fbpx
Áhorfendur 2024

Við erum handboltafélag!

Það er alltaf gaman að vera Framari, en suma daga er það jafnvel enn skemmtilegra og ljúfara. Það á sérstaklega við þegar Framarar hafa kvöldið áður innbyrt Íslandsmeistaratitil í handbolta. Fréttaritarinn var raddlítill frameftir degi og með sigggróna lófa af því að gefa fólki fimmur á förnum vegi. Og ofan í þetta kom svo tvíhöfði í fótboltanum!

Upphaflega áttu leikir Framara í karla og kvennaflokknum að fara fram laugardag og sunnudag. Dagsetningunum var hins vegar báðum breytt og þær færðar yfir á föstudagskvöld. Ólyginn hermir að það hafi í öðru tilvikinu verið gert til að rekast ekki á við mögulegan fjórða leik í handboltaeinvíginu – við vorum því fórnarlömb eigin velgengni!

Það er erfitt að vera á tveimur stöðum á sama tíma og fréttaritari Framsíðunnar kom því með krók á móti bragði. Hann kom sér í Ölver rétt upp úr klukkan fimm. Pantaði sér þar öl í krús og kvöldmat og bjó sig undir að horfa á sjónvarpsútsendingu frá kvennaleiknum. Á knæpunni var valinkunnur skríllinn, þar á meðal fulltrúar Fellahverfisdeildar Fótbolta.net sem hörmuðu mjög að missa af Reykjavíkurslagnum í Laugardalnum, en voru á leiðinni til Keflavíkur að horfa á Leiknismenn kjöldregna.

Vaskur starfmaður Ölvers fann að lokum leikinn og varpaði honum upp á einn skjáinn. Það var þó ekki boðið upp á neinn lúxus á borð við hljóðrás, heldur var eitíshitturum blastað í hljóðkerfinu engum til gagns eða ánægju. Sex stiga slagur Fram og Tindastóls – liðanna sem margir fótboltaspekúlantar telja að muni berjast um að hanga í Bestu deildinni í haust – var hafinn. Framarar tefldu fram sterku liði: Elaina í marki; Telma, Olga, Dom og Kam í varnarlínunni. Mackenzie, Katrín Erla og Una Rós á miðjunni. Sara og Lily á köntunum og Murielle frammi (eða svona virtist þetta nokkurn veginn líta út á þöglum skjánum á knæpunni).

Fram var umtalsvert betra liðið í fyrri hálfleik og fékk allnokkur góð marktkifæri. Murielle skaut rétt framhjá á 19. mín. eftir sendingu frá Dom. Eftir hálftíma leik átti Una Rós svo prýðilegt skot sem söng í markslánni. Beint í kjölfarið fengu gestirnir hins vegar dauðafæri eftir kæruleysislega sendingu til baka í Framvörninni. Markalaust jafntefli í hálfleik var ekki úr takt við gang leiksins en Framarar þó klárlega ívið sterkari.

Eftir hlé jöfnuðust leikar nokkuð og heldur tók að draga úr sóknarþunga Framliðsins. Það var fyrst á 69. mínútu sem fréttaritarinn sá ástæðu til að grípa til pennans, en þá átti Kamilla hörkuskot og Framarar vildu fá víti í kjölfarið. Ekkert var þó dæmt. Eyrún Vala kom inná fyrir Lily, en leikurinn virtist vera að fjara út. Fréttaritarinn, sem nú var kominn með félaga – nafna sinn úr Garðabænum og Rabba trymbil, sem báðir höfðu mætt tímanlega í upphitun fyrir karlaleikinn, var hálft í hvoru farinn að sætta sig við tilhugsunina um jafntefli.

Þegar tvær mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma (og áætlaður viðbótartími var bara tvær mínútur) átti Sara frábæra fyrirgjöf fyrir Tindastólsmarkið nánast upp úr þurru, þar sem Murr kom aðvífandi og setti boltann í netið. Þriggja manna fagnaðarlætin á Ölveri voru mikil og innileg – en þó varla neitt miðað við það sem 87 manns í stúkunni og liðið í Dal draumanna buðu uppá. Gríðarlega dýrmætur sigur sem gæti skipt öllu máli þegar stigin verða talin saman í haust.

Tafirnar á kvennaleiknum gerðu það að verkum að fréttaritarinn og Rabbi þurftu að skunda hratt á heimavöll KR-inga í Frostaskjóli-eystra. Mínúta var liðin af leiknum þegar þeir mættu loksins á svæðið. Meiðsli lykilmanna settu svip sinn á uppstillinguna. Fred er enn ekki orðinn leikfær og Vestfjarðaböðlarnir spörkuðu Frey út úr leiknum síðast. Viktor stóð í markinu með Sigurjón, Kyle og Israel fyrir framan sig. Halli og Már í bakvörðum. Kennie í einhverju óskilgreindu miðjuhlutverki ásamt sænska tvíeykinu Tibbling og Jakob Byström sem mjög óvænt steig sín fyrstu skref í Bestu deildinni í dag. Vuk og Róbert frammi. Meðalaldur byrjunarliðsins var 26 ár, ekki nema árinu meira en KR-ingarnir sem þó er hampað sem táningasveit.

Lítið fór fyrir varnarleik í byrjun. Bæði lið blésu til sóknar og ógnuðu marki andstæðinganna, KR fékk fyrsta dauðafæri leiksins á 16. mínútu – en strax mínútu síðar kom fyrsta markið og það var hinu megin, Halli brunaði upp kantinn, átti frábæra þversendingu og þar kom sænski táningurinn Byström aðvífandi og skoraði í autt netið, 0:1!

Stuðningsmenn KR-inga, sem kunnir eru af prúðmennsku, minntu á það með því að syngja hátt og snjallt: „Þið eruð handboltafélag! Þið eruð handboltafélag!“ – sem var falleg áminning um Íslandsmeistaratitil okkar í þjóðaríþróttinni kvöldið áður. Við erum svo sannarlega handboltafélag! Hver veit nema að við getum endurgoldið KR-ingum gestrisnina, t.d. ef keiludeildin þeirra verður Íslandsmeistari?

Adam var ekki lengi í paradís og á 20. mínútu var afskaplega mjúkt aukaspyrna dæmd á Sigurjón, sem var annars var frábær í vörninni Úr henni jafnaði KR metin með skoti sem mun mögulega teljast mark ársins, 1:1.

En beint í kjölfarið ákvað sænska mafían að refsa. Tibbling átti stórkostlega sendingu inn í teig á Byström sem nikkaði boltanum í fallegum boga yfir markvörð heimamanna og í netið, 1:2.

Og svo liðu ekki nema tvær mínútur þar til Tibbling átti sína aðra stoðsendingu – að þessu sinni á Vuk sem stakk sér í gegnum vörnina og breytti stöðunni í 1:3. Tibbling og Vuk voru svo nærri því að auka forystuna enn á markamínútunni, en borlinn rúllaði framhjá markinu.

Í leikhléi voru Framarar örlítið agndofa. Liðið hafði yfirspilað KR, eins og heimamenn voru fyrstir manna til í að viðurkenna. Yrði áframhald eftir hlé?

Stutta svarið við þeirri spurningu var: nei! Allt annað Framlið mætti til leiks í seinni hálfleik. Rúnar og félagar reyndu að drepa leikinn niður og að mörgu leyti tókst það nokkuð vel framan af. Framarar hættu að spila fram á völlinn en skiptu í staðinn yfir í kýlingar fram á við upp á von og óvon. Þetta kom lítið að sök í fyrstu því heimamenn sköpuðu lítið. Fyrsta skipting okkar manna kom svo á 56. mínútu þegartveggja marka hetjan Byström fór af velli með krampa fyrir Alex. Frábær frammistaða hjá þessum unga manni sem gæri orðið algjörlega brilljant fyrir okkur í sumar ef svo fer sem horfir.

KR átti varla færi fyrsta korterið af seinni hálfleik en eftir það fór stríðsgæfan verulega að snúast. Sóknarbylgjurnar buldu á Frammarkinu og góður leikur Viktors var það eina sem hélt þeim í skefjum. Þá áttu varnarmenn frábæran leik. Kyle er að ná sínum fyrri styrk og Mási var góður frá upphafi til enda. Þegar tuttugu mínútur voru eftir minnkuðu KR-ingar hins vegar muninn í aðeins eitt mark með bylmingsskoti.

Við tók taugatrekkjandi tímabil. Kristófer kom inná fyrir Vuk sem hafði fengið krampa. Aðeins mínútu síðar kláraði þjálfarateymið skiptingar sínar þegar Gummi kom inná fyrir Róbert Hauksson – sem fær aukaverðlaun fyrir að eiga kröftugasta stuðningspabbann! Hefði ekki mátt sameina þessar tvær skiptingar og eiga þá möguleika á frekari róteringum?

Kristófer komst í gullið færi til að drepa leikinn endanlega eftir góðan undirbúning frá Simon og Mása á 80. mínútu en mistókst að koma góðu skoti á mark úr galopnu færi. Fyrir vikið þurfu Framarar að sætta sig við að naga neglur aðeins lengur.

Viktor varði glæislega á 83. mínútu og KR-ingur sem hirti frákastið negldi í stöngina. Hurð skall nærri hælum! Gummi Magg sýndi klókindi sín þegar hann fiskaði miðvörð KR útaf á 85. mínútu – enn áttu heimamenn þó eftir að ná einni neglu í stöng og öðru skoti sem Viktor varð stórfenglega. Viktor hefur á skömmum tíma í liðinu tryggt Fram fjöldamörg stig og man fréttaritarinn varla eftir markverði sem hefur svo skjótt náð að setja mark sitt á liðið. Loks var flautað til leiksloka og dýrmætum þremur stigum fagnað með Siggasagga, sem KR-ingarnir gátu ekki stillt sig um að spilla með því að blasta stuðningslög sín í lokin. Það er erfitt að velja mann leiksins Sigurjón og Kyle voru frábærir í vörninni og sama gildir um Viktor í markinu. Sænska mafían er brilljant á miðjunni og Vuk virkilega flottur í fyrri hálfleik. Mási fær þetta samt að þessu sinni.

Eftir leik lá leiðin aftur á Ölver þar sem nokkrar af hetjum dagsins létu sjá sig. Þrír sigrar á tveimur dögum er bara helvíti fínt. Megi þetta vara sem lengst!

Stefán Pálsson

Share this post

Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0

Skráðu þig á póstlistann!

Fáðu allar fréttir, tilboð og aðrar upplýsingar beint í æð!