Jón Erik Sigurðsson, landsliðsmaðurinn okkar í alpagreinum stóð frábærlega á alþjóðlegu móti ungmenna í San Giovanni di Fassa á Ítalíu um liðna helgi.
Jón Erik gerði sér lítið fyrir og sigraði í svigi á föstudag, Jón Erik var í þriðja sæti eftir fyrri ferðina en glæsileg seinni ferð skilaði honum fyrsta sigrinum á erlendri grundu. Jón fékk 35,07 FIS-stig fyrir sigurinn sem er hans næst besta á ferlinum hingað til.
En Jón Erik var ekki hættur því á laugardag var komið að stórsvigi. Jón var með annan besta tímann eftir fyrri ferðina í stórsviginu og náði að halda því sæti með því að verða aftur með annan besta tímann. Árangurinn skilaði honum öðru sætinu á mótinu.
Fyrir mótið fékk Jón Erik 34.56 FIS punkta sem er hans allra besti árangur á ferlinum í stórsvigi.
Glæsilega gert hjá Jóni Erik og verður spennandi að fylgjast með honum í vetur.