FRAM vann í dag afar öruggan og sannfærandi útisigur á ÍBV, 28-18, í öðrum leik liðanna í undnúrslitum N1-delidar kvenna í handknattleik. Grunnurinn að sigrinum var lagður með nánast aðfinnslulausri frammistöðu í fyrri hálfleik og bilfarmi af skynsemi og útsjónarsemi.
Líklega hafa flestir reiknað með jöfnum og spennandi leik, bæði í ljósi eins marks sigurs FRAM í fyrsta leiknum í Safamýri og þeirrar staðreyndar að Eyjaliðið hefur þótt erfitt heim að sækja. FRAM skoraði tvö fyrstu mörkin í harla lágstemmdri stemmningu í dag, ÍBV jafnaði metin jafnharðan og enginn var hissa. Þar með skildu leiðir formlega, FRAM sallaði inn mörkum í öllum regnbogans litum og spilaði fantagóða vörn og það skemmdi reyndar ekki fyrir að Florentina Stanciu, hinn magnaði markvörður ÍBV, hefur stigið þverögu megin framúr í morgun. Hún var varla svipur hjá sjón, réði ekkert við áræði og óttaleysi FRAMstúlkna. Munurinn jókst jafnt og þétt og þegar flautað var til leikhlés munaði átta mörkum, 15-7.
Reikna mátti með baráttugleði og barningi Eyjastúilkna í síðari hálfleik, en eftir þriggja mínútna leik var forysta FRAM orðin tíu mörk og ljóst hvert stefndi. Hvergi var veikan blett á FRAMliðinu að finna, hvert varnarafbrigðið á fætur öðru var leyst af fumleysi og yfirburðirnir furðulega miklir. Varnarleikurinn var og til háborinnar fyrirmyndar, afbrigðið þar sem Sigurbjörg lék fyrir framan varnarlínuna var sérlega árangursríkt og tennurnar voru einfaldlega dregnar úr heimaliðinu, ein af annarri. Allar áhyggjur af áhlaupi heimaliðsins voru foknar út á ballarhaf um miðjan síðari hálfleikinn og spurningin aðeins sú hversu stór sigurinn yrði. Það má ekki líta framhjá þeirri staðreynd að FRAMstúlkur slógu hvergi slöku við, héldu sínu og vel það og lönduðu að lokum afar sannfærandi tíu marka sigri. Liðsheildin skilaði sínu og það væri glapræði að ætla að fara að kvarta undan einhverju.
Staðan í einvíginu er nú orðin 2-0 fyrir FRAM og einn sigur til viðbótar fleytir liðinu í lokaúrslitin sjálf. Þriðji leikurinn gegn ÍBV fer fram í Safamýri á miðvikudagskvöldið kemur…og þangað er vissara að mæta.