Strákarnir okkar í handboltanum fengu í kvöld Akureyri í heimsókn í Olísdeild karla. Það hefði mátt vera betur mætt á þennan leik en fín stemming í húsinu. Það var ljóst að þessi leikur yrði erfiður en lið Akureyrar er vel mannað og margir leikmenn líkamlega sterkir. Við töpuðum fyrir Akureyri í fyrstu umferðinni og því mikilvægt að jafna metin í kvöld.
Leikurinn byrjaði fjörlega, leikurinn mjög hraður, bæði lið keyrðu hraða miðju en við ekki að finna okkur varnarlega til að byrja með. Staðan 5-6 eftir 10 mín. og bullandi stuð í Safamýrinni. Við héldum áfram að keyra hratt á Akureyrarliðið, vörnin batnaði smátt og smátt en hefðum mátt nýta færin betur. Staðan eftir 20 mín 11-9, við að ná betri tökum á leiknum. Það sem eftir lifði hálfleiksins var leikurinn barátta út um allan völl, hefðum mátt nýta færin okkar betur en við heldur með fumkvæðið. Staðan í hálfleik 15-13. Ekki oft sem við FRAMarar fáum á okkur 13 mörk í fyrri hálfleik, það var eitthvað sem við þurftum að laga í þeim síðari. Að sama skapi ekki oft sem við gerum 15 mörk í fyrri hálfleik. Fyrri hálfleikur gríðarlega hraður og fjörugur sem gaf góð fyrirheit fyrir þann síðari, 9 leikmenn sem skoruðu fyrir FRAM í fyrri hálfleik sem er gott.
Síðari hálfleikur byrjaði ekki síður fjöruglega, við mættum gríðarlega vel stemmdir til leiks og bitum vel frá okkur. Náðum að setja nokkur mörk strax í upphafi, lokuðum vörninn vel og náðum 5 marka forrustu eftir 38 mín. vel gert. Staðan eftir 40 mín. 20-15. Við náðum að halda okkar skipulagi að mestu næstu mínútur en náðum ekki að nýta okkar sóknir nægjanlega vel, fengum færi en nýttum þau ekki vel, smá vesen á okkur. Staðan eftir 50 mín. 23-20. Við þurftum því að sýna okkar bestu hliðar það sem eftir lifði leiks, spila agað sóknarlega og vörnin að vinna vel. Það gekk alveg þokkalega við samt í smá vandræðum sóknarlega og komum okkur mikla spennustöðu þegar ein mínúta var eftir. Við töpuðum svo boltanum þegar c.a 25 sek, voru eftir í stöðunni 26-25. Það dugði Akureyri til að skora og jafna leikinn, lokatölur 26-26. Ferlegt að tapa stigi, hundfullt og við getum nagað okkur í handarbökin að hafa ekki verið búinir að klára þennan leik. Við nýttum færin okkar ekki nógu vel, varnarleikurinn gloppóttur og Kristó sömuleiðis. Hreiðar Leví var að verja vel og hann var þröskuldurinn í kvöld sem við náðum ekki að fara yfir. Annars vorum við góðir á löngum köflum, margir að skora en ekki allir að eiga sinn besta dag eins og gengur. Það þýðir lítið að dvelja við þennan leik, áttum að klára þetta en náðum því bara ekki. Næsti leikur er eftir viku gegn Gróttu á nesinu, þurfum að fjölmenna á þann leik.
Fullt af myndum á http://frammyndir.123.is/ endilega kíkið á myndir.
ÁFRAM FRAM