fbpx
Alex gegn FH

Í alvöru talað?

Sú var tíðin að íslenska þjóðin sameinaðist um hatur á þremur mönnum. Það voru þeir Halim Al sem gaf íslensku réttarkerfi langt nef í harðvítugri forræðisdeilu; Florencio Camopomanes, filippseyskum forseta alþjóðaskáksambandsins sem var vondur við prúðmennið Friðrik Ólafsson og hinn sænska Staffan „Faxe“ Olsson sem var svo ömurlegur að vinna okkur alltaf í handbolta. Faxi var aðalmaðurinn í sænska landsliðinu sem undantekningarlaust vann það íslenska, óháð vonum og væntingum okkar hverju sinni. Fyrir vikið varð til hugtakið „Svíagrýlan“, sem byggðist á þeirri undirliggjandi hugmynd að sérstök þörf væri á að skýra ítrekuð töp okkar fyrir Svíum – að Svíar væru ekki einfaldlega betri en við í handbolta.

Ef Svíagrýlan var hvimleitt fyrirbæri – hvað má þá segja um HK-grýluna? Það sem af er þessu ógnarlanga keppnistímabili í fótboltanum hefur Handknattleiksfélagi Kópavogs tekist að vinna sjö deildarleiki. Þrír þeirra eru gegn Fram. Ef einhver verðskuldar sérstaka viðurkenningu æskulýðs- og íþróttaráðs Kópavogsbæjar fyrir almanaksárið, þá erum það við Framarar fyrir fádæma rausnarskap og gjafmildi. Og til að bíta höfuðið af skömminni: þá voru öll töpin skelfileg. Þetta var samt verst.

Fréttaritarinn lagði glaður og reifur af stað frá heimili sínu í Hlíðunum síðdegis. Skjaldsveinninn og Rabbi trymbill voru ýmist í veiði eða í straffi eftir of velheppnaðan gleðskap helgarinnar, en einföld leit á vef byggðasamlagsins Strætó leiddi í ljós að bein leið liggur frá Borgarleikhúsinu og upp í Kórinn. Fréttaritarinn vanmat stórkostlega skilvirkni strætókerfisins og var kominn alltof, alltof snemma upp í Kór. Þar beið hans talsverð bið eftir að alltof fáliðuð sjálfboðaliðasveit Kópavogsfólks næði að rigga upp öllu því sem rigga þurfti. Fljótlega fór bjórinn þó að flæða úr dælunni og landið að rísa.

Víðir Sigurðsson, HK-maður númer eitt og heiðursframari sem höfundur 80 ára sögu Fram, var mættur og eftir gott spjall við hann fór fréttaritarinn að fá örlítinn móral yfir að hafa hafa óskað Kórahverfisliðinu falls niður um deild. Innanhúsfótbolti er að sönnu glataður, en að kvöldi 20. október mátti vissulega sjá kostina við að spila innandyra. Því næst bar að helminginn af Steve dagskrá-hlaðvarpsteyminu, sem er næstmesti eftirlætistengdasonur Norðfjarðar, fast á hæla fréttaritarans og urðu skiljanlega fagnaðarfundir.

Liðin voru kynnt og Fram tefldi fram lítt eða ekkert breyttu liði. Óli í marki. Þorri, Adam og Kennie í miðvörðum. Halli og Alex bakverðir. Tiago, Tryggvi og Fred á miðjunni. Gummi og Markús Páll frammi. Framliðið hefur verið sakað um að hafa hætt keppni en HK var með bakið upp að veggnum. Hvernig færi þetta?

Skemmst er frá því að segja að Framarar mættu ákveðnir til leiks og sóknirnar buldu á HK-vörninni. Fred átti góða sendingu fyrir strax eftir tvær mínútur sem hvorki Tryggvi né Gummi náðu til áður en HK varði í horn. Mínútu síðar kom Kennie boltanum á Tryggva sem skaut rétt franhjá úr góðu færi. Fimm mínútum síðar átti Alex sendingu á Fred, sem tókst að drepa boltann glæsilega í teignum en náði ekki almennilegu skoti. Besta færið kom þó eftir kortér þegar Gummi fékk boltann í vítateig HK-liðsins, sendi út á Alex sem þrumaði í hliðarnetið.

Alex gerði hins vegar engin mistök á tuttugustu mínútu þegar Fred komst upp að endamörkum, sendi fyrir þar sem Alex kom aðvífandi utarlega í teignum og þrumaði að marki. Bakvörðurinn er orðinn einn okkar mesti markahrókur, 0:1.

Fram að markinu hafði HK ekki séð til sólar – djók, þeir spila inni í bragga og geta því smkv. skilgreiningu aldrei séð til sólar… En þetta mark virtist aðeins vekja þá til lífsins. Tveimur mínútum síðar var staðan aftur orðin jöfn eftir að þversending splundraði Framvörninni og aðvífandi HK-maður skoraði, 1:1.

Fred var nærri því að taka forystuna á ný eftir að hafa fengið boltann í kjölfar varnarmistaka HK, en skotið var máttlaust. Á 25. mínútu skeiðaði Kennie upp völlinn miðjann, HK-maður gerði enga tilraun til að stöðva hann löglega, heldur þreif í treyjukragann hans og kippti niður á jörðina, háskalegt brot sem hefði getað farið mjög illa og verðskuldaði mögulega rautt spjald. Dómarinn ákvað að beita hagnaði og lét leikinn halda áfram þótt Kennie lægi á vellinum, eftir að Fram missti boltann og Kennie var ennþá óvígur mátti sjá dómarann horfa fram og til baka, óviss um hvort hann ætti að stoppa leikinn – lyfti flautunni upp en stakk henni svo aftur í vasann – í kjölfarið komst HK í dauðafæri og bara glæsimarkvarsla Óla kom í veg fyrir að þeir næðu forystunni.

Eftir þetta náðu HK-menn undirtökunum í leiknum og héldu til loka fyrri hálfleiks. Ekki bætti úr skák hversu duglegir okkar menn voru við að hlaupa saman og skella saman hausum. Um tíma leit út fyrir að við misstum tvo menn af velli vegna slíkra atvika, en báðir luku þó leiknum.

Jafnt í hálfleik og Framarar og HK-menn söfnuðust saman á barnum. Hamborgararnir voru loksins tilbúnir og reyndust einhverjir þeir bragðbestu sem fréttaritarinn hefur gætt sér á í sumar á útleikjum Framliðsins. Eftir hlé ákvað fréttaritarinn að standa til að teygja úr löppunum. Í takt við það þema sumarsins að blanda geði við foreldra leikmanna var stærstum hluta seinni hálfleiks varið við hliðina á pabba Mikaels Ellerts (sem er þrátt fyrir líkamshæð afkvæmisins, mun nær fréttaritaranum í sentimetrum talið) og síðustu mínútunum með Skonrokksbræðrunum Snorra Má og Skúla Helga.

Seinni hálfleikur byrjaði þokkalega. Fram fékk aukaspyrnu á besta stað en skot Halla fór beint í lúkur markvarðarins. Skömmu síðar átti á Alex sendingu fyrir sem Gummi náði ekki að reka tærnar í. HK fékk sín færi á móti og þrumaði t.a.m. í stöngina á 57. mínútu en rangstöðuflaggið var komið á loft.

Fyrsta skiptingin kom eftir tæplega klukkutíma leik þegar Markús fór útaf fyrir Daniels. Hann reyndist ágætlega kröftugur, einkum fyrst um sinn. Hann var hársbreidd frá því að skora fáeinum mínútum síðar, en HK-markvörðurinn varði með fótunum. Beint í kjölfarið átti sá hollenski ágætan skalla að marki. Framarar voru augljóslega sterkara liðið

Þegar rúmt kortér var eftir var eins og heimamenn rönkuðu við sér – tap væri nánst ávísun á fall. Óli varði frábærlega skalla af stuttu færi. Skömmu síðar var komið að næstu skiptingu Framara þar sem Freyr kom inn á fyrir Fred. Á 86. mínútu fékk Framliðið svo sitt besta færi þegar Þorri skallaði eftir sendingu frá Kennie en markvörður HK náði að slá boltann í þverslána og yfir.

Þegar komið var fram í sex mínútna uppbótartímann kom þriðja og síðasta skiptingin. Tryggvi fór út af fyrir Dahl hinn danska. Óljóst var hverju hann átti að ná að breyta á þessum fáeinu mínútum sem eftir voru og eins má spyrja sig hvort mikið sé unnið með því að gefa útlendingum sem augljóslega munu ekki vera með okkur á næsta ári mínútur í stað uppalinna Framara á bekknum – en látum það liggja á milli hluta. Á 95. mínútu tryggðu HK-menn sér Þormóðar Egilssonarverðlaunin fyrir árið 2024 þegar Óli spyrnti boltanum útaf svo unnt væri að stumra yfir Gumma Magg sem lá á vellinum með krampa. Allir gerðu ráð fyrir að HK-menn köstuðu boltanum aftur til Framara en í sönnum vesturbæjaranda ákváðu heimamenn að halda honum og sækja. Þetta er geymt en ekki gleymt.

Það var skrifað í skýin að HK-grýlan myndi láta til skarar skríða þegar komið  var vel framyfir viðbættu sex mínúturnar. Stórsókn HK endaði á billegu marki og staðan 2:1. Við Framarar getum ekki annað en beðið vini okkar á Ísafirði innilega afsökunar. Vonandi þurfum við aldrei aftur að mæta í Kórinn… þótt strætóleiðin sé vissulega mjög hentug.

Stefán Pálsson

 

Share this post

Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0

Skráðu þig á póstlistann!

Fáðu allar fréttir, tilboð og aðrar upplýsingar beint í æð!