Sveinn Halldór Ragnarsson F: 25. júní 1927. D: 5. febrúar 2016.
* Útför Sveins Halldórs fer fram frá Háteigskirkju í dag, föstudag 12. febrúar 2016, kl. 13.
Kveðja frá Knattspyrnufélaginu Fram
Við fráfall Sveins Halldórs Ragnarssonar, heiðursfélaga Knattspyrnufélagsins Fram, sjá Framarar á eftir afar öflugum og litríkum félagsmanni sem setti sterkan svip á félagslíf Fram. Sveinn, sem var gerður heiðursfélagi Fram á 90 ára afmælisárinu 1998, lagði til ófá handtökin til að efla félagið. Það er erfitt að rekja sögu Fram án þess að minnast Sveins – svo afgerandi spor markaði hann í sögu félagsins sem leikmaður, þjálfari, leiðtogi og fyrst og fremst sem ljúfur félagsmaður, sem unni félagi sínu heitt. Sterk einkenni hans í öllum hlutverkum voru nákvæmni, fórnfýsi, dugnaður, kraftur og ódrepandi baráttuvilji. Sveinn, sem bjó ávallt rétt við félagssvæði Fram í Skipholti og síðar í Safamýrinni, hélt mörgu til haga sem hefur komið Fram afar vel við að varðveita sögu sína. Ég leitaði oft til Sveins, frænda míns, eftir upplýsingum og kom aldrei að tómum kofanum hjá honum – fékk ávallt nákvæm og vönduð svör. Hann sendi ekkert frá sér nema að það stæðist og væri rétt. Sveinn var vandvirkur í öllum störfum sínum.
Sveinn var fæddur og uppalinn Framari – svo mikill Framari að sagt var að blátt blóð hafi runnið um æðar hans. Hann erfði Framgenið frá föður sínum, Ragnari Lárussyni, sem var formaður Fram 1939-1942, síðar heiðursfélagi Fram, og átti sæti í stjórn Knattspyrnusambands Íslands í 21 ár. Þess má til gamans geta að Sveinn var í stjórn KSÍ í eitt ár með föður sínum og eru þeir einu feðgarnir sem hafa verði saman í stjórn sambandsins.
Eins og margir öflugir Framarar ólst Sveinn upp á Grettisgötunni og var hann virkur liðsmaður í Fram frá barnæsku – keppti bæði í knattspyrnu og handknattleik.
Sveinn var liðsmaður í sterku handknattleiksliði Fram sem tryggði félaginu fyrsta Íslandsmeistaratitilinn 1950. Honum þótti alltaf vænt um þann árangur. Sveinn var valinn í fyrsta landsliðshóp Íslands í handknattleik fyrir ferð til Svíþjóðar og Danmerkur 1950. Hann dró sig út úr hópnum og gaf ekki kost á sér þar sem hann þurfti að nota gleraugu dags daglega. Sveinn taldi að hann gæti ekki leikið af fullum krafti fyrir hönd Íslands það sem sjón var ekki nægilega góð, án gleraugna. Gaf sæti sitt eftir – taldi að rétt væri að nýta sjónsterkari leikmenn. Þarna er Sveini rétt lýst – hann vildi að vandað væri til verka og þeir sem væru betur fallnir til verka en aðrir – hverju sinni, færu í verkin.
Sveinn, sem gengdi margvíslegum trúnaðarstörfum fyrir Fram, sinnti félagsmálum mikið og sat í aðalstjórn Fram í 15 ára og einnig í stjórnum knattspyrnu- og handknattleiksdeilda félagsins. Þá sat hann í stjórn Handknattleikssambands Íslands, HSÍ, í sjö ár og KSÍ í eitt ár, en auk þess átti hann sæti í dómstólum og fjölda nefnda. Hann var þingforseti á ársþingum HSÍ í nokkur ár og átti sæti um tíma í stjórn Afreksmannasjóðs Íþróttasambands Íslands, ÍSÍ.
Sveinn var fararstjóri hjá Fram og HSÍ í fjölmörgum utanlandsferðum karla og kvenna og voru tvær ferðir honum eftirminnilegar – 19 daga ferð Framliðsins í knattspyrnu til Sovétríkjanna 1961 og ferð Framliðsins í handknattleik til Danmerkur 1962, þar sem Fram lék fyrsta Evrópuleik Íslands – gegn Skovbakken. Sveinn á heiðurinn að því að það eru til ýmis skemmtileg gögn frá þessum sögufræga leik upp á vegg í félagsheimili Fram við Safamýri. Til dæmis auglýsingaplakat frá leiknum, sem lauk með sigri Skovbakken eftir framlengingu í Árósum, 28:27.
Sveinn var í fjölmörg ár (1948-1965) þjálfari kvennaliða í handknattleik og yngri flokka kvenna og karla hjá Fram, með góðum árangri. Sveinn var ekki alltaf með bestu einstaklingana í liðum sínum, en hann lagði upp taktík sem gekk upp – liðsheildin og leikkerfi réði þá úrslitum. Hann kom einnig að þjálfun yngri flokka í knattspyrnu. Þá var Sveinn liðsstjóri karlaliðs Fram í handknattleik sem varð fimm sinnum Íslandsmeistari á „Gullárunum“ 1962-1968.
Sveinn var sæmdur gullmerki Fram, gullmerki HKRR, gullmerki HSÍ, gullmerki ÍSÍ, gullstjörnu ÍBR og Framkrossinum úr gulli, sem heiðursfélagar bera.
Sveinn var hættur að fara á völlinn síðustu ár, en fylgdist vel með keppninsliðum Fram í handknattleik og knattspyrnu. Hann var ánægður með þá stefnu handknattleiksdeildarinnar að byggja lið Fram upp á ungum og uppöldnum leikmönnum. Það var samkvæmt hugsun hans alla tíð – að byggja upp á uppöldum leikmönnum og hlúa að þeim. Sveinn hafði mikla trú á nýja félagssvæði Fram í Úlfarársdalnum – sérstaklega á unglinga- og uppbyggingarstarfi þar.
Sveinn er einn af þeim félagsmönnum sem tóku ekki krónu fyrir það sem þeir gerðu og voru alltaf tilbúnir til átaka þegar til hans var leitað – til að halda merki félagsins hátt á lofti. Við látum ummæli Karls G. Benediktssonar, fyrrverandi landsliðsmanns og þjálfara, sem lýsa frábæru starfi Sveins á „Gullárum“ karlaliðs Fram og honum best, vera lokaorð kveðjugreinarinnar – Karl sagði í 100 ára afmælisblaði Fram: „Sveinn var liðsstjóri liðsins og vann ómetanlegt starf við að halda allri umgjörð í kringum liðið þannig að öllum leið vel. Sveinn þekkti manna best hvernig átti að taka á öllum málum. Hann þekkti leikmennina afar vel, enda hafði hann þjálfað þá í yngri flokkum.“
Framarar kveðja og minnast Sveins með þakklæti fyrir mikil störf í þágu félagsins. Syni hans Sveini Andra, eiginkonu Þórunni Grétarsdóttur og börnum þeirra eru sendar hugheilar samúðarkveðjur.
Sigmundur Ó. Steinarsson