Fyrstu höglin byrjuðu að falla tveimur mínútum eftir að flautað hafði verið til leiksloka og svo kom hryðjan. Náttúran var með táknrænum hætti að lýsa andúð sinni á þeim hroka mannanna að spila fótbolta á Íslandi í október. Framarar eru á sama máli – enda má segja að við höfum í raun kosið að sniðganga þennan mánuð af prinsipástæðum.
Það stóð mikið til í Dal draumanna að þessu sinni. Búið vað að hanna stórglæsilegan búning merktan Ljósinu til fjármögnunar og vitundarvakningar um baráttu gegn krabbameini. Fréttaritarinn keypti vitaskuld einn í yfirstærð og verður langflottastur í þriðjudagsbumbuboltanum næst.
Veðrið var drungalegt og Fréttaritarinn var skjaldsveinslaus einu sinni sem oftar, þar sem félagi Valur álpaðist með fjölskylduna til Akureyrar í tilefni af haustfríi grunnskóla. Það hefði undir öllum eðlilegum kringumstæðum talist vond hugmynd en var þó klók að þessu sinni, þar sem KA-menn voru staddir sunnan heiða. Það var stutt í leik þegar Fréttritarinn skilaði sér loks í fínumannaboðið og Willum heilbrigðisráðherra var að ljúka sinni ræðu. Mætti halda að það væru kosningar í námd?
Byrjunarliðið var þannig skipað að Óli stóð í markinu. Orri, Þorri og Kennie miðverðir. Alex og Adam bakverðir (Halli fjarri góðu gamni), Freyr, Tryggvi og Fred á miðjunni og Gummi og Markús Páll frammi. Það hafa oft verið fleiri í stúkunni á Lambhagavelli og aldrei þessu vant næddi aðeins um mannskapinn. Úti á velli var mjög hvasst. Rabbi trymbill var mættur með alla fjölskylduna og fékk Fréttaritarinn að hlamma sér niður við hliðina á þeim fyrir hlé.
Leikurinn var hæggengur í byrjun og ljóst að hvorugt lið taldi að miklu að keppa. Fyrsta alvöru færið kom eftir þrettán mínútur þar sem skyndisókn upp kantinn splundraði KA-vörninni og Freyr var nærri því að klippa boltann í netið úr þröngri stöðu. Tveimur mínútum síðar komust gestirnir hins vegar yfir og það nánast upp úr engu þegar Kennie átti slæman skalla úr hættulítilli sókn beint til mótherja sem skaut milli fóta Óla og í markið. Klaufalegur varnarleikur en þó hjóm eitt miðað við það sem gerðist fjórum mínútum síðar þegar löng sending inn í Framteiginn rataði beint á aleinan og óvaldaðan KA-mann sem tvöfaldaði forystuna.
Heimamenn rönkuðu aðeins við sér eftir þessi ósköp. Fred átti stungusendingu á Markús sem var nærri sloppinn í gegn og Adam kom sér í úrvalsfæri en skot hans var máttlítið og beint á markvörðinn. Glæsilegur samleikur Gumma, Markúsar og Tryggva var nærri því að skila marki og rétt undir lok hálfleiksins átti Þorri prýðilegt skot sem miðasölukerfið í markinu sló í horn. Áhorfendur hlupu inn til að ná upp kjarnhita og fá bjór í belginn. Af því að Fréttaritarinn er labbakútur hafði hann sig ekki í að koma sér aftur út eftir hlé heldur kláraði seinni hálfleik með Garðari sendiráðsbílstjóra og Biskupnum inni í hlýjunni – þar var nú ekki töluð vitleysan.
Þjálfarateymið gerði tvöfalda skiptingu í byrjun seinni hálfleiks. Daniels og Magnús Ingi komu inn fyrir Markús og Frey. KA fór nærri því að klára leikinn strax á fyrstu mínútu þegar einn bláklæddur Akureyringurinn slapp einn í gegn en Óli varði vel. Við tóku hálfgerð leiðindi þar sem áhorfendur gátu helst skemmt sér yfir hrakförum HK-manna sem verið var kjöldraga í Laugardalnum. Svona getur karma stundum bitið menn í rassinn…
Framarar fóru aftur að færa sig upp á skaftið þegar um hálftími var eftir og í tvígang skapaðist hætta við KA-markið eftir þvögu. Á 64. mínútu átti Fred eina af snilldarsendingum sínum inn fyrir vörnina þar sem Tryggvi, sem hafði átt býsna rólegan leik fram að því, stakk alla af og afgreiddi boltann svo í netið af gríðarlegu öryggi, 1:2 og skyndilega virtist Fram hafa öll tök á leiknum. Þremur mínútum síðar var Mingi sloppinn einn í gegn en KA-maður komst upp með að hrinda honum fruntalega í jörðina án þess að neitt væri dæmt.
Tiago og Sigfús komu inná fyrir Tryggva og Adam og Framarar virtust líklegir til að láta hné fylgja kviði. (Höskuldarviðvörun: við létum ekki hné fylgja kviði…)
Við það að færa sig framar á völlinn opnaðist varnarlínan hjá Frömurum og þegar kortér var til leiksloka náði einn Norðlendinga að smeygja sér framhjá rangstöðugildrunni og koma gestunum í 1:3. Fáeinum mínútum síðar fengu þeir auðvelda vítaspyrnu og breyttu stöðunni í 1:4. Eftir þetta dó leikurinn. Jannik kom reyndar inná fyrir Gumma og má ætla að þetta hafi verið kveðjuleikur hans fyrir klúbbinn. Fyrir leik var tilkynnt að Brynjar Gauti væri á förum og eru báðum þökkuð góð störf.
Dapur endir á Íslandsmóti og algjörlega glatað að tapa fjórum leikjum á einu og sama tímabili fyrir KA af öllum liðum! En Íslandsmót er 27 leikir og það skiptir í sjálfu sér ekki máli í hvaða röð stigin koma. Alltoflangt tímabil er á enda og heilt yfir megum við bara vera nokkuð sátt við okkar hlut. Sjáumst í Reykjavíkurmótinu sem byrjar væntanlega ekkiámorgunheldurhinn.
Stefán Pálsson