fbpx
FRAM - ÍA Liðsmynd vefur

Loksins, Loksins fótbolti

Nú er liðið alltof langt síðan við spiluðum okkar síðasta leik í neðrihluta deildinni þann 26. október 2024 á móti KA, leikur sem enginn man eftir nema helst fyrir þær sakir að Jannik náði að spila í 10 mínútur án þess að meiðast.

Þessi bið er búin að vera löng, afar löng, en margt hefur nú gerst í millitíðinni. Framliðið hefur verið straumlínulagað eftir síðasta tímabil, sem byrjaði vel en endaði ekki alveg nægilega vel, fyrir utan þessar merkilegu 10 mínútur. Liðið hefur séð á eftir Tiagó til Kína, Orra Sigurjónssyni, Brynjari Gauta og meiðslamethafanum Jannik, en stækkað hópinn og fengið inn Simon Tibbling og Jakob Byström frá Svíaríki, Isra Garcia, Vuk Oskar, auk þess að hafa fengið vænan liðstyrk úr Lengjudeildinni. Spá hinna sjálfskipuðu knattspyrnuspekinga er okkur í vil – hófstillt miðjumoð, en vér viljum meira.

Nokkur eftirvænting var því eftir fyrsta byrjunarliði okkar í mótinu. Hvaða nýju menn myndu rata þar inn og voru ekki allir meira og minna heilir? Væri Alex Freyr búinn að jafna sig af Spænsku veikinni og er Kyle búinn að ná nægilega mörgum leikjum eftir meiðslin til að verða aftur SuperDuperKyle?

Gestirnir í Lambhagann voru að þessu sinni Skagamenn, en um þá var ort:

Gullaldar liðið menn geyma í minni enn,
Guðjón, Svein, Dodda og aðra Skagamenn,
þrumuskot Rikka og Þórðar út við stöng,
þrykkt upp í netið svo undir tók og söng

Hér er okkar eini sanni Ómar Ragnarson að kjarna gildismat Skagamanna við Tékkneskt þjóðlag, þar sem ávallt skal sparka mjög fast – jafnvel þrykkja. Reyndar eldist textinn vel þar sem allir af Skaganum sparka fast og heita ýmist Guðjón, Þórður eða Rikki. Það er því engin ástæða fyrir Skagamenn að koma með nýtt lag með nútíma rappstjörnu, sem kom aldrei í Akraborgina og auto-tjúnar sig í gegnum flata takta með enskuslettum og efnishyggju – þetta verður ekki kjarnað betur.

Fram og Skagamenn eiga margt sameiginlegt um þessar mundir, söguríkir klúbbar sem hafa þurft að aðlaga sig í breyttum knattspyrnuheimi, þar sem peningarnir hafa tekið fram fyrir hendurnar á hefðum og heiðursmannasamkomulögum. En í báðum tilfellum hefur aðlögunin gengið upp eftir nokkuð bras, þar sem félögin eru í meðbyr um þessar mundir. Klúbbarnir eru aftur saman í efstu deild og munu vonandi sigla þar lygnan sjó í sumar og jafnvel rúmlega það. Bæði félögin eru með frambærilega aðstöðu og leikmannahópa, hafandi hug á því að fara að sparka nokkuð fastar í þá nýríku og sögusnauðu, jafnvel þrykkja í þá.

Margir knattspyrnuunnendur eru enn með kjánahroll að jafna sig eftir beina útsendingu frá fréttamannafundi KSÍ á nýjum landsliðsbúningi fyrir HM 2018 í Rússlandi. Þá var blásið í herlúðra með yfirstemmdu myndbandi þar sem niðurstaðan var á þá leið að fánaröndinni sem lá niður búninginn og var frekar smart, var skipt út fyrir rauðleitar ermar og hvítar axlir, sem skilaði sér í fádæma óspennandi búningi sem enn má fá á hrakvirði á útsölumörkuðum. Hins vegar hefði nú mátt blása til fréttamannafundar þegar nýr búningur Fram var kynntur um daginn – þvílíkt hönnunarlegt listaverk í alla staði – gullbródering á kraga og ermum og fagurtíglaður búkur sem er hæfilega auglýsingasettur. Undirritaður er jafnvel að hugsa um að skipta út gullaldar Adidas búningnum sínum með Samvinnuferða-Landsýnar auglýsingunni fyrir nýja búninginn, því þessi verður klassíker.

Fyrir leik voru margar spurningar sem leituðu á þá fjölmörgu áhorfendur sem komnir voru í Lambhagann; Hvernig myndu nýju leikmennirnir standa sig á Lambhagavellinum, hvernig liti nýi búningurinn út undir Lambhagasólinni, hvernig myndu Skagamenn ráða við að þrykkja upp í Lambhagalognið og hvar er STEFÁN PÁLSSON? 

Eitt að því sem ganga má að vísu á Lambhagavellinum er eitt stykki Stefán Pálsson. Þar situr hann og krotar í minnisbók með fáránlegri fingrasetningu, helstu atvik hvers leiks fyrir sig, sem skilar sér svo í ljóðrænni leikskýrslu, þar sem hnittni og tölfræði fara oftar en ekki saman. Þar tekst honum að name-droppa í Séð og Heyrt stíl hverjir voru hvar, smána andstæðinginn hæfilega, auk þess að kvarta sáran ef Skjaldsveinninn er ekki að standa sig með markafleyginn mikilvæga. En á þessu er nokkuð haldbær skýring – í ljósi þess að Stefán er að verða fimmtugur um helgina, þá bókaði hann ferð erlendis án þess að hafa leikplanið við höndina og er hann því að missa af fyrsta heimaleik Fram í Íslandsmótinu síðan 1984, er strætókerfið sveik hann illilega. Það getur verið súrt að kunna ekki að keyra saman mismunandi dagatöl og treysta um of á strætó.

