„Hvernig í fjáranum á ég eiginlega að ná að spinna þetta vel?“ – hugsaði fréttaritari Framsíðunnar, nýskriðinn á sextugsaldur, í leikhléi á Lambhagavelli í Dal draumanna. Staðan var 0:2 fyrir Íslandsmeistara Breiðabliks, ekkert benti til glæsilegrar endurkomu – og óþægilega mikið af kunningjum fréttaritarans, sem flestir eru að auki kratar og nýkomnir af landsfundi, gengu beint í flasið á honum í Bar-8unni og kinkuðu uppörvandi kolli… glottandi inní sér í þeirri vissu að auðveld þrjú stig væru á leiðinni í hús.
Spólum aðeins til baka. Fréttaritarinn var fjarri góðu gamni í fyrstu umferð Íslandsmótsins þar sem hann var að frílysta sig í útlöndum. Fyrir vikið sá hann ekki tapleik okkar manna gegn Akranesi og neitar því að viðurkenna þau úrslit. Skjaldsveinninn Valur Norðri skrifaði epíska leikskýrslu í staðinn, þar sem hann hirti ekki um að tiltaka nokkur atriði sem gerðust í sjálfum leiknum, en fékk engu að síður einmuna hrós – sem bendir til að allt það sem fréttaritarinn hefur bisað við að gera síðasta áratuginn og allt párið á minnisblöðin hafi verið unnið fyrir gýg. Í kvöld var skjaldsveinninn í útlandinu og neyddist til að rýna á farsímaskjá til að fylgjast með leiknum. Það var því enginn markafleygur. Það er eiginlega aldrei neinn markafleygur.
Fréttaritarinn tók leið 18 úr Hlíðunum og mætti tímanlega í fínumannaboðið í Úlfarsárdalnum. Siggi Tomm klóraði sér í kollinum yfir því hvernig ætti að borða einhver torkennileg burritos sem boðið var uppá sem kvöldverð. Mér finnst að það eigi alltaf bara að vera plokkfiskur í matinn! Síðan kom Helgi Sig og kynnti liðsuppstillinguna. Ein breyting var gerð frá Skagaleiknum. Þorri var hvíldur eftir stíft prógram með ungmennalandsliðinu en sá spænski Israel kom í liðið í staðinn. Annars var mjög erfitt að átta sig nákvæmlega á því hvaða liðsuppstillingu var lagt upp með – en hún var ákaflega varnarsinnuð: Óli í markinu. Kyle, Sigurjón úr Grindavík og Israel Garcia í hafsentum. Halli og Kennie sem bakverðir. Fred og Simon Tibbling á miðjunni. Vuk og Már á köntunum og Mingi frammi. Þetta var uppstilling sem vakti spurningar. Fred var hafður mjög aftarlega á vellinum og Kennie í stöðu sem kallaði á mjög mikla yfirferð. Og hvaðan myndu mörkin koma? Helgi minnti á að Framarar pökkuðu Blikum saman í deildarbikarnum fyrir fáeinum vikum og ættu að geta endurtekið leikinn – einkum ef okkar menn myndu nýta líkamlega yfirburði og að vera hærri í loftinu. Það yrði harkan sex!
Fréttaritarinn færði sig neðan þilja til að blanda geði við skrílinn í Bar-8unni. Það var hrollur í mannskapnum enda sterkur vindur og loftihitinn ekkert til að hrópa húrra fyrir. Það var þó logn í hinu fullkomna stúkumannvirki, sem endranær. Fréttaritarinn ákvað þó að sitja ekki yfir leiknum, heldur stóð aftast við hliðina á Rabba trymbli, Ívari Guðjóns, Adda í bankanum og Kjartani tannlækni. Garðar – sem er kominn á eftirlaun og hættur að keyra fyrir sendiráðið – lét líka sjá sig. Um alla stúku var fólk að gúffa í sig Framborgara. Orðið á götunni er að Lambhagavöllurinn komi sterkelga til greina sem næsti Michelin-stjörnustaður Íslands. Er eitthvað sem þetta félag gerir ekki vel?
