Meistaraflokkur kvenna tók á móti liði FH í leik í gærkvöldi í OLÍS deildinni. Þetta var fyrsti leikurinn í seinni hluta Íslandsmótsins í vetur. Fyrir leikinn var FRAM í 4. sæti deildarinnar með 16 stig en FH ekki langt á eftir í 7. sæti deildarinnar með 9 stig. Leikur liðanna í fyrri umferð var lengst af jafn og spennandi og mátti því fyrirfram búast við öðrum slíkum leik.
FRAM byrjaði af krafti í leiknum og náði strax 2 – 3 marka forystu. Þegar líða tók á hálfleikinn jókst forysta FRAM og var staðan 16 – 9 í hálfleik. Ef menn höfðu áhyggjur af því að FRAM liðið kæmi ekki tilbúið í seinni hálfleikinn þá voru þær áhyggjur óþarfar því að FRAM hélt áfram að auka muninn og um miðjan hálfleikinn var staðan orðin 27 – 13. Lokatölur urðu síðan 31 – 16. Öruggur sigur FRAM.
Það var virkilega ánægjulegt að sjá hvað leikmenn mættu vel einbeittir í þennan leik frá fyrstu til síðustu mínútu. Það voru allir tilbúnir í verkefnið sem var að leggja FH að velli. Varnarleikurinn var á löngum köflum til mikils sóma, með þær Elvu, Maríu og Karólínu á miðjunni ásamt fleirum. Sunneva varði jafnt og þétt í markinu allan leikinn. Sóknin var einnig oft upp á það besta og komu mörk úr öllum stöðum á vellinum, skyttum, miðju, línu og hornum.
Í heild stórgóður leikur og um leið sendir FRAM öðrum liðum í deildinni skýr skilaboð um að FRAM verður í toppbaráttunni í vetur.
Mörk FRAM skoruðu: Marthe 7, Ragnheiður 6, Hekla Rún 5, Sigurbjörg 4, María 3, Hafdís 2, Karólína 2, Hildur Marín 1 og Jóhanna 1.
Sunneva stóð í markinu allan leikinn og varð 18 skot.
Lið FRAM: Sunneva Einarsdóttir, Hildur Gunnarsdóttir, Hildur Marín Andrésdóttir, Hafdís Shizuka Iura, Karólína Torfadóttir, Hekla Rún Ámundadóttir, Marthe Sördal, Ragnheiður Júlíusdóttir, Íris Kristín Smith, Sigurbjörg Jóhannsdóttir, María Karlsdóttir, Elva Þóra Arnardóttir, Kristín Helgadóttir og Jóhanna Björk Viktorsdóttir.
gþj