Sú var tíðin að helsta áhyggjuefni íslensku þjóðarinnar í aðdraganda Júróvistjón á hverju ári var hin knýjandi spurning: „Og hvar eigum við að halda keppnina þegar við vinnum?“ Slíkar vangaveltur heyrast sárasjaldan lengur. Annars vegar vegna þess að áratugir af höfnun og niðurlægingu hafa dempað verulega væntingar landsmanna um stórsigra á söngvasviðinu – og hins vegar þar sem svarið er nokkuð augljóst: Í Dal draumanna.
Lambhagavöllur í Úlfarsárdal er líklega eini staðurinn á Íslandi þar sem ganga má að því vísu að veðrið um miðjan maí verði nægilega gott til að hægt sé að halda skrautsýningu utandyra. Gestir yrðu ferjaðir á svæðið með leið 18 og vafalítið mætti nýta vatnsrennibraut Dalslaugar á einhvern hátt sem hluta sviðsmyndar og græna herbergið yrði í salnum þar sem fínumannakaffið er haldið. Sjónvarpsmennirnir yrðu þó að sætta sig við að komast frekar seint inn í húsið til undirbúnings, því við færum varla að fresta getraunakaffinu á laugardagsmorgni.
Fréttaritari Framsíðunnar mætti á skrautsýningu í Salatskálinni í dag, þótt vissulega væri hún örlítið minni að vexti. Framkonur tóku á móti Þór/KA . Fram hefur byrjað svo vel í sumar að mótherjar okkar eru farnir að grípa til þess ráðs að senda tvö og upp í þrjú félög í einu til að berjast við okkur. Ekki beinlínis sanngjarnt en virðist hafa fengið grænt ljós mótanefndar. Ljótt, ljótt sagði fuglinn!
Það var steikjandi hiti í Reykjavík allri og má þá nærri geta hvílík blíða var í dalnum góða. Blessunarlega var nokkur vindur, enda hefði heilsu leikmanna líklega verið hætta búin annars. Vindurinn var hlýr en þó hressandi. Fréttaritarinn var í gula vestinu sem eiginkona hans er farin að reyna að fela út af einhverri skringilegri viðkvæmni yfir olíuklessu sem virðist föst framan á vestinu. Hins vegar gleymdust sólgleraugun heima.
Það var ekkert ýkja fjölmennt á vellinum þrátt fyrir að frítt væri inn í boði eins af styrktaraðilum félagsins. Flestir fastagestir voru fjarri góðu gamni en fréttaritarinn hlammaði sér niður fyrir ofan Sigurð Frey og Andrés Skúlason sem sátu á svipuðum slóðum. Nokkrar breytingar voru gerðar á byrjunarliðinu frá bikarleiknum æsispennandi gegn Val, sem fréttaritarinn komst illu heilli ekki á en gat þó fylgst með í vefútsendingu. Elaina var vitaskuld í markinu. Olga og Dom miðverðir. Kam og Freyja bakverðir. Mackenzie aftast á miðjunni með Unu Rós og Söru til beggja handa, Lily fremst á miðjunni og Murielle og Alda frammi. Í ljós kom að Þór og KA fengu ekki að tefla fram 22 leikmönnum heldur voru þær bara 11. Samt eitthvað ósanngjarnt við þetta.
Gegn Val reið ógæfan yfir strax á annarri mínútu þegar gestirnir komust yfir og sagan virtist ætla að endurtaka sig að þessu sinni þegar mikill darraðardans varð við Frammarkið á nákvæmlega sama tíma. Lítið var um færi á þessum fyrsta kafla leiksins en gestirnir áttu flest þau sem eitthvað kvað að. Þó tókst Murielle að brjótast í gegnum Akureyrarvörnina en Lily skaut framhjá úr upplögðu færi.