Það var greinilegt allt frá byrjun að Fred hafði fengið minnisblaðið um að Framarar ætluðu að sýna hörku og leika eins kröftuglega og þeir kæmust upp með. Hann hljóp um allt og fór í endalausar tæklingar. Að mati fréttaritarans var Fred maður leiksins í kvöld. Flest að því sem við reyndum að skapa í fyrri hálfleiknum byrjaði hjá honum, en þar sem hann lá lengst aftur á eigin vallarhelmingi skilaði það sér ekki almennilega framávið.
Á 17. mínútu virtist brotið á Fred í miðhringnum og hann stoppaði til að búa sig undir að taka aukaspyrnu. Dómari leiksins flautaði hins vegar ekki neitt, Blikar brunuðu upp og skoruðu með góðu skoti frá vítateigshorni. Framarar kvörtuðu, en áttu að gera miklu betur í varnarleiknum, 0:1. Í kjölfarið fengu Framarar tvö hálffæri þar Vuk kom við sögu í báðum tilvikum, fyrst með skalla og svo með sendingu á Minga upp að endamörkum sem sendi fyrir markið en Már náði ekki að pota boltanum inn.
Blikar tvöfölduðu forystuna á 38. mínútu eftir augnarbliks andvaraleysi í Framvörninni og allt í einu virtist leikurinn tapaður. Framarar voru reyndar nærri því að svara fyrir sig beint í kjölfarið uppúr hornspyrnu en gestirnir hreinsuðu á marklínu. Á lokamínútu fyrri hálfleiks virtist Halli svo vera sloppinn einn í gegn eftir dásamlega sendingu frá Tibbling en varnarmaður FH náði að reka stórutá í knöttinn á síðustu stundu.
Það var blúsuð stemning í leikhléi sem fyrr segir. Fréttaritarinn gantaðist með að hann væri farinn að sætta sig við jafntefli. Flestir hugsuðu þó með sér að þetta gæti mögulega farið verulega illa. Skjaldsveinninn orti ljóð og sendi í SMS-i:
Makalaus staða
Andtæðinga laða
Makviss klaga
Rauðhausaleysi skaða
En þá kom hjartað í ljós! Fyrri og seinni hálfleikur reyndust eins og nótt og dagur. Framarar gerðu engar breytingar á liðsskipan í hléi, en Kennie færði sig innar í vörnina og Fred fikraði sig framar á völlinn. Breiðabliksmenn hafa greinilega þá hugmynd að þeir séu færir um að drepa niður leiki til að halda forystu – Höskuldarviðvörun: þeir ráða ekki við það.
Blikar drógu sig langt aftur á völlinn um leið og seinni hálfleikur hófst. Það var skrítið stöðumat hjá liði sem hefur fáránlega mikinn kraft framá við. Frá fyrstu mínútu pressuðu Framarar og það mátti sjá taugaveiklunina grípa um sig hjá gestunum. Þjálfari þeirra sem hafði staðið keikur fyrir framan varamannaskýlið mestallan fyrri hálfleikinn og hrópar fyrirmæli inn á völlinn dró sig í hlé. Eftir því sem leið á hálfleikinn hættu varnarmenn Blika að reyna að spila sig út úr vörninni en fóru að sparka fram í markspyrnum – öll þessi litlu atriði fóru að safnast saman.
Mingi og Fred áttu marktilraunir á fyrstu mínútum hálfleiksins og fljótlega eftir það komst Kyle í dauðafæri en skot hans fór beint á markvörðinn sem ekki verður nafngreindur samkvæmt hefð. Mási komst sömuleiðis í skotstöðu en hitti bara markvörðinn í miðju markinu. Var mögulegt að Framliðið næði að herja eitthvað út úr þessum leik?
Þegar um hálftími var eftir af leiknum fékk Fred gult spjald eftir skringilegt brot þar sem honum tókst aðallega að slasa sjálfan sig. Hann virtist fá högg á brjóstkassann og virtist þjáður það sem eftir lifði leiks. Rétt í kjölfarið virtust Framarar ætla að brjóta ísinn þar sem Kennie og Mingi gerðu harða hríð að marki Blika en boltinn fór framhjá og rangstöðuflaggið var þess utan komið á loft.
Á 66. mínútu kom fyrsta skipting Framara og hún reyndist afdrifarík. Gummi Magg kom inná fyrir Minga. Framarar héldu áfram að sækja líkt og verið hafði síðustu tuttugu mínúturnar, en skyndilega féll gæfan með okkur. Á 72. mínútu fengu Framararnir enn eitt hornið sem endaði með misheppnaðri skottilraun frá Tibbling sem hrökk fyrir fæturnar á Sigurjóni hinum grindvíska sem þvældi boltanum í netið, 1:2!
Þótt munurinn væri bara eitt mark, voru væntingarnar á pöllunum hófstilltar. Rabbi trymbill lýsti því yfir að þetta væri mikilvægt mark af því að það kæmi okkur á blað – það væri mjög slæmt að hafa ekki skorað í fyrstu tveimur umferðunum. Engum datt í hug hvað myndi fylgja í kjölfarið…
Tveimur mínútum eftir mark Sigurjóns heimtuðu Blikar víti í tvígang í sömu sókninni. Dómarinn veifaði þetta allt frá sér – og raunar hafði hann þegar í fyrri hálfleiknum gefið einum Blikanum gult spjald fyrir að reyna að fiska víti. Það er ástæða til að hrósa dómgæslunni í kvöld. Að mati fréttaritarans leyfði dómarinn reynar alltof mikla hörku – einkum bakhrindingar – en hann var fullkomlega sjálfum sér samkvæmur í öllum dómum og það er það mikilvægasta sem hægt er að biðja um. Vel gert!
Mínútu eftir vítaspyrnuáköll hvítlæddra náði Kennie að nýta sér mistök í Blikavörninni og jafnaði metin með bylmingsskoti – nánast upp úr engu. Staðan orðin 2:2 og stemningin í stúkunni skyndilega gjörbreytt!
Blikar voru í losti og eftir jöfnunarmarkið var bara eitt lið á vellinum. Og Gummi Magg ætlaði ekki að láta sitt eftir liggja við þessar aðstæður. Vuk átti ágætt skot að marki, þar sem Gummi hirti frákastið og skoraði auðveldlega á 80. mínútu (það er ekki útilokað að fréttaritarinn hafi verið á klósettinu þegar þetta gerðist og hafi þurft að styðjast við endursagnir Daða Guðmundssonar og félaga á helstu atvikum…
Tveimur mínútum síðar kom svo síðasti naglinn í líkkistuna. Gummi hirti boltann af niðurbrotnum varnarmanni Blika og vippaði svo meistaralega yfir markvörð þeirra, 4:2.
Undir lokin kom Alex inná fyrir Fred, sem var hetja kvöldsins – sem fyrr sagði. Sigurjón var reyndar valinn maður leiksins, sem er alls ekki óverðskuldað. Tibbling og Kennie hefðu raunar líka komið til greina. Loks var flautað til leiksloka og Siggi-Saggi hefur sjaldan hljómað eins dásamlega. Hvílík hetjulund hjá okkar mönnum! Hvílíkur karakter! Hvílíkur hrópandi skortur á markapela!
Næsti leikur karlamegin er í bikarkeppninni gegn vörslu- og söluaðilum stálgrindarhúsa – en fyrst mætum við öll og horfum á stelpurnar þreyta frumraun sína í Bestu deildinni á þriðjudaginn gegn Þrótti í Laugardal.
Stefán Pálsson