Þorvaldur Örlygsson þjálfari úrvalsdeildarliðs Fram í knattspyrnu hefur farið fram á það við stjórn knattspyrnudeildar að vera leystur frá störfum. Stjórnin hefur orðið við ósk Þorvaldar og hefur samkomulag um starfslok hans þegar verið undirritað.
Þorvaldur Örlygsson tók við þjálfun Fram haustið 2007. Á fyrsta tímabili sínum með liðið skilaði hann því í 3. sæti og í evrópukeppni og árið eftir í bikarúrslit. Þorvaldur hefur unnið gott starf fyrir Fram undanfarin fimm og hálft ár og fyrir það er félagið þakklátt.
Fram þakkar Þorvaldi ánægjulegt samstarf og óskar honum og fjölskyldu hans velfarnaðar. Þorvaldur Örlygsson þakkar samstarfsfólki sínu hjá félaginu og öðrum Frömurum fyrir undangengin ár og óskar Fram góðs gengis í framtíðinni.
Ráðning eftirmanns Þorvaldar verður kynnt á næstu dögum.