Föstudaginn 2. september 1988 var tónlistarþátturinn Poppkorn í sjónvarpinu – væntanlega í umsjón bræðranna og Ólafssonanna Jóns Þróttara og Framarans Steingríms Sævarrs. Síðar um kvöldið var Derrick á dagskránni og á undan honum „Basl er bókaútgáfa“ – gamanmyndaflokkur um hjón sem reka saman útgáfufyrirtæki.
Einhverjir ákváðu þó væntanlega að skella sér á Valsvöllinn. Þar léku Valskonur lokaleik sinn á Íslandsmótinu, sem þær unnu með yfirburðum og fengu bikarinn í leikslok. Mótherjarnir voru Framarar sem enduðu rækilega á botninum. Unnu einn leik allt sumarið og töpuðu þessum lokaleik 10:0. Það er enn stærsti ósigur liðsins í sögunni. Ógæfa Framara hafði verið að álpast til að vinna 2. deildina árið áður. Liðið var ekki nógu sterkt til að keppa í deild þeirra bestu. Æfingum var fjölgað en hver skellurinn fylgdi á eftir öðrum – og til að bíta höfuðið af skömminni hafði íþróttadeild RÚV ákveðið að gera kvennaboltanum sérlega góð skil þetta sumarið og rasskellirnir rötuðu allir í 11-fréttir. Þetta reyndist síðasti leikur Fram í efstu deild kvenna…
…þar til í kvöld! Fréttaritarinn mætti glaðbeittur í fínu Errea-Framúlpunni sinni á völlinn sem kenndur er við danskt dagblað. Rennilásinn er reyndar ónýtur en það eru bara labbakútar sem þurfa að renna upp í háls í íslenskri aprílblíðu. Dagblaðsvöllurinn er um þessar mundir starfandi þjóðarleikvangur Íslands í knattspyrnu og það er búið að smíða rosalega flottan pall fyrir framan sjoppuna. Einhvern veginn þarf að fjármagna lúxusinn og var því vel smurt á miðaverðið – 3.000 krónur – sem er náttúrlega enginn peningur þegar svona sögulegur leikur er í boði.
Fréttaritarinn hefur alltaf laðað að sér Þróttara, enda þekkti hann annan hvern mann. Þarna var Gunni Bald úr sjónvarpinu, Baldvin Gettu betur-kempa, Silli sagnfræðingur af Árbæjarsafni, Katrín Atladóttir sem var frægasti bloggari landsins á meðan það var ennþá hipp og kúl og maðurinn hennar – Svenni skáti úr Vesturbænum – voru þarna líka. Já og Stebbi Hagalín sem á sama afmælisdag og fréttaritarinn, Diddi sem var samtíða Fréttaritaranum í sagnfræðinni í gamla daga og Haddi Guðmunds sem vann einu sinni á minjasafninu hjá Fréttaritaranum og er mögulega stórættaðasti núlifandi Seltirningurinn.
Óskar þjálfari tefldi fram sterku liði. Elaina í markinu. Sylvía, Dominiqe, Olga og Katrín Erla í varnarlínunni. Una Rós, Freyja, Lily og Makenzie á miðjunni og köntum. Alda og Murielle frammi. (Allar liðsuppstillingar eru að venju birtar með fyrirvara um að Fréttaritarinn er fáráður og ólæs á hin fínni blæbrigði leikkerfa. Þetta var miklu betra í gamla daga þegar öll lið spiluðu 2-3-5.)
Ekki liðu nema tvær mínútur áður en boltinn söng í þverslá Þróttarmarksins eftir óvænt en gott skot frá Murielle. Gaman væri að velta því fyrir sér hvernig leikurinn hefði getað þróast ef það hefði ratað inn, en í kjölfarið náði Þróttarliðið undirtökunum og stýrði spilinu. Fá teljandi færi litu þó dagsins ljós fyrsta fjórðunginn og það var nánast upp úr engu þegar Þróttarkonur skeiðuðu upp kantinn á 26. mínútu, náðu góðri sendingu fyrir og komust í 1:0.
Framarar létu þetta högg þó ekki slá sig út af laginu og reyndu að koma sér aftur inn í leikinn. Á 39. mínútu kom næsta áfall þegar Olga virtist lenda illa á hælnum og þurfti af styðja hana af velli, vondandi ekki illa meidda. Júlía Margrét kom inná fyrir hana. Strax í kjölfarið átti Murielle gott skot sem var varið niðri við jörð. Um það leyti sem fyrrum kraftbareigandinn Ási Guðmunds virtist ætla að fara að flauta liðin til búningsherberga, missti Framliðið boltann á miðjunni og öskufljótur Þróttari brunaði upp völlinn og breytti stöðunni í 2:0, sem var óþarflega rausnarlegur munur miðað við gang leiksins.
Útvarpsmaðurinn og knattspyrnudeildarformaðurinn Kristján Kristjánsson var greinilega með samviskubit yfir þessari ógestrisnu meðferð á nýliðunum, kom með brauðstangir úr sjoppunni og færði þeim Guðmundi Torfasyni og Valtý Birni. Valtýr Björn er prinsipmaður og vildi ekki sjá þessar mútur, en Fréttaritarinn, Gummi Torfa og Garðar uppgjafasendiráðsbílstjóri voru með sveigjanlegra siðferði og gúffuðu í sig brauðmetinu, sem er vafalítið úr einhverju handverksbakaríinu í hverfinu. Efrimillistéttarvæðing Laugardalsins heldur áfram sem aldrei fyrr!
Þróttarar fengu betri færin í byrjun seinni hálfleiks og í raun rötuðu afar fáar sóknarlokur Framara í stílabókina góðu. Alda var nærri því að sleppa í gegn á 53. mínútu en um annað var varla að ræða. Þróttarar áttu hörku sláarskot um miðjan hálfleikin, rétt eftir að Ólína kom inná fyrir Katrínu Erlu. En þótt lítið virtist í gangi hjá bláklæddum, ber aldrei að vanmeta lið með Murielle og Öldu innanborðs. Fram komst í óvænta skyndisókn á 74. mínútu þar sem Alda átti góða sendingu á Murielle sem þrumaði í markhornið, óverjandi fyrir Þróttarmarkvörðinn sem að auki var líklega með sólina beint í augun, 2:1 og möguleiki á smá hasar í lokinn.
Litlu mátti muna að Adam yrði rekinn úr Paradís strax í næstu sókn, en Þróttari negldi einhvern veginn framhjá úr galopnu færi. Fyrir átökin á lokamínútunum setti Óskar þær Thelmu Lind og Eydísi Örnu inná fyrir Sylvíu og Freyju. Það breytti þó ekki miklu um gang leiksins. Þróttarar fengu þau fáu færi sem í boði voru. Elaina varði frábærlega í tvígang en tókst ekki að koma í veg fyrir mark í uppbótartíma, lokatölur 3:1.
Við berum höfuðið hátt eftir þessa frumraun okkar í efstu deildar kvennabolta frá því að bjór var heimilaður á Íslandi. Það er amk komið mark á töfluna og mótherjar dagsins eitt af sterkari liðum deildarinnar. Stóra prófraunin verður heima gegn FH á þriðjudaginn eftir viku og þá verður spilað í Dal draumanna og enginn þarf að mæta í úlpu.
Stefán Pálsson