fbpx
Fréttaritari FRAM

Möbelfakta

Höfum eitt á hreinu: svona leikir koma varla nema á nokkurra ára fresti á Íslandi og í mesta lagi þriðja hvern mánuð í Úlfarsárdal. Fram og Vestri mættust í veðri sem verður ekki lýst öðru vísi en sem hitabylgju. Þessarar viðureignar verður í framtíðinni minnst sem leiksins þar sem vatnspásur voru kynntar til sögunnar í íslenskum fótbolta. Viðvörunarkerfi Veðurstofunnar byggist upp á þremur grunnlitum: gulum, appelsínugulum og rauðum. Að þessu sinni þurfti hins vegar að grípa til útfjólublárrar veðurviðvörunnar. Það var bongó í Dal draumanna.

Fréttaritarinn sat og stiknaði fyrir utan blokkina sína í Hlíðunum og burðaðist við að lesa bók. Með fimm mínútna millibili fékk hann tvö tilboð um far á völlinn. Stórrithöfundurinn Einar Kárason með hjörð dætra og dótturdætra bauð fram laust sæti í bíl, en tíu mínútum fyrr hafði Hnífsdalstrymbillinn Kristján Freyr boðið það sama, sem var þegið með þökkum. Frú Hnífsdalur var í ökumannshlutverkinu og í ljós kom að hún á að baki keppnisferil í sundi fyrir Vestra. Afi fréttaritarans var hins vegar formaður beggja félaga. Tengslin eru útum allt!

Leiðin lá fyrst í fínumannaboðið. Þar var boðið upp á hamborgara og Helgi Sig. mættur til að gera grein fyrir liðsuppstillingu. Viktor í marki. Israel, Kyle og Kennie í miðvörðum. Halli og Már bakverðir. Simon, Freyr og Kristófer á miðjunni. Vuk og Róbert frammi. Helgi dró engan dul á að planið væri að liggja til baka og reyna að fá spútniklið Vestra til að sækja framávið. Hvort það myndi virka yrði svo bara að koma í ljós.

Eftir drjúgt stopp í þotuliðssvítunni ákváðu fréttaritarinn og Rokkstjórinn að rölta niður í almenninginn í Bar-8unni þar sem vaskir starfsmenn á plani dældu bjórnum eins og í akkorði. Mætingin var mjög góð. Framarar mættu vel og vestanmenn voru fjölmennir. Raunar er spurning hvort nokkurt gestalið í sumar í hafi mætt með jafnmarga og háværa stuðningsmenn. Vestri er næstmesta uppáhaldslið fréttaritarans í deildinni og á allt gott skilið.

Skjaldsveinninn og Rabbi tryggingatrymbill voru báðir seinir fyrir svo fréttaritarinn og Rokkstjórinn tóku frá sæti á besta stað. Stórfjölskylda Einars Kárasonar var til vinstri í næstu röð fyrir neðan og leiðtogaráð Fótbolta-punktur-net þar við hliðina. Garðar fyrrum sendiráðsbílstjóri (sem vill koma því á framfæri að hann missti bara af stelpnaleiknum því það var 17. maí)  var á vinstri kantinum – við hliðina á Bjarna Guðjónssyni fyrrum andliti Herbalife á Íslandi og þjálfara Fram. Í röðinni fyrir aftan voru Addi úr bankanum og Ívar Guðjónsson – mamma hans var skammt undan. Þetta dekkar nokkurn veginn neimdroppið fyrir leikinn.

Leikurinn byrjaði varfærnislega og í raun leit aðeins eitt almennilegt færi dagsins ljós á fyrsta leikfjórðungnum. Það var þegar Vestramenn misstu boltann kæruleysislega á 6. mínútu, Vuk fékk frákastið og náði skoti sem var fremur auðveldlega varið. Þegar líða tók á hálfleikinn fóru bæði lið að skapa sér fáein hálffæri en fátt sem tók sig að færa til bókar. Vuk kom boltanum í net gestanna þegar hálftími var á klukkunni, en flagg ínuvarðarins var réttilega komið á loft. Fljótlega eftir þetta atvik sá fréttaritari ástæðu til að pára í bók sína: „við söknum Fred“, sem var orð af sönnu. Miðjuspilið hjá Framliðinu var frekar andlítið og fyrirsjáanlegt.

Á 39. mínútu fékk Vuk sendingu úti á kanti og skeiðaði fram, lék á mann og annan – uns Ísfirðingar biðu í röðum eftir því að strauja hann í vítateig sínum. Frábær rispa og Framarar komnir með vítaspyrnu. Hlutverk vítaskyttunnar hefur verið mjög á reiki upp á síðkastið og í bikarsigrinum á móti KA var Israel meira að segja farinn að prófa sig í hlutverkinu. Að þessu sinni dugði hins vegar ekkert annað en IKEA-nákvæmni í anda Möbelfakta og Tibbling fór á punktinn og gerði nákvæmlega það sem maður óskar af manni í þessari stöðu: negldi á markið og Fram komið yfir: 1:0. Markapelinn gekk til vinstri – en þó ekki alla leið til BG.

Fyrri hálfleik lauk og þyrstir og sólbakaðir áhorfendur flúðu í svalann inni í Lambhagahöllinni. Almenn glaðværð ríkti hjá stuðningsmönnum beggja liða. Skiptar skoðanir voru um hvort liðið græddi meira á veðuraðstæðum. Framliðið óneitanlega með fullt af rauðhausum og Vestraliðið meira og minna upprunnið mjög sunnarlega við Ísafjarðardjúp.

Seinni hálfleikur byrjaði óskaplega rólega og fréttaritarinn hirti ekki um að skrá neitt atvik fyrr en á 58. mínútu þegar Viktor sló yfir með tilþrifum bolta sem fór reyndar beint á hann. Hafa ber þó í huga að fréttaritarinn var á þessum tímapunkti stjarfur af hita og þegar farinn úr gula vestinu góða. Á 63. mínútu gerði Fram tvöfalda skiptingu. Gummi Magg og Adam Örn komu inná fyrir Kristófer og Róbert. Skipting sem verður að teljast varnarsinnuð í meira lagi. Planið var greinilega að hanga á forystunni.

Þegar seinni hálfleikur var hálfnaður, gafst fréttaritarinn upp og smeygði sér úr bolnum. Þar sem hann sat á vömbinni í stúkunni hóf stuðningsmannakór gestanna að kyrja e-ð sem hljómaði eins og „Vesti – Vesti“. En því miður – það var bara ekki í boði að þessu sinni.

Gummi var fljótur að láta finna fyrir sér við Vestramarkið en var þó fyrst og fremst öflugur í vörninni. Enn frekari varnarskiptingar litu þó dagsins ljós á 70. mínútu þegar Þorri kom inná fyrir Halla, sem hafði verið mjög öflugur og virkur í leiknum. Tveimur mínútum síðar komst stórættaður Vestramaður (sem augljóslega er ekki nafngreindur hér) einn í gegn en Viktor varði stórkostlega. Þessi ungi markvörður okkar hefur komið gríðarlega vel inn í liðið í ár og átti stóran þátt í sigri dagsins.

Eftir þetta dauðafæri gestanna hægðist yfir leiknum. Gestirnir heimtuðu í tvígang víti fyrir hendi af tilefnislitlu og þegar fimm mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma þurfti Kennie að henda sér hetjulega fyrir boltann til að verjast marki. Á 86. mínútu fékk Freyr loksins hvíldina þegar Sigurjón leysti hann af hólmi. Frammistaða Freys var algjörlega stórkostleg í dag – þar sem hann hljóp allan tímann og gerði nákvæmlega það sem óskað var eftir frá honum. Hann minnir ansi mikið á Halldór Hermann Jónsson, annan uppáhalds-Framara fréttaritarans að austan, fyrir ansi mörgum árum. Freyr var maður leiksins ásamt Kyle sem var stórkostlegur í vörninni og er loksins aftur orðinn líkur gamla góða Kyle, eftir að hafa verið skugginn af sjálfum sér í byrjun móts.

Sjö mínútum var bætt við leiktímann og á sjöttu mínútu hans þurfti Viktor að taka á honum stóra sínum, en skot gestanna rataði beint á hann. Góður sigur gegn topp og spútnikliðinu var uppskera dagsins. Næsta stopp er KR í Laugardalnum. Mætið þangað eða verið ferningar.

Stefán Pálsson

Share this post

Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0

Skráðu þig á póstlistann!

Fáðu allar fréttir, tilboð og aðrar upplýsingar beint í æð!