fbpx
Simon

Illa farið með góðan dreng

Tapleikur Fram gegn KA í Dal draumanna í síðustu umferð var svo herfilegur að tölva fréttaritarans framdi sjálfsmorð. Þegar komið var heim í Hlíðarnar til að skrifa um leikinn og fréttaritarinn var byrjaður á pistli sem lagði út frá bók Setbergs um G-blettinn frá árinu 1987, ákvað æpadd heimilisins að hann gæti ekki meir. Í miðri annarri efnisgrein slökkti skjárinn á sér og vaknaði aldrei aftur til lífsins. Heimurinn er táradalur.

Með nýja tölvu, beint úr kassanum, mætti fréttaritarinn örlítið borubrattari að Hlíðarenda í kvöld. Fyrsta stopp var í Fjósinu þar sem heimamenn höfðu boðið valinkunnum Frömurum í að halda kynningarávörp: Gumma Torfa og Gústa púst. Framarar höfðu greinilega fjölmennt í þennan upptakt og létu vel í sér heyra. Fréttaritarinn á fullt af Völsurum að vinum, en gat þó ekki á heilum sér tekið fyrr en hann rak augum í skjaldsveininn og Rabba sem komu seint á svæðið. Þeir voru báðir barnlausir.

Hersingin skundaði upp í stúku og fann sæti fyrir neðan Adda í bankanum og Ívar Guðjónsson. Skúli Helgason – sá úthrópaði hatursmanna bjórglasa á fótboltaleikjum, hlammaði sér svo niður þar til hliðar. Hvernig myndi þetta fara? Rúnar og þjálfarateymið gerðu tvær breytingar á byrjunarliðinu – Fred og Freyr báðir utan hóps, sem og Alex vegna meiðsla. Viktor í markinu. Þorri, Kyle og Sigurjón miðverðir. Halli og Israel á köntunum. Kennie aftastur á miðjunni ásamt Simon. Róbert, Vuk og Gummi Magg framávið.

Leikurinn byrjaði afar rólega og bæði lið virtust furðulega sátt við að halda í fengið stig. Fátt annað en almenn gamanmál og skopskyn harðkjarnans í stúkunni hélt honum vakandi. Fyrsta færið sem náði máli var markspyrna Valsmanna eftir rúmt kortér sem smaug framhjá. Beint í kjölfarið komst Fram í sína fyrstu sókn þegar Vuk sparkaði yfir úr góðri sókn sem Tibbling lagði upp. Sá sænski á miðjunni var sívinnandi og langbesti leikmaður Framara í dag – eins langt og það nær.

Framsóknin skapaði sér fáein hálffæri næstu tíu mínúturnar en ekkert sem náði máli. Eftir rétt rúmlega hálftíma fengu Valsmenn dauðafæri en Viktor í markinu stóð fyrir sínu. Það er leitum að markverði sem gengið hefur jafn auðveldlega inn í aðallið Framara. Lengi lifi Viktor!

Tíðindalitlum fyrri hálfleik lauk eftir dauðafæri frá Vuk eftir fínan undirbúning frá Halla. Fréttaritarinn og félagar héldu fram til að gúffa í sig hamborgurum heimamanna – sem eru ljúffengir en eiga þó ekki breik í michelin-buffin í Úlfarsárdal.

Seinni hálfleikur byrjaði jafn tíðindalítill og sá fyrri. Hvorugt liðið gerði teljandi atlögur að marki hins liðsins. Eftir fimm mínútna leik missti Framvörnin hins vegar boltann upp úr engu – Kennie taldi brotið á sér en danska salami-pylsan skaust ein í gegn og skoraði vandræðalítið, 1:0 fyrir Val. Rétt áður en seinni hálfleikur var hálfnaður var Framstjórnin búin að missa þolinmæða og kallaði eftir tvöfaldri skiptingu, þar sem Byströn og unglingurinn Ólafur Elís kæmu inn fyrir Halla og Gumma Magg. Meðan leikmennirnir stóðu á hliðarlínunni og biðu úrslita átti sá spænski Israel þrususendingu í gegnum vörnina þar sem Vuk var fljótur að hugsa og skoraði enn eitt markið.

Jöfnunarmarkið reyndist skammvinn gleði. Sjö mínútum síðar kom fíflalegt mark þar sem KR-markvörðurinn þeytti boltanum langt fram eftir aulamarkvörslu FH-inga. Viktor Frammarkvörður átti ágætt úthlaup en það dagði ekki til og hann var þegar kominn markinu undir.

2:1 undir kappkostuðu heimamenn að drepa leikinn og tókst býsna vel upp við það. Kristófer kom inná fyrir Þorra undir lokin en það hafði engin áhrif á leikinn. Heimamenn fögnuðu 2:1 sigri á okkar mönnum. Fátt til að gleðjast yfir nema kannski frammistaða Tibbling sem er lykilmaður á miðjunni. Blessunarlega fær nú fréttaritarinn smátíma til að sleikja sárin. Hann hefur látið plata sig í fararstjórn í grunnskólaferðalagi fjölskyldunnar og missir því af heimaleiknum gegn Stjörnunni í kvennaboltanum og enginn veit hvenær næst verður spilað karlamegin. En nú er að standa í lappirnar – Framarar eru að dragast niður í fallbaráttu og það er augljóslega ekki í boði lengur.

Stefán Pálsson

Share this post

Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0

Skráðu þig á póstlistann!

Fáðu allar fréttir, tilboð og aðrar upplýsingar beint í æð!