fbpx
Djenario gegn FH

Bolurinn

„Þú ert ekkert að grínast með veðrið á þessum velli!“ – sögðu pattaralegir blaðamenn Fótbolta.net þegar þeir óðu í beint í flasið á fréttaritara Framsíðunnar í leikslok á Lambhaganum í Úlfarsárdal. Fréttaritarinn grínast aldrei. Dalur draumanna er staddur í öðru veðrakerfi en restin af höfuðborgarsvæðinu. Alls staðar annars staðar í bænum var veður fyrir úlpu, en í glampandi sólinni í stúkunni á leik Fram og FH voru langflestir búnir að rífa af sér yfirhafnirnar, sátu á bolnum og bölvuðu því að hafa skilið sólgleraugun eftir heima.

Fréttaritarinn lét eldri táninginn skutla sér á völlinn og var mættur snemma. Hann var einn síns liðs. Labbakútarnir sessunautar hans voru ýmist norður í landi að pynta laxfiska eða í útlandinu að fokka upp vöruskiptajöfnuðinum. Meira að segja Hnífsdalstrymbillinn var hvergi sjáanlegur. Fréttaritarinn tékkaði á fínumannaboðinu, sem var fremur fáskipað. Þjálfarateymið hafði ekki tíma til að kynna byrjunarliðið og gekk Gummi Torfa því í málið af alkunnri röggsemi. Talsverð forföll voru, einkum vegna meiðsla. Tryggvi og Kyle báðir meiddir líkt og í fyrri viðureign og Jannik sömuleiðis. Að auki hafði Óli Íshólm orðið fyrir hnjaski á æfingu og var því hvíldur. Hans stöðu tók besti sonur Ölfussins, Stefán Þór Hannesson, hinn sauðtryggi varamarkvörður okkar og skilaði hlutverkinu með sóma.

Brynjar Gauti var í hjarta miðvarðaþrennunnar með Þorra og Kennie á sitthvora hönd. Alex og Halli í bakvörðum. Adam aftastur á miðjunni og Fred og Tiago þar fyrir framan. Gummi Magg og Djenario frammi.

Fréttaritarinn hlammaði sér við hliðina á Ívari Guðjónssyni og Adda úr bankanum. Hitinn var þrúgandi og allir ennþá illa áttaðir þegar fyrsta markið kom eftir rétt um tveggja mínútna leik. Eftir sókn Framara skallaði Tiago boltann inn í teig af löngu færi, einhvern veginn höfðu Hafnfirðingar ákveðið að gleyma tæplega tveggja metra hollenska turninum okkar, sem stóð óvaldaður og náði að nikka yfir markvörðinn og í netið, 1:0. Tveimur mínútum síðar mátti minnstu muna að Framarar tvöfölduðu forystuna þegar Fred og Djenario splundruðu vörninni með góðri skyndisókn sem rann út í sandinn.

Stundum er talað um að hættulegt sé að skora mörk „of snemma“ og þótt fréttaritarinn sé lítt trúaður á slíkar kenningar, verður að viðurkennast að botninn datt úr leik Framliðsins í kjölfar marksins. FH-ingar tóku völdin á miðjunni og Frömurum gekk sífellt verr að halda boltanum. Þrátt fyrir nokkra yfirburði úti á vellinum sköpuðu gestirnir sér þó lítið og Framarar voru nær því að bæta við þegar Fred og Djenario áttu góða rispu upp völlinn á 27. mínútu. Hollendingurinn fljúgandi var frískastur okkar manna á þessum fyrsta leikþriðjungi, en því miður entist það ekki. Skömmu síðar fékk hann höfuðhögg og þurfti að yrifgefa völlinn fyrir Magnús Inga – og var augljóslega svo áttaviltur í skiptingunni að hann vissi ekki hvort hann ætti að hlaupa inn á völlinn eða útaf honum.

FH herti sóknina og stressuðum Frömurum á pöllunum var ekki alveg um sel. Engu að síður sköpuðu þeir sér fá opin tækifæri og vænlegasta skotið var örugglega gripið að allra besta Stefáni Hveragerðisbæjar á markamínútunni. Á lokamínútu venjulegs leiktíma reið hins vegar ógæfan yfir. Hafnfirðingar léku upp að endamörkum og í stað þess að gefa einfaldlega horn freistuðu varnarmenn Fram þess að halda boltanum inná, sem endaði með sendingu fyrir úr þröngu færi og marki, 1:1. Sex mínútum var bætt við hálfleikinn og á síðustu mínútu uppbótartímans skoruðu gestirnir aftur, 1:2. Kennie gaf aukaspyrnu við vítateigshornið og föst spyrnan inn í teiginn small á höfði eins okkar manna og í netið.

