„Hvernig er það, er einhver annar góður fótboltamaður en Freyr sem hefur komið frá Hornafirði?“ – spurði Hnífsdalstrymbillinn Kristján Freyr þegar fáeinar mínútur voru liðnar af leik Fram og ÍBV í Salatskálinni í Dal draumanna. Hann var nýbúinn að hlamma sér niður við hliðina á Fréttaritara Framsíðunnar og Skjaldsveininum. Foreldrar Þorra sátu í röðinni fyrir framan.
Veðurspáin hljóðaði upp á tíu stiga hita en ausandi rigningu og Fréttaritarinn greip því með sér gráu peysuna innanundir appelsínugula vestið góða. Það reyndist engin þörf á henni. Valur Norðri mætti í Eskihlíðina á bensínskrímslinu sem mun væntanlega eitt og sér færa Vanúatú og Kiribatí í kaf. Félagarnir renndu svo í hlað í Úlfarsárdalnum kortér fyrir leik.
Í fínumannaherberginu var Rúnar löngu búin að kynna liðið. Liðsuppstillingin tók mið af meiðslum og leikbönnum. Lykilmenn voru utan liðs og varamannabekkurinn reynslulítill í meira lagi. Viktor stóð vaktina í markinu að venju. Þriggja manna varnarlínan var skipuð þeim Þorra, Sigurjóni og Kennie sem færðist aftar á völlinn. Israel og Már voru vængbakverðir. Miðjan var skipuð þeim Tibbling, Fred og Frey – sem er líklega lágvaxnasti hópur afreksíþróttamanna sem hægt er að mynda án þess að Sigríður Á. Andersen sé í hópnum. Vuk og Byström í framlínunni.
En hvaða Hornfirðingur – annar en Freyr – var góður í fótbolta? Fréttaritarinn er vinur hinna dreifðu byggða og þóttist muna svarið. Hvað hét hann aftur stóri lurkurinn sem spilaði í Noregi… átti einhverja landsleiki… og var jöfnum höndum miðvörður og framherji? Við tók kraftgúgglun á snjallsímanum sem bar lítinn árangur í fyrstu…
Meðan Fréttaritarinn rýndi í símann sinn mallaði leikurinn áfram. Fátt bar til tíðinda. Bæði liðin voru varfærin. Fyrsta athugasemdin rataði í minnisbókina á 15. mínútu: „Slakt. Engar sendingar virka. Leiðindi.“ Mínútu síðar kom evreku-mómentið. ÁRMANN SMÁRI BJÖRNSSON! Auðvitað var það nafnið sem leitað var að! Geðheilsu Fréttaritarans var bjargað og loksins var hægt að byrja að einbeita sér að leiknum.
Opinberunin hefði varla getað verið betur tímasett því tveimur mínútum síðar lék Már eftir endamörkum ÍBV-marksins, sendi fyrir en Eyjamaður komst fyrir boltann sem virtist á leiðinni útaf. Þá kom samherji hans aðvífandi og virtist ætla að afstýra hornspyrnunni með því að senda beint inn í eigin markteig, beint á Frey sem þakkaði kærlega fyrir gott boð og skoraði, 1:0.
Fram að markinu hafði leikurinn verið nánast fullkomlega tíðindalaus og ládeyðan hélt áfram eftir markið. Framliðið lullaði í öðrum gír en þá sjaldan okkar menn gerðu tilraunir til að sækja hratt skapaðist hætta við mark gestanna. Á 28. mínútu kom seinna mark leiksins. Eftir frábæran undirbúning Freys tók Vuk á skeið og splundraði Eyjavörninni. Hann sendi fyrir markið en aðvífandi Eyjamaður renndi sér fyrir boltann og sendi beint fyrir markið þar sem Byström tók á móti honum og skoraði í annarri tilraun, 2:0. Í raun mætti færa rök fyrir að Eyjamenn hafi átt báðar stoðsendingarnar!
