fbpx
Kyle gegn UMFA

Ef annað segja rútur tvær…

Þegar fréttaritari Framsíðunnar var ungur drengur fóru fótboltaleikir almennt fram klukkan átta – nokkuð óáháð því hvort flóðljós væru á völlum eða hvort verulega væri farið að rökkva á kvöldin. Dómarar bættu sjaldnast miklu við leiki sem voru því búnir rétt fyrir klukkan tíu – sem þýddi að íþróttafréttamaðurinn í tíufréttum RÚV átti fullt í fangi að ná að tilkynna úrslit allra leikja í lok fréttatímans. Á þessum síðustu og verstu tímum þar sem leikir hefjast yfirleitt á einhverjum fábjánalegum tímum eins og 19:15 eða 18:45, var sérlega gleðilegt að upplifa bikaleik Framara í kvöld sem byrjaði á slaginu átta.

Það var blásið í herlúðra í Dal draumanna í kvöld – stuðningsmönnum stefnt á Lambhagavöllinn og lofað rútuferð í Mosó. Fréttaritarinn er hópsál og ákvað því að taka leið 18 tímanlega úr Hlíðunum. Hann datt í hús í Bar-8unni sem búið var að flytja tímabundið upp í fínumannastúkuna á þriðju hæð, um það leyti sem Svanhvít úr stjórninni var að tengja fyrsta kútinn. Þarna var setið næsta eina og hálfa klukkutímann og horft á aðra bikarleiki meðan fólkið dreif að.

Meðan á samsætinu stóð bárust fregnir af byrjunarliðsuppstillingum. Fred kom inn í byrjunarliðið fyrir Þorra. Liðsskipan var því á þessa leið: Viktor í marki. Kyle, Sigurjón og Israel í miðvörðum. Halli og Kennie bakverðir. Fred, Tibbling og Már á miðjunni. Róbert og Vuk frammi. Mikið gleðiefni að fá Fred aftur inn í liðið og einnig ánægjulegt að Tryggvi, Freyr og Byström voru allir á bekknum eftir mislöng meiðsli.

Þegar líða tók að leik kom kallið. Húsið var fullt af fólki úr hverfinu, börnum jafnt sem fullorðnum. Fréttaritarinn var einn örfárra úr „gamla kjarnanum“. Geiramenn útbýttu söngheftum og almenn gamanmál voru viðhöfð. Stuðningsmannasveitin fyllti tvær rútur sem óku beinustu leið í kjúklingabæinn.

Afturelding er á fyrsta ári sínu í efstu deild í karlafótbolta og hefur fengið hrós fyrir líflega umgjörð og öflugan stuðning. Í kvöld mættu þeir hins vegar ofjörlum sínum. Framarar voru fleiri á pöllunum og Geiramenn sungu og trölluðu allan tímann á meðan hvorki hósti né stuna togaðist upp úr heimamönnum. Hamborgararnir sem framreiddir voru í veitingasölunni fá sömuleiðis falleinkunn sem þeir slöppustu sem fréttaritarinn hefur keypt á fótboltavelli síðustu tvö árin. Það er samt alltaf gaman að koma á völlinn í Mosó og tónlistin var að venju betri en gerist og gengur á öðrum völlum.

Fyrri hálfleikur var dauflegur í meira lagi. Framarar fengu allnokkur horn og fáein hálffæri í byrjun, en ekkert sem náði máli. Afturelding hélt boltanum ívið meira úti á vellinum en skapaði sér lítið. Fyrsta færið sem verðskuldað færslu í minnisbókinni var skot frá Vuk eftir 20 mínútna leik sem varið var í horn. Á þessum tímapunkti var Rabbi trymbill mættur með öngulinn í rassinum eftir misheppnaða laxveiði í nálægri sprænu. Skjaldsveinninn var hins vegar fjarri góðu gamni – liggjandi heima í eymd og volæði með útlenska flensu eftir enn einn dagpeningatúrinn.