Segja má að forysta FH í hálfleik hafi ekki verið óverðskulduð, þótt bæði mörkin hefðu verið klúðursleg og auðvelt að koma í veg fyrir þau. Það var því þungt yfir mannskapnum á Bar-8unni þar sem Einar Kárason, biskupinn og bróðir hans – svo fáein nöfn séu nefnd – krufðu leikinn. Kallað var eftir frekari skiptingum af bekknum, þar sem finna mátti t.d. Frey, Orra og Sigfús.

Seinni hálfeikur hófst á spilaðist svipað og sá fyrri, nema hvað gestirnir lágu aftar enda sáttir með eins marks forystu. Framarar mjökuðu sér örlítið framar á völlinn en í raun gerðist ekkert sem kallaði á að fréttaritarinn rifi upp pennan. Eftir stundarfjórðungsleik fór Adam útaf fyrir Frey, sem átti eftir að setja mark sitt á leikinn með fínni baráttu. Enn bar þó fátt til tíðinda næstu mínútur, ef frá er talið hálffæri þar sem Alex skaut himinhátt yfir eftir efnilega sóknarlotu.

Þegar seinni hálfleikur var rétt um hálfnaður kom jöfnunarmark eins og skrattinn út sauðarleggnum. Halli átti sendingu inn í markteiginn á Gumma sem náði ekki almennilegum skalla, en boltinn hrökk fyrir tær Alex sem þrumaði í netið – 2:2. Ekki beinlínis í takt við gang leiksins, en við þiggjum það sem býðst!

Gestirnir voru nærri komnir aftur yfir mínútu síðar, en góð vörn frá Þorra stöðvaði skyndisókn þeirra á síðustu stundu. Þegar stundarfjórðungur var eftir var Halli sparkaður fruntalega niður við eigið vitateigshorn – fréttaritarinn og sessunautar hans, kunnir fyrir sterka réttlætiskennd, heimtuðu þegar gult spjald á mótherjann en þess í stað fengu FH-ingar aukaspyrnuna, sem reyndist afdrifaríkt því beint í kjölfarið var Brynjar Gauti dæmdur brotlegur eftir þar sem virtist 50/50 samstuð. Hvítklæddur fór á punktinn og skoraði 2:3.

Markið virtist loksins ýta við okkar mönnum sem færðu sig upp völlinn síðustu mínúturnar. Óvænt stunga á Kennie skapaði stórhættu á 83. mínútu og í kjölfarið komst Brynjar Gauti í ágætt færi en varnarmaður FH komst fyrir skot hans. Fimm mínútum síðar heimtuðu Framarar víti þegar boltinn fór í útrétta hönd eins gestanna, en ekkert var dæmt. Miðað við þann fjölda vafaatriða sem fallið höfðu mótherjunum í hag var ljóst að lítið yrfti til að Fram fengi víti. Og sú varð raunin á fyrstu mínútu uppbótartíma. Brynjari Gauta virtist hrint í teignum og eftir ábendingu frá línuverði benti dómarinn á punktinn.

Hver myndi taka vítaspyrnuna? Gummi og Fred hafa báðir misnotað spyrnur í sumar. Tiago? Halli? Nei… flestum að óvörum tók Alex við boltanum og afgreiddi hann í netið, þótt litlu mætti raunar muna að Hafnarfjarðarmarkvörðurinn kæmi krumlunum í knöttinn, 3:3 – í annað skiptið í sumar! Alex var valinn maður leiksins og Framarar gátu í leikslok fagnað sjöunda sætinu sem er dýrmætt þegar kemur að leikjaniðurröðun í úrslitakeppninni. Loksins stig á töfluna og búið er að stoppa blæðinguna.
Næsta skref er að landa Forsetabikarnum og fyrsta verkefnið er þá að leggja ??? á kálblaðinu um næstu helgi. Vonandi verða fastamenn komnir inn af meiðslabekknum og gaman væri að sjá fleiri af ungu leikmönnunum koma við sögu.

Stefán Pálsson

 

Share this post

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
Share on pinterest
Share on email
Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0

Skráðu þig á póstlistann!

Fáðu allar fréttir, tilboð og aðrar upplýsingar beint í æð!