fbpx
FRAM - ÍR

Í okkar höndum

Þorum bara að segja það upphátt: Knattspyrnufélagið Fram ætlar að keppa í efstu deild kvenna á næsta ári í fyrsta sinn frá árinu 1988. Bara svo það sé sett í samhengi: síðast þegar Framkonur léku í efstu deild var Þorsteinn Pálsson forsætisráðherra. Ungir og efnilegir strákar í hljómsveit sem kallaði sig Sálin hans Jóns míns voru að spila á sínum fyrstu tónleikum og stórmyndin Foxtrot var frumsýnd í bíó: „Ertu brjálaður Kiddi? Hvernig ætlarðu að útskýra allt þetta blóð?“

Leikur Fram og Gróttu á Lambhaganum í Dal draumanna í kvöld var alvöru toppslagur. Austurlandskonur hafa þegar tryggt sér toppsætið og eru meira að segja búnar að senda heim svindlkonurnar sínar tvær. Hitt Bestudeildarsætið mun án nokkurs vafa koma í hlut Fram eða Gróttu. Fyrir leikinn voru Seltirningar með þriggja stiga forystu en lakari markatölu. Sigur myndi setja okkur í bílstjórasætið, allt annað þýddi að dætur Vivaldi-vafrans væru komnar langleiðina upp.

Fréttaritarinn mæti var bundinn í sögugöngu í miðbænum og kom því ekki fyrr en rétt fyrir leik. Samt nógu snemma til að ná að grípa sér ljúffengan Framborgara, enda búið að virkja grilldeildina sérstaklega í tilefni dagsins. Hnífsdalstrymbillinn var mættur, nýkominn frá því að hljóðrita glóðheitan þátt af Upp með sokkana – sem er víst hlaðvarpið sem allir svölu krakkarnir fylgjast með. Skjaldsveinninn lét fljótlega sjá sig. Þremenningarnir hlömmuðu sér niður aftarlega í stúkunni, með Sigurð Frey í röðinni fyrir framan og íþróttafréttamanninn Þorkel Gunnar til vinstri handar. Sigurður Freyr og Þorkell Gunnar eru báðir gamlar Gettu betur-kempur. Það væri kannski óvísindalegt að fullyrða að Framarar séu upp til hópa fróðari en fólk almennt, en það er samt erfitt að líta fram hjá vísbendingunum.

Veðrið var frekar napurt. Hryssingslegt í stúkunni og hvasst úti á velli. Það var hins vegar fullt af fólki. Nánar tiltekið 379 manns, sem er fantagott á miðvikudagskvöldi. Frítt var á völlinn í boði Litlu bílasölunnar, hvað allir athugi! Byrjunarliðið var svona: Alia í marki. Erika og Dominiqe í miðvörðum. Sylvía og Katrín Ásta bakverðir. Emma öftust á miðjunni Birna Kristín og Mackenzie á köntunum. Sara fremst á miðjunni og Alda og Murielle frammi.

Leikurinn hófst og Framkonur byrjuðu með látum. Stærðar- og styrkleikamunurinn var öllum ljós. Framliðið er líkamlega sterkt og það er örugglega leiðinlegt að spila á móti okkur. Gróttukonur voru margar hverjar flinkar og leiknar, en þær voru táningar á móti fullorðnum leikmönnum, þar sem megnið af byrjunarliðinu var fætt á bilinu 2003 til 2009. Fréttaritarinn á son fæddan 2009 og sá var rétt að læra að reima skóna sína í fyrradag!

Það þurfti ekki að bíða lengi eftir fyrsta markinu. Dominiqe átti langa sendingu fram á Murielle sem brunaði upp kantinn eins og hraðlest, Gróttuvörnin átti enga möguleika á að hanga í henni, sendingin fyrir var ætluð Öldu sem var mögulega hrint í samstuði við markvörðinn en það skipti ekki máli þar sem boltinn hrökk á Mackenzie sem þrumaði upp í þaknetið, 1:0 og markapelinn dreginn á loft. Góðu heilli var mildur láglendingur í fleygnum að þessu sinni en ekki einhver taðreyktur eyjaruddi sem virkar verr í stórum skömmtum.