Tíu mínútum síðar sópaði Kennie boltanum yfir eftir hornspyrnu. Þetta var allt afar tíðindalítið… Loks virtist eitthvað ætla að gerast á 37. mínútu þegar mosfellskur framherji náði flugskalla að marki sem Viktor varði frábærlega. Sú varsla taldi þó ekki þar sem dómarinn hafði flautað á bakhrindingu í aðdragandanum. Fyrri hálfleikur virtist ætla að fjara út þegar Afturelding náði skyndisókn í blálokin og í síðasta skoti fyrir hlé small boltinn í slá Frammarksins – atvik sem hefði getað gjörbreytt gangi leiksins.

Í hléinu trítluðu Fréttaritarinn og Rafn í veitingatjald það sem Mosfellingar ætla gestum og sem lítur út eins og hoppukastali fátækamannsins. Þar var sest niður og rifjað upp hvers vegna okkur er frekar illa við Mosfellinga: svarið er einfalt. Fyrir nokkrun árum voru Fram og Afturelding með sameiginlegt lið í kvennaboltanum. Því lauk þegar Afturelding ákvað að dömpa okkur einhliða og tefla fram liði undir eigin merkjum… við sjáum í dag hvernig spilaðist úr þeirri ákvörðun! Hah!

Heimamenn mættu jafnvel enn daufari til leiks í seinni hálfleik en þeim fyrri. Kennie, sem var einn af mörgum leikmönnum Fram sem voru frábærir í kvöld, átti hörkufæri strax í blábyrjun sem var vel varið. Nokkrum mínútum síðan lagði Már upp góðan skalla fyrir Róbert sem hitti ekki á markið.

Á 55. mínútu kom fyrsta skipting Fram og jafnframt sú sem breytti leiknum. Már, sem virtist ekki sjálfum sér líkur í dag fór af velli fyrir Frey, sem sneri aftur eftir að hafa verið sparkaður sundur og saman af Vestra-böðlunum fyrir margt löngu. Hann byrjaði þegar af ótrúlegum krafti og hljópi hringi í kringum svifaseinu miðju- og varnarmenn UMFA. Um leið og Freyr kom inná páraði Fréttaritatinn í minnisbók sína: „Kyle er búinn að vera frábær!“ Og þar var kórrétt. Kyle var seinn í gang á þessu tímabili en hefur í síðustu leikjum náð fyrri styrk og fór á kostum í kvöld ásamt Sigurjóni í vörninni, þar sem þeir drápu meira og minna niður allar sóknarlotur heimamanna.

Þegar tæpur hálftími var eftir átti Kennie stórkostlega sendingu fyrir markið sem Vuk virtist ætla að pota í netið, en aðvífandi varnarmaður kom boltanum frá á ögurstundu. Á 68. mínútu kom svo loksins markið mikilvæga. Tibbling fékk boltann á miðjunni og snéri sér leiftursnöggt á punktinum, sendi á Vuk sem brunaði upp að endamörkum – sendi fyrir þar sem Freyr stökk hæst allra (ákveðinn áfellisdómur yfir vörn andstæðinganna) og skallaði í netið, 0:1!

Við markið var allur vindur úr heimamönnum og nánast ekkert markvert rataði í bókina. Jú, Róbert fór af velli fyrir Minga og Fred skömmu síðar fyrir Þorra. Geiramenn unnu með hið sígilda skemmtiatriði fótboltastuðningsmanna á öllum tímum: að nudda salti í sárin – með því að blasta Kaleo-slagara í gegnum gjallarhorn sín. Það kallaði ekki á minnstu viðbrögð. Blóðið rennur ekki í þessu liði!

Að lokum var flautað til leiksloka og öruggur sigur í höfn. Freyr var maður leiksins þrátt fyrir að spila ekki nema þriðjung leiksins. Síðar um kvöldið var dregið og Framarar halda til Ísafjarðar. Takist okkur að verða bikarmeistarar í haust mun það kalla á sigurleiki gegn fimm úrvalsdeildarliðum – sem er mjög líklega met. En fyrst er að horfa á Framkonur vinna Þrótt í Dal draumanna á morgun, föstudag!

Stefán Pálsson

Share this post

Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0

Skráðu þig á póstlistann!

Fáðu allar fréttir, tilboð og aðrar upplýsingar beint í æð!