Markapelinn fór á flug og veitti ekki af. Bar8-an hafði fært sig til í húsinu og var nú starfrækt í veislusalnum í samræmi við lög og reglugerðir. Templarar kætast. Þau sjónarmið heyrðust í stúkunni að nú væri vel til fundið að drepa leikinn með þriðja markinu. Fréttaritarinn sló þó allt slíkt útaf borðinu – miklu betra væri að steindrepa leikinn, halda hreinu og innbyrða 2:0 sigur – helst án þess að nokkuð bæri til tíðinda næsta klukkutímann. Í ljós kom að Fréttaritarinn hitti nákvæmlega á óskastundina í þessu efni.
Á 37. mínútu mátti raunar litlu muna að óskir Fréttaritarans yrðu virtar að vettugi þegar Mási átti gullsendingu inn á Frey sem komst einn á móti markverði ÍBV en í stað þess að freista þess að vippa yfir hann reyndi Hornfirðingurinn að senda út á Jakob (sem er ekki enn búinn að fá afgreiðslu á ríkisfangsumsókn sinni – vanhæf Útlendingastofnun!) og sóknin fjaraði út. Það litla sem eftir leið af hálfleiknum átti ÍBV fáein hálffæri en ekkert sem gaf tilefni til að punkta eitt eða neitt niður.
Fréttaritarinn, Skjaldsveinninn og Þorra-foreldrarnir tóku strikið í Bar-8unna. Þar var fámennt og í raun fáir aðrir en klíkan í kringum Úlfana, enda hafði farist fyrir hjá vallarþul að upplýsa um þessa nýju staðsetningu.
Seinni hálfleikurinn byrjaði og var ótrúlega daufur. Fyrstu tíu mínúturnar gerðist nákvæmlega ekkert þar til að Kennie tók á sprett, hljóp framhjá hálfu Eyjaliðin uns hann lét vaða en beint á markvörðinn. Langbesta færi leiksins leit svo dagsins ljós eftir klukkutíma leik þegar Viktor sparkaði langt fram, boltinn barst á Vuk sem var skyndilega kominn einn á móti markverði, en skot hans var vel varið. Skömmu síðar kom Mingi inná fyrir Byström. Fimm mínútum síðar fór Freyr af velli eftir frábæra frammistöðu en Tryggvi tók stöðu hans – gleðileg innkoma eftir langvinn meiðsli.
ÍBV fékk frían skalla þegar kortér lifði af leiknum en hann fór vel framhjá. Líklega hefðu gestirnir getað spilað til miðnættis án þess að skora, svo vonleysisleg var spilamennskan. Beint í kjölfarið skapaðist dauðafæri í Eyjateignum eftir góðan undirbúning Israel og Vuk. Skot frá Minga var slegið í slá og í kjölfarið varð mikill darraðardans í teignum. Á 82. mínútu voru Framarar rændir augljósri vítaspyrnu þar sem Vuk var felldur eftir góða sendingu frá Tryggva. Þess í stað skeiðuðu Eyjamenn fram, fengu hæpna aukaspyrnu þar sem Sigurjón var talinn brotlegur. Í kjölfarið endaði boltinn innan við marklínu Frammarksins en dómarinn flautaði réttilega hendi á ÍBV.
Þriðja og síðasta skiptingin kom á 84. mínútu þegar Ólíver Elís kom inná fyrir Vuk. Hann kom sér í dauðafæri nokkrum mínútum síðar en markvörður ÍBV bjargaði á síðustu stundu – að því er virtisti með því að verja með höndum utan vítateigs og mátti því teljast stálheppinn að hanga inni á vellinum.
Eftir fjögurra mínútna uppbótartíma var flautað til leiksloka. Vallarþulur tilkynnti að Þorri hefði verið valinn maður leiksins, sem er niðurstaða sem alveg má rökstyðja þótt Fréttaritarinn hefði frekar valið einhvern vinnuþjarkinn á miðjunni: Frey eða Fred. Þrjú góð stig í sarpinn og Fram er aftur komið í efri hlutann. Nú mun Fréttaritarinn bregða sér til útlandsins næstu tvær vikurnar og missa af deildarleiknum gegn ÍA og bikarleiknum á móti Vestra. Öruggir tveir sigrar!
Stefán Pálsson