Gróttustúlkur létu markið ekki slá sig út af laginu og komu sér fljótlega í tvö þokkaleg færi. Það seinna endaði með hornspyrnu á 17. mínútu sem okkar konum tókst afleitlega að hreinsa frá og eftir þvögu í teignum lá boltinn í netinu, 1:1. Eftir jöfnunarmarkið jókst sóknarþungi Framliðsins á ný. Í hvert sinn sem Murielle komst aðeins á skrið fór allt í uppnám Gróttumegin, enda leikmennirnir flestir fimm árum og ungar og tíu kílóum of léttar til að hafa nokkuð í hana að gera. Eftir tæpan hálftíma hrissti hún af sér einn eða tvo Seltirninga og átti svo sendingu á Öldu sem gerði vel í að halda boltanum inná við endamörk, lék á mótherja – sleppti því að láta sig falla til að sækja auðvelda vítaspyrnu, en kom boltanum út á Söru Svanhildi sem afgreiddi boltann af öryggi í netið, 2:1.

Sara peppaðist mjög upp við markið og lenti fljótlega í útistöðum við Gróttustelpu, þar sem hún uppskar gult spjald og fékk svo tiltal og braut af sér rétt í kjölfarið. Hún hékk þó inni á vellinum og náði að róa sig aftur niður í seinni hálfleiknum og klára leikinn.

Framarar virtust sáttar við forskotið og fóru þegar að byrja að drepa niður leikinn. Grótta átti eitt háskalegt skot að marki, en annars var lítið í gangi. Það var því nánast upp úr engu að okkar konur tvöfölduðu forystuna. Murielle fékk boltann vel fyrir utan vítateig og var leyft að athafna sig þar óáreittri, sem er aldrei góð hugmynd. Hún gaf sér góðan tíma og lyfti svo boltanum í fallegum boga yfir fremur lágvaxinn markvörð hvítklæddra, 3:1 og útlitið orðið býsna gott.

Það var létt yfir Frömurum í Bar-8unni í leikhléi. Þar mátti líka sjá stóran hóp fólks sem fylgdi Gróttuliðinu á leikinn. Grótta er vinalegt félag og aldrei verið hægt að kvarta yfir móttökunum á Nesinu. Ef þeim tekst að halda utan um þennan hóp getur þetta lið náð langt á næstu árum.

Óskar Smári gerði eina breytingu í hléi. Eydís Arna kom inná fyrir Katrínu Ástu. Dagsskipunin var augljóslega að halda áfram að drepa niður leikinn til að halda fengnum hlut. Þar var Dominiqe í aðalhlutverki. Einhverra hluta vegna virtist Gróttuliðið reyna að fara með allar sínar sóknartilraunir í gegnum hana, en hún braut þær allar á bak aftur. Á fimmtu mínútu seinni hálfleiks fékk hún svo fullkomlega óverðskuldað gult spjald eftir frábæra og algjörlega löglega tæklingu.

Grótta náði sínum sóknarlotum en Framliðið var aldrei langt undan heldur. Birna Kristín átti skot sem var varið eftir darraðardans. Til marks um örvæntingu gestanna gerðu þeir þrefalda skiptingu þegar klukkutími var á klukkunni. Beint í kjölfarið mátti þó minnstu muna að Alda yki muninn enn eftir stórkostlega stungusendingu, en lokaafgreiðslan var ekki nógu góð.

Birna fór af velli fyrir Júlíu Margréti á 66. mínútu og nánast í sömu andrá steinsofnaði Gróttuvörnin, Murielle komst ein í gegn en skot hennar var furðukærileysislegt og dauðafærið rann út í sandinn. Dominiqe, sem er nýi uppáhaldsleikmaður fréttaritarans átti stungu á Murielle á 78. mínútu, hún sendi fyrir á Öldu sem átti ekki í vandræðum með að skora, 4:1. „Ég ætti greinilega að vera duglegri að mæta á kvennaleiki“, sagði Skjaldsveinninn um leið og hann dró markafleyginn upp í enn eitt skiptið…

Ólína kom inná fyrir Söru þegar tíu mínútur voru eftir. Fátt dró til tíðinda ef frá var talin fáránlega augljós vítaspyrna sem Alda átti að fá á lokamínútunum en fékk ekki. Æh, dómgæslan var samt bara fín miðað við það sem við höfum mátt venjast í sumar svo við kvörtum ekki.

Mikill fögnuður í stúkunni um leið og flautað var til leiksloka og ziggi-zaggi tekinn af fádæma krafti. Framkonur eru nú í þeirri öfundsverðu aðstöðu að hafa örlögin í eigin höndum. Markatölumunurinn er slíkur að ef Fram vinnur Grindavík annan laugardag og Austfirðinga vikuna þar á eftir, þá erum við komin aftur til ársins 1988 með Steina Páls í Stjórnarráðinu og Foxtrot í bíó.

Stefán Pálsson

Share this post

Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0

Skráðu þig á póstlistann!

Fáðu allar fréttir, tilboð og aðrar upplýsingar beint í æð!