Þótt KEA-bræðingurinn væri ívið sterkari inni á vellinum kom fyrsta markið nánast upp úr þurru. Samskiptaleysi milli varnarmanna varð til að ein hvítklædd brunaði í gegn, sendi boltann framhjá Elainu og í stöngina, en fékk frákastið beint aftur í fæturnar og skoraði auðveldlega, 0:1 eftir tuttugu mínútur. Næstu þrjú færi sem þóttu nógu markverð til að rata í minnisbókina komu öll í hlut Fram, þar sem Murielle, Alda og Dom komust allar í sénsa. Það var miðvörðurinn sem fékk langbesta færið þar sem hún sópaði boltanum einhvern veginn yfir markið af tveggja metra færi. Markvörður Norðlendinga var fljót að hugsa og kom knettinum hratt í leik, varnarmenn Framara voru alltof seinar til baka og staðan orðin 0:2 þegar vallarklukkan sýndi 30 mínútur.
Enn var Murielle að ógna á 40. mínútu þegar hún stakk bestu dætur Loga Einarssonar af. Hún virtist komin í dauðafæri en tók skrefinu of mikið og endaði á að þurfa að sætta sig við hornspyrnu. Upp úr því komst Alda í frábært skotfæri en boltinn sleikti stöngina. Aðstoðardómarinn tilkynnti að fjórum mínútum yrði bætt við fyrri hálfleik. Á fjórðu mínútu uppbótartímans komst Fram í hörkufæri eftir góða rispu hjá Dom og Kam. Framarar virtust hafa misst af upplögðu færi til að minnka muninn, en einhvers staðar bættist fimmta viðbótarmínútan við tímann þar sem Dom átti langa aukaspyrnu inn í vítateiginn sem einhver (Sara líklega?) kom fyrir markið þar sem Murielle kom aðvífandi og þrumaði upp í þaknetið, 1:2.
Hvers vegna bleyttuð þið ekki völlinn? – Spurði undrandi stuðningsmaður stór-Hríseyinga fréttaritarann í Bar-8unni í hléi. Hann uppskar langan fyrirlestur um að jafnvel slökkviliðið á Keflavíkurflugvelli myndi ekki megna að halda gervigrasvelli blautum í rúmlega tuttugu stiga hita og vindi. Eins og til að árétta þessi sannindi var skrúfað frá einum vatnsstútnum við miðlínuna áhorfendamegin. Hann dældi vatni beint upp í vindkviðu sem gerði það að verkum að 20-30 áhorfendur í stúkunni fengu hressilegt sturtubað.
Katrín kom inná fyrir Freyju í hálfleik. Seinni hálfleikurinn reyndist mun tíðindaminni en sá fyrri. Fyrsta færi Fram sem náði máli var eftir tæplega fimmtán mínútna leik. Gestirnir voru sterkari og pressuðu talsvert. Á sextugustu mínútu fóru þær langleiðina með að klára leikinn með fallegu skallamarki eftir enn betri undirbúning, 1:3 og róður okkar kvenna orðinn þungur.
Ólína Sif kom inná fyrir Söru Svanhildi og á 65. mínútu og kom sér í hörkifæri strax á fyrstu mínútu sinni. Síðar í hálfleiknum fór Mackenzie af velli fyrir Júlíu Margréti.
Fram komst í dauðafæri uppúr hornspyrnu þegar tíu mínútur voru eftir af leiknum, en sjálft lokaskotið skorti. Um það leyti var Kam komin í fremstu röð og hressti mikið upp á sóknarleikinn. Þessi einn og hálfi metri af sprengikrafti var gríðarlega öflug í dag og verðskuldað valin maður leiksins af akademíunni. Nánast í sömu andrá og tilkynnt var um valið, í annarri mínútu uppbótartíma, stakk hún alla skástriksvörnina af en skot hennar fór í stöngina og útaf.
Uppskera dagsins var ekkert stig en margt jákvætt í frammistöðunni gegn einu af bestu liðum deildarinnar. Og það verður seint sagt að það sé ekki fjör og nóg af mörkum á Framleikjum. Næsti leikur er eftir slétta viku, stórleikurinn Fram : Tindastóll.
Stefán Pálsson