Uppstilling FRAM var nokkuð óvænt, en líklega í takti við það sem hefur verið sett upp í undanförnum leikjum. Sigurjón aftastur með Kyle og Þorra sér við hlið. Kennie og Halli í vængbakvörðum með Tibbling og Fred inná miðjunni. Mási var svo í fljótandi stöðu á milli lína á meðan Vuk og Maggi voru fremstir. Veðrið var nokkuð gott miðað við ársfjórðung, nokkur vindur var á annað markið, voðalega Skagalegt í rauninni.

Fyrir leik var partí á báðum hæðum. Undirritaður byrjaði niðri og sá þjálfara Skagamanna sitja þar í mestu makindum í banni eftir einhvern tilhæfulausan trilling í lok móts í fyrra. Reyndar hafði hann nú eitthvað til síns máls en dómarinn ræður. Einnig var litið inn á efri hæðina og þar var einnig góðmennt – menn jafn bjartsýnir sem og stressaðir.  

Undirritaður var mættur með litla minnisbók til að krota niður helstu atriði leiksins en fljótlega fór að kólna og gerði það lítið fyrir skriftina. Reyndar fór ekki mikið í minnisbónina til að byrja með – bæði liðin að þreifa á hvort öðru, nokkuð um misheppnaðar sendingar og rokið aðeins að stríða mönnum. Reyndar var ljóst að Skagamenn voru ekki mættir til að eignast vini og var Maggi búinn að fá tvö hné í bak eftir 7 mínútur. Leikurinn var í fullkomnu jafnvægi, lítið að gerast fram á við hjá liðunum og var Vuk einna sprækastur með beitta spretti.

Eftir korter áttum við 3 hornspyrnur sem lofuðu góðu og þurfi markmaður þeirra að hafa sig allan við. Eftir vafasama sendingu Fred, þá brunuðu Skagamenn fram á 25 mínútu og fengu aukaspyrnu sem þeir skoruðu úr og það óþarflega laglega. Eftir markið héldum við áfram að þrýsta þeim aftar – en án þess að ná að skapa góðar stöður. Oftar en ekki fóru hlaup og sending ekki saman og þegar það gerðist þá var dæmd rangstaða. Varnarlega vorum við ekki að gefa færi á okkur. Rétt fyrir hálfleik átti Vuk enn einn sprettinn en ekki kom markið. Tveimur mínútum var bætt við fyrri hálfleikinn og náðum við aðeins að pressa á þá uppúr horni í uppbótartímanum, en ekkert gerðist og þar við sat.  

Nokkuð kurr var í mönnum í hálfleik. Menn vildu meira og voru allir sammála að þessi forysta Skagamanna væri nú tæplega sanngjörn, en svona er boltinn stundum. Nokkuð virtist bæta í vind á hálfleik og spiluðum við á móti vindinum í seinni hálfleik og virtist það henta okkur betur. Við fórum að þrýsta meira á þá og halda boltanum betur. Skagamönnum leið ekki eins vel og áttu margar sendingar upp í rokið og útaf eða beint á Óla í markinu. Áfram kólnaði og Rafn sessunautur var húfulaus og bar sig illa á sama tíma var ekki hægt að taka augun af Skagaþjálfaranum sem var á stuttbuxum. Eftir 55 mín fengum við ódýrt horn og átti Fred góða sendingu inní teig. Áfram hélt Halli að taka horn en ekkert gekk.

Eftir klukkutíma leik áttu Skagamenn álitlegt upphlaup en einhver gulur skaut hátt yfir. Á 65 mínútu átti Kennie góðan skalla sem fór í bakið á Magga og afturfyrir. Sprækur Tibbing nældi sér í gult og svo kom þreföld skipting þar sem Maggi, Kyle og Þorri komu útaf fyrir Gumma, Moreno og Kristó. Áfram hélt baráttan og áfram var þetta erfitt á móti stæðilegum Skagamönnum sem sparka fast, jafnvel þrykkja. Á 73 mínútu kom góð sókn sem endaði með enn einu horninu og fékk Gummi dauðafæri á fjærstöng sem var varið.

Stuðningsmannasveitin mátti hafa sig alla við að reyna að finna rímorð við Tibbling sem var sprækur, án þess að lenda í ofstuðlun og aukaljóðstöfum: Gefur ekki eftir þummling hann Tibbling er hann sólar þurfaling… Tja, hvað rímar svo við Byström og Vuk, meðstraum og fjúk?

Núna spiluðum við betur og betur og vorum með Skagamenn alveg í köðlunum. Tibbling og Fred stjórnuðu miðjunni og eftir góða sókn fékk Már dauðafæri á 85 mínútu en ekki vildi boltinn inn. Eftir þetta náðu Skagamenn að naga niður tímann og kom öllum á óvart að viðbótatíminn væri 2 mínútur, eftir þónokkrar skiptingar og einhver meiðsli. Leikurinn fjaraði út og Skagamenn fögnuðu. Ekki alveg byrjunin sem við vildum en margt gott í þessu.

Næsti leikur er svo heimaleikur á móti Íslandsmeisturum úr Kópavogi eftir slétta viku. Reyndar verður undirritaður fjarverandi þar sem hann kann að samkeyra mismunandi dagatöl betur en sumir, en þá verður Stefán Pálsson mættur aftur á pennavaktina með bjagaða fingrasetningu.

Skjaldsveinninn V. Norðri

Share this post

Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0

Skráðu þig á póstlistann!

Fáðu allar fréttir, tilboð og aðrar upplýsingar beint í æð!