóstvitinu var það líklega rétt ákvörðun hjá dómaranum að sleppa því. Fimm mínútum síðar gerði Djenairo vel í að prjóna sig í gegnum garðbæsku vörnina en markvörðurinn sló skot hansframhjá á síðustu stundu.
Á lokamínútu fyrri hálfleiks virtust Framarar eiga mun sterkara tilkalls til vítaspyrnu en í fyrra tilvikinu, þar sem Tryggvi skaut föstu skoti í útrétta hönd varnarmanns eftir fínan undirbúning Mása og Freys. Ekkert var þó dæmt og skömmu síðar flautað til leikhlés.
Bar-áttan iðaði af lífi á hálfleik. Framstuðningsmenn voru almennt sáttir. Óli hafði ekki fengið á sig skot í leiknum en kollegi hans hinu megin þurft að bjarga glæsilega í tvígang. Það sjónarmið heyrðist þó að sóknarleikur okkar manna væri ekki nægilega hraður og ástæða væri til að óttast skyndisóknir hinna. Myndu vallarhelmingaskiptin breyta leiknum?
Stutta svarið var: nei! Framarar mættu enn ákveðnari til leiks í seinni hálfeik og strax á fyrstu mínútu kom Gummi sér í upplagt færi, en var flaggaður rangstæður. Beint í kjölfarið lagði Gummi upp prýðis marktækifæri fyrir Kennie sem skaut framhjá. Enn liðu fáeinar mínútur uns Halli átti frábæra aukaspyrnu inn í teiginn sem Kyle skallaði með hnakkanum, en Stjörnumarkvörðurinn – þeirra langbesti maður í leiknum – varði vel.
Þegar rúmar tíu mínútur voru liðnar af seinni hálfleiknum tók Freyr á rás. Varnarmenn Stjörnunnar gerðu hverja tilraunina á fætur annarri til að sparka hann niður – þá þriðju og síðustu inni í vítateig. Okkar maður stóð þær allar af sér og dómarinn dæmdi ekkert. Látum vera að Freyr hafi ekki fengið vítið, en þá hefði verið hægðarleikur að dæma á annar hvort hinna brotanna. Raunar voru hugmyndir um framkvæmd hagnaðarreglunnar mjög á floti í leiknum.
Eftir tæplega klukkutíma leik náðu Stjörnumenn í fyrsta sinn að skapa almennilega hættu með bylmingsskoti yfir Frammarkið. Bláklæddir voru fljótir að svara. Kennie átti glæsilega sendingu á Mása sem hljóp upp að endamörkum, sendi fyrir þar sem Stjörnumarkvörðurinn virtist ætla að grípa auðveldlega, en þá skaut Djenairo fram álkunni og skallaði af krafti í nærhornið, frábært mark og staðan 1:0.
Hollenski turninn fagnaði vel fyrsta marki sínu af mörgum fyrir Fram, en nánast um leið var ljóst að hann var búinn með síðustu bensíndropana. Eftir að hafa lagst í völlinn með krampa fékk hann verðskulda skiptingu á 64. mínútu. Mingi kom inn í hans stað og átti sú skipting eftir að reynast heilladrjúg.
Stjörnumenn höfðu ekki séð til sólar í leiknum og máttu teljast heppnir að vera ekki 2-3 mörkum undir. En eins og bölsýnismennirnir í Bar-áttunni höfðu bent á, þurfa framherjar þeirra hvorki mikinn tíma né pláss. Á 73. mínútu, upp úr nákvæmlega engu, prjónaði einn Garðbæingurinn sig í gegnum fjóra Framara, lagði boltann út á samherja sinn og sá jafnaði metin. Sorglega auðvelt mark og ekki varnarleikur sem við viljum sjá.
Myndi þetta mark, þvert gegn gangi leiksins, slá Framara út af laginu? Myndu gestirnir jafnvel færa sig upp á skaftið og grýta saklaust göngufólk með eggjum (jújú, við erum enn að vinna með þessa myndlíkingu)? Ónei! Drengirnir hans Rúnars blésu strax til nýrrar sóknar. Freyr og Mingi komu sér í færi strax tveimur mínútum síðar og Stjörnumarkvörðurinn mátti taka á honum stóra sínum til að grípa aukaspyrnu frá Fred. Fred og Kennie áttu svo prýðilega sóknarlotu þegar fimm mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma.
Stjörnumenn hugsuðu um það eitt að halda fengnum hlut og klukkan var á þeirra bandi. Tíminn leið og tilkynnt var að fimm mínútum yrði bætt við. Framarar fengu aukaspyrnu á miðjum vallarhelmingi Stjörnumanna. Það dróst að taka hana og einhverjir virtust gera ráð fyrir því að Framarar myndu gera skiptingu, þar sem Tryggvi hafði fengið krampa og virtist ekki líklegur til að halda áfram. En skiptingin fékk að bíða og Fred sá að Garðbæingar sváfu á verðinum í vörninni. Hann sendi hárnákvæman bolta með jörðinni á Magnús Inga sem var allt í einu óvaldaður í miðjum vítateignum og skoraði glæsilega í fjærhornið, 2:1 og allt trylltist í stúkunni!
Adam leysti Tryggva af hólmi eftir markið en gestirnir voru búnir á því og náðu ekkert að ógna þessar mínútur sem eftir lifðu. Frábær sigur og stigataflan farin að líta virkilega vel út.
Már var réttilega valinn maður leiksins. Frammistaða hans í síðustu leikjum hefur verið stórkostleg og hans verður sárt saknað núna þegar hann heldur til náms í Bandaríkjunum. Freyr, Fred og Kennie voru sömuleiðis frábærir í kvöld og í raun á allt Framliðið hrós skilið. Næsta stopp Skipaskagi á eftirlætisleiktíma okkar allra: klukkan sex á mánudegi.
Stefán Pálsson