fbpx
FRAM - Valur DB vefur

Jafnt gegn Huginn í Lengjubikar karla

Valur - FRAM DbÍ dag lékum við í Lengjubikarnum gegn Huginn frá Seyðisfirði, en þeir verða einmitt í baráttunni með okkur í 1.deildinni í sumar.  Það var því gott tækifæri fyrir okkur að sjá hvar við stæðum gangvart liði  sem við eigum eftir að glíma við í sumar. Jafnvel þótt um sé að ræða æfingamót í og það í byrjun mars mánaðar.
Við stilltum upp sama kerfi og á móti Val, með þrjá menn aftast í kerfinu 3-5-2 ( annars sagði Jói Atla alltaf í gamla daga að menn spiluðu ekki í einhverjum  kerfum).  En hugsanlega skynsamlegt á móti liði sem við þykjumst vera betri í fótbolta. Huginn var aðeins með 15 menn á skýrslu en þeir hafa fengið til sín erlenda leikmenn, oft á tíðum rétt  fyrir mót. Ég bjóst við og það var krafa  um Fram sigur i dag.
Helgi Guðjónsson ungur og efnilegur strákur sem er uppalinn Framari lék í fremstu víglínu sem nía og þá var einnig gaman að sjá Rúrik kominn á stjá á ný eftir erfið meiðsli og hann byrjaði í dag.  Hópurinn okkar stór og því mikil samkeppni sem er auðvitað af hinu góða.  Orri er enn að glíma við meiðsli og einnig var Hlynur Atli fjarverandi.
En þá að leiknum.
Fyrri hálfleikur var mjög slakur af okkar hálfu, við héldum boltanum ákaflega illa innan liðsins, sendingar slakar og  menn virtust stressaðir þegar þeir fengu boltann. Það gerðist nákvæmlega ekkert í leiknum fyrstu 20 mín.  Eftir það fáum við tvö þokkaleg færi, fyrst nær Helgi að setja hann af stuttu færi eftir góða sendingu frá Ingólfi, en réttilega dæmdur rangstæður. Á 30 mín. á Ingiberg svo góða tilraun af markteig en skóflar honum rétt yfir.  Ingberg lék þennan fyrri hálfleik sem varnar-tengilður ef ég var að skilja systemið rétt og var frískur meðan hans naut vit. Barðist vel og tímasