Jón Erik Sigurðsson landsliðsmaður í alpagreinum, tók þátt í alþjóðlegum unglingamótum í Folgaríu á Ítalíu á þriðjudag og miðvikudag.
Á þriðjudag keppti hann í svigi og hafnaði Jón Erik í öðru sæti eftir að hafa verið með tíunda besta tímann eftir fyrri ferðina, en náði svo besta brautartímanum í seinni ferðinni.
Jón Erik keppti svo á tveimur stórsvigsmótum í gær og vann Jón Erik fyrra mótið, en hann var með besta tímann í báðum ferðum. Hann fékk 33.29 FIS-punkta fyrir mótið sem eru hans bestu stórsvigspunktar á ferlinum.
Á seinna mótinu varð Jón Erik í öðru sæti og bætti FIS-punktana sína lítillega.
Jón Erik er því að koma mjög sterkur inn á fyrstu mótum ársins og það verður áfram áhugavegt að fylgjast með drengnum á næstu vikum og mánuðum.