Guðmundur Magnússon, fyrirliði meistaraflokks karla, er uppalinn Framari og hefur gengið í gegnum súrt og sætt með félaginu. Gummi er mikill félagsmaður, en ásamt því að vera fyrirliði meistaraflokks sinnir hann þjálfun 2. flokks karla og styrktarþjálfun yngri flokka. Fáir, ef nokkrir, leikmenn hafa svo verið duglegri við að mæta á hinar ýmsu uppákomur og viðburði yngri flokka til að hvetja yngri iðkendur áfram. Sannkölluð fyrirmynd og alvöru leiðtogi.
Eins og Gummi bendir réttilega á þá er samfélagsleg ábyrgð íþróttafélaga mikil og bæði eðlilegt og gott þegar félögin reyna að gefa af sér til samfélagsins. Fram fagnar því að fá tækifæri til að styðja það frábæra starf sem unnið er hjá Ljósinu, endurhæfingar- og stuðningsmiðstöð fyrir fólk sem hefur fengið krabbamein.
Öll miðasala leiksins gegn KA næstkomandi laugardag verður til styrktar Ljósinu og sömuleiðis allur hagnaður af treyjusölu, en liðið mun leika í sérhannaðri treyju af þessu tilefni.
Miðasala á leikinn er hér: https://stubb.is/events/oqN13b
Treyjuna er hægt að kaupa í Framheimili Úlfarsárdal eða í vefverslun Errea: https://shop.errea.is/ljosid
Við hvetjum alla sem vettlingi geta valdið til að fjölmenna í dalinn á laugardag og hjálpa liðinu að klára tímabilið með stæl. Sjoppan góða verður að sjálfsögðu opin, Bar8 verður á sínum stað og að sjálfsögðu verða gómsætir Framborgarar á grillinu.
Höldum alvöru veislu í dalnum og látum gott af okkur leiða. Fram fyrir Ljósið!
