Hvernig væri að mótanefnd KSÍ og Veðurstofan tækju saman höndum og skipulegðu gagnvirkt leikjaprógram? Þegar útlit væri fyrir bongó yrði í skyndingu riggað upp leikjum á unaðsreitum höfuðborgarsvæðisins. Skítaveðursdagana yrði svo bara spilað í Garðabænum þar sem alltaf er kalt hvort sem er!
Í dag fengum við yndislegan dag með tvíhöfða. Meistaraflokkar Fram í kvenna- og karlaflokki áttu bæði leik. Fréttaritari Framsíðunnar tilkynnti fjölskyldu sinni að þau myndu ekki hafa neitt saman við hann að sælda. Hér yrði horft á fótbolta frá klukkan tvö til níu!
Byrjum á leiknum hjá stelpunum:
Lausleg athugun á Borgarvefsjá leiðir í ljós að það er 385 metra vegalengd fyrir fréttaritara Framsíðunnar frá útidyrahurðinni á blokkinni hans og að inngangi Hlíðarendaíþróttahússins – miðað við að stytta sér leið yfir Bústaðaveginn í stað þess að fara undirgöngin eins og löghlýðinn borgari. Þetta er líka að mestu leyti niður í mót.
Fréttaritarinn gat því beðið fram á síðustu stundu að skokka út úr húsi í fína gula vestinu og með sólgleraugun á trýninu. Í blíðskaparveðri sem þessu er alls staðar hlýtt, meira að segja á Valsvellinum. Þegar inn var komið gekk hann í flasið á tveimur vinum og bekkjarbræðrum sonar síns, þeir hafa náð samningum við Hlíðarendaliðið um að halda úti vöfflubás á heimaleikjum. Sniðug hugmynd og undirtektirnar greinilega góðar. Það var líka prýðilega mætt og flestir settust framarlega í stúkuna til að láta sólbakast í blíðunni.
Fyrir rúmu ári mætti Fréttaritarinn á leik liða Vals og Fram í bikarnum, sem lauk með 8:0 sigri heimakvenna og fyrr í sumar stálu Valskonur sigrinum af okkur í æsilegum bikarleik í Dal draumanna. Það var því óneitanlega smá fiðringur í maganum og engin stemning fyrir enn einu tapinu.
Elaina var að sjálfsögðu í markinu. Olga og Telma í miðvörðum. Dom og Kam í bakvörðum. Mackenzie aftast á miðjunni með Katrínu Erlu og Lily fyrir framan sig. Una Rós og Sara Svanhildur á sitthvorum kantinum og Murielle uppi á toppi. – Sett fram með hefðbundnum fyrirvörum um að Fréttaritarinn er óvanur sólgleraugum og kortér frá sólsting. Það er líka erfitt að einbeita sér þegar fullkomnasta mögulega litasamsetning er á vellinum: blátt lið á móti rauðu liði. Helst hefðu markverðirnir mátt vera í grænu og dómarinn í svörtu – þá væri allt stórkostlegt.
Valskonur hafa ekki verið sjálfum sér líkar þar sem af er sumri, en landið virtist þó farið að rísa með góðum bikarsigri í síðasta leik. Þær mættu ákveðnar að þessu sinni. Sóttu frá fyrstu mínútu en Framliðið lá langt til baka og einsetti sér að verjast – auk þess að treysta á besta markmann deildarinnar. Þá sjaldan að Fram vann boltann, gekk illa að halda honum og sóknir enduðu á fljótfærnislegum sendingum eða ofurbjartsýnum langskotum. Fátt gladdi augað okkar megin og einhvern veginn virtist Valsmark liggja í loftinu. Það rættist loks á 39. mínútu. Fallegt var það þó ekki. Skot sem virtist hættulítið hrökk af varnarmanni Fram og í netið eftir að Elaina var stokkin í hitt hornið, 1:0.
Engu mátti muna að Valur tvöfaldaði forystuna og dræpi þannig leikinn strax tveimur mínútum síðar þegar óvænt skot small í stönginni. Nánast beint í kjölfarið ætlaði allt að sjóða uppúr á hliðarlínunni þegar Elaina lenti í samstuði við Valskonu sem lá eftir. Heimamenn töldu sig grátt leikna en líklega var þetta bara heiðarleg barátta um boltann.
Segja má að okkar lið hafi mátt þakka fyrir að vera bara marki undir í hálfleik. Fréttaritarinn afþakkaði pent vöfflu. Enginn étur sætabrauð sem er að tapa fyrir Val. Stærra áhyggjuefni var að erfitt var að sjá hvaðan jöfnunarmark ætti að koma. Sara var eiginlega sú eina í bláu sem hafði sýnt nein tilþrif í fyrri hálfleik og þrautreyndur Valsþjálfarinn myndi vafalítið koma með eitthvað óvænt útspil í seinni hálfleik.
