Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna, mun fá símtal eldsnemma í fyrramálið með harðorðri kvörtun yfir óvönduðum viðskiptaháttum. Fyrir leik Breiðabliks og Fram í Bestudeildinni í kvöld höfðu heimamenn auglýst að allir sem mættu grænklæddir fengju frítt inn. Vissulega örlítið ónærgætið fyrir afkomendur Reynisstaðabræðra og Valtýs á grænni treyju – en hver slær hendinni á móti frímiða á fótboltaleik? Fréttaritarinn, í fína Svals & Vals-bolnum sínum og svarta regnjakkanum stakk þunnri ullarpeysu í annan vasann en grænum fótboltatrefli, merktum ungverska liðinu Ferencvaros í í hinn.
Í hliðinu kom í ljós að grybburnar í miðasölunni höfðu engan húmor fyrir tiltækinu. Það var ekki nóg að vera grænn – heldur þurfti maður að að vera af hárréttum grænum litatón og helst merktur Breiðabliki. Fréttaritarinn þurfti því að borga uppsett verð í stað þess að einhver tuskubúðin niðurgreiddi aðgangsmiðann. Heimurinn er táradalur og Ungmennafélagið mun fá að heyra í lögfræðideild Móðurskipsins.
Það var annars ljúfur upptaktur að stórleik kvöldsins. Félagi Gylfi Steinn, Bliki og þjáningarbróðir fréttaritarans í Luton-blæti, bauð til fordrykkjar og kvöldverðar einhversstaðar uppi við Elliðavatn. Þangað var einnig stefnt Skjaldsveininum Val Norðra og Gunnari Steini föður gestgjafans. Þeir feðgar efndu til matreiðslukeppni: hvor gæti boðið upp á ljúffengari kjúklingavængi. Sá eldri vann.
Eftir vængjaveisluna var tímabært að renna suður í Smárahverfi og á leiðinni var Rabbi trymbill sóttur. Fimmmenningarnir komu sér fyrir á besta stað, Frammegin í stúkunni, rétt fyrir innan mömmu Guðjónssona, Þorbjörn Atla og sætaröð neðar en Kanslarinn og fótboltanördið Halldór Örn. Á svipuðum slóðum var hávær hópur stuðningsmanna sem hljómaði breskur, en virtist þó vera einkaklapplið Janniks Poul. Addi í bankanum var hvergi sjáanlegur og er það líklega ástæðan fyrir að fór sem fór.
Framliðið var nokkuð breytt, bæði taktískt og vegna meiðsla leikmanna. Óli var í markinu. Þorri, Kennie og Kyle voru í miðvörðum, með Halla og Alex í bakvörðum. Orri í sexunni, Fred og nýi Daninn – Gustav Dahl – á miðjunni. Mingi og Daniels frammi. Þetta var uppstilling sem vantaði talsvert upp á á miðjusvæðinu, með Tiago og Tryggva báða utan hóps.
Blikar byrjuðu með látum og höfðu öll völd á vellinum strax frá fyrstu mínútunum. Frömurum gekk illa að losa boltann framávið en heimamenn sköpuðu sér færi með stigvaxandi þunga. Þrátt fyrir stöðulega yfirburði Blika voru Framararnir næst því að pota inn fyrsta markinu þegar Daniels var næstum búinn að stela boltanum eftir kæruleysislega sendingu í varnarlínu Kópavogsbúa.
Eftir nokkur Blikafæri kom að því að varnir Framara brystu. Vörnin var sundurspiluð og heimamenn komust í 1:0 eftir tæplega tuttugu mínútur. Í kjölfarið virtist annað eða jafnvel þriðja mark heimamanna liggja í loftinu, þar sem okkar menn virtust ekki með í leiknum. Myndum við sleppa inn í hlé bara einu marki undir?
Þegar hálftími var liðin náði Framliðið að skapa sér færi upp úr engu. Fred vann boltann aftarlega á vellinum, tók á skeið og átti svo góða sendingu inn á Magnús Inga sem lék út að vítateigshorni, þar sem hann lét vaða – hárnákvæmt – í markhornið 1:1 og leikurinn óvænt galopinn á ný! Tíu mínútum síðar átti Fred á ný stórkostlega sendingu á Minga sem að þessu sinni fékk alltof langan tíma til að hugsa sig um, freistaði þess að senda á Daniels og dauðafærið gufaði upp. Á lokamínútunni átti Kennie svo bylmingsskot, naumlega framhjá marki. Framarar höfðu verið yfirspilaðir í fyrri hálfleik, en höfðu samt fengið þrjú bestu færin og staðan var ennþá jöfn!
Það var létt yfir gestum jafnt sem heimamönnum í hléi. Kópavogsvöllurinn er einhver sá skemmtilegasti heim að sækja í deildinni og stemningin afslöppuð.
Fram gerði tvær breytingar um leið og seinni hálfleikur hófst. Orri, sem hafði staðið sig prýðisvel, fór af velli fyrir Adam og Freyr leysti nýja Danann af hólmi. Sá síðarnefni hafði nánast ekkert komið við sögu í leiknum og þarf að eiga talsvert meira inni til að verðskulda sæti í framtíðinni. Freyr kom hins vegar sterkur inn og ógnaði talsvert.
Framliðið byrjaði betur í seinni hálfleiknum og náði oft upp lipru spili. Það voru hins vegar Blikar sem náðu forystunni eftir rúmar tíu mínútur og nánast upp úr engu þegar löng sending rataði á einn Blikann sem skoraði alltof auðveldlega, 2:1. Við þetta mark datt botninn úr leik okkar manna. Ef undan er skilið hörkufæri Freds mínútu síðar.
Á 64. mínútu var aukaspyrna dæmd á Alex, rétt fyrir utan vítateig. Ekki tókst þó betur til en svo að Alex meiddist í brotinu og var borinn sárþjáður af velli. Þegar loksins tókst að taka spyrnuna eftir langt hlé rataði hún beint í markhornið, staðan orðin 3:1 og leikurinn nálega útkljáður.
Gummi tók stöðu Alex en náði ekki að láta mikið fyrir sér fara. Leikurinn smákoðnaði niður. Á 85. mínútu átti Fred þó bylmingsskot í samskeytin úr aukaspyrnu og í kjölfarið varð mikill darraðardans í teig Blika. Lokastaðan 3:1 og ekki hægt að kvarta yfir úrslitunum. Miðjan var sundurtætt í dag og það leyndi sér ekki. Við þurfum að tjasla henni saman til að fá eitthvað út úr næsta leik á sunnudag – en í millitíðinni hugsum við öll um stórleikinn: Fram – Grótta á miðvikudag, sem gæti ráðiði úrslitum í Lengjudeild kvenna. Þangað mæta allir svölu krakkarnir.
Stefán Pálsson