Útspilið kom og var svo sannarlega óvænt – en kannski ekki að sama skapi skynsamlegt. Leikmenn Vals virðast hafa verið látnir drekka vænan slurk af valíumblöndu í hléi og verið skipað að gefa miðjuna fullkomlega eftir. Sem og þær gerðu.
Framarar voru miklu sterkara liðið frá fyrstu mínútu seinni hálfleiks og gátu loksins farið að leyfa sér eitthvað flæði í spilamennskunni. Allt í einu fóru leikmenn að sjást sem höfðu verið ósýnilegir fyrir hlé, s.s. Lily, Kam, Una Rós – og síðast en ekki síst leiðtoginn okkar hún Murielle.
Á 54. mínútu uppskáru okkar konur laun erfiðisins. Una Rós fór með boltann alveg upp að endamörkum og gerði gríðarlega vel í að halda honum inná og leika í leiðinni á varnarmann Vals. Hún hljóp í átt að markinu og allir biðu eftir sendingunni út í teiginn – en þess í stað lét hún vaða á nærstöngina, þar sem boltinn skaust af varnarmanni og inn, 1:1.
Þetta kjaftshögg sló Valsara enn meira út af laginu og Fram hélt áfram að stýra spilinu á miðjunni. Tíu mínútum eftir markið féll boltinn þægilega fyrir Söru sem lét vaða með vinstri af löngu færi og beint í þverslánna! Tveimur mínútum síðar var klaufaleg sending í milli varnarmanna Vals nærri miðjuhringnum sem Murielle kom löppunum í. Hún tók á rás með þrjá Valsara á hælunum, en stakk þær allar af og skaut svo föstu skoti vel fyrir utan teig sem Valsmarkvörðurinn náði bara að slá í netið, 1:2.
Engu mátti muna þriðja markið kæmi rétt rúmri mínútu síðar þegar skógarhlaup í Valsvörninni endaði með langskoti Framara á tómt mark, en boltinn fór í stöng. Fleiri færi fylgdu í kjölfarið og segja má að Framkonur hafi verið farnar að verða örlítið kærulausar í færanýtingunni. Fyrsta skiptingin kom svo þegar kortér var eftir. Alda kom inná fyrir Katrínu. Síðar áttu þær Hildur María og Ólína eftir að koma inná fyrir Lily og Söru í sitthvorri skiptingunni.
Liðið hans Óskars var mjög faglegt í að drepa leikinn undir lokin og nokkrum sinnum tókst að grípa til skemmtilegu gestaþrautarinnar: „hlaupið með boltann út að hornfána“. Sóknir Vals urðu sífellt örvæntingarfyllri og að lokum var Fram nær því að bæta við þegar Kam slapp ein í gegn á móti markverði en vippa hennar var slegin naumlega yfir þegar uppgefinn viðbótartími var runninn út. Frábær sigur á erkifjendunum. Stigataflan er farin að líta virkilega vel út þegar fyrri umferð aðalkeppninar er nákvæmlega hálfnuð.
Léttstígur Fréttaritari trítlaði aftur heim á leið. Hann henti í 1-2 þvottavélar og byrjaði að vinna sér í haginn í leikskýrsluritun áður en tímabært var að taka leið 18 upp í Dal draumanna, þar sem karlaflokkurinn tók á móti Fimleikafélagi Hafnarfjarðar.
Í fínumannaboðinu var fámennt en góðmennt. Eldri kynslóðin átti í standandi vandræðum með gúffa í sig mexíkóskar vefjur í álpappír. Rúnar þjálfari mætti til að kynna liðið og það var áberandi hversu þungt var í honum hljóðið – við virkuðum ekki eins og lið sem væri að fara að rústa andstæðingnum heldur fór meira fyrir marxískri sjálfsgagnrýni yfir að við værum ekki komnir með fleiri stig. Væbið var frekar neikvætt, en viðstaddir reyndu að hrista það af sér.
Byrjunarliðið var annars öflugt og fyrirsjáanlegt. Viktor í marki. Sigurjón, Kyle og Þorri í miðvörðum. Kennie og Halli bakverðir. Israel aftastur á miðjunni með Tibbling fyrir framan sig. Már og Róbert til hliðanna og Vuk frammi. Pínkulítið dasaður fréttaritari ákvað að yfirgefa fínumannaboðið og halda niður í almúgann í Bar-8unni. Félagi Rabbi var mættur og barnlaus aldrei þessu vant. Skjaldsveinninn var fastur í Leeds eins og flón.
Það var flautað til leiks og Fréttaritarinn og Rafn röltu fram í áhorfendastæðið. Leikurinn byrjaði rólega. Þar kom aðvífandi Garðar fyrrum sendiráðsbílstjóri í sallafínni 100 ára-afmælistreyju Fram. Hann var ekki fyrr mættur en hann fór að tala um að Haukur, pabbi Róberts Hauks – og eftirlætisforeldri allra Framara frá því að Ragga Ríkharðs var og hét – þyrfti að eignast Framtreyju. Hann rétti því Fréttaritaranum sólgleraugun sín og bjórdósina, fletti sig klæðum og færði félaga Hauki treyjuna góðu. Það urðu fagnaðarfundir.
Þegar þessi treyjuskipti höfðu átt sér stað – og um sex mínútur voru búnar af leiknum, kom léttklæddur Garðar aftur efst í stúkuna og eftirfarandi orðaskipti áttu sér stað: „Garðar: Hvað segiði um þetta drengir? – Rabbi: Ég veit það ekki en Vuk er alltaf að fara að skora! – Fréttaritarinn: Þokkalega, hann er að fara að skora, leggja upp og fá rautt spjald. Það má hengja sig upp á það!“
Tuttugu sekúndum síðar splundraði Róbert varnarlínu FH með frábæru hlaupi upp kantinn, sendi fyrir og Vuk henti sér fyrir boltann og kom honum í netið, 1:0. Markið kom vissulega nokkuð óvænt og Framarar höfðu ekki ógnað að ráði fram að því en í kjölfarið tókum við völdin á vellinum. Már átti frábæra sendingu fyrir markað skömmu síðar en Róbert missti naumlega af því að pota henni inn. Skömmu síðar átti Vuk hörkufæri þar sem markvörður FH varði með fótunum.
Næstbesta færi Fram í fyrri hálfleiknum kom eftir rétt rúman hálftíma þar sem Kyle komst í óvænt skotfæri vel fyrir utan vítateig eftir 32. mínútur og boltinn small í stönginni. Tveimur mínútum síðar skapaðist stórhætta hinu megin á vellinum þegar Viktor sló aukaspyrnu FH-inga yfir. Skömmu síðar sofnaði Framvörnin á verðinum og FH átti frían skalla framhjá úr dauðafæri.
Framliðinu tókst að drepa leikinn fyrir hlé og halda inn í seinni hálfleikinn með eins marks forystu. Ýmsir urðu þó til að rifja upp bikarleikinn gegn sama liði fyrr á leiktíðinni þar sem Framarar pökkuðu í vörn allt of snemma og hleyptu vonlitlu Hafnarfjarðarliðinu inn í leikinn af þarflausu.
Seinni hálfleikur byrjaði og Framarar voru enn með yfirhöndina. Eftir tíu mínútna leik rauk Sigurjón, sem var þrælfínn í dag, upp allan völlinn og sendi á Má sem skaut framhjá úr hörkufæri. Þetta var þó eitt af örfáum afgerandi færum í þessum leikfjórðungi. Þegar hálfleikurinn var hálfnaður gerði Fram sína fyrstu breytingu, þar sem Fred sneri aftur úr langvinnum meiðslum og leysti Vuk af hólmi. Munurinn, um leið og Fred kom inná var áþreifanlegur, þar sem miðjuspil okkar varð allt þeim mun léttara.
Þegar tuttugu mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma leit einhver besta sóknarlota leiksins dagsins ljós. Viktor (sem fær sérstakt hrós fyrir að vera fyrsti markvörður Fram til að bera derhúfu frá því að Friðrik Friðriksson var og hét) negldi fram. Már skeiðaði fram, hristi af sér varnarmenn Hafnfirðinga og sendi loks til hliðar á Kennie sem þrumaði að marki en boltinn söng í stönginni! Einu af mörkum sumarsins naumlega afstýrt!
Þegar kortér var eftir fengu Framarar aukaspyrnu rétt við vítateigshornið hægra megin. Halli hlóð í skot sem markvörður FH sló frá marki, en Sigurjón kom aðvófandi og þrumaði í netið, 2:0 og sigurinn nánast í höfn. Strax á næstu mínútu fór Halli af velli en Gummi Magg kom inná í staðinn.
Framarar pökkuðu í vörn en skotin buldu á markinu. Viktor átti þrjár frábærar markvörslur á þessum lokahluta leiksins, ein þeirra rataði í stöng og útaf. Frammistaða hans á þessum kafla hefði átt að gera hann að kandídati í mann leiksins. Vallarstjórnendur völdu Sigurjón en Fréttaritarinn hallast að því að velja Má – sem var frábær í leiknum, með Róbert og Kennie alla í naumum næstu sætum.
Undir blálokin komu Ólíver Elís og Byström inná fyrir Israel og Róbert. Sallafínn sigur í húsi. Fram er í hörkuséns að enda í topp-6 eftir fyrri umferð Íslandsmótsins, sem yrði jafnframt besti árangur okkar eftir að komið var upp í efstu deild á ný. Lykilmálið er þó að vinna bikarleikinn á fimmtudaginn kemur. Þangað mæta allir góðir menna. Sjáumst á Ásláki!
Stefán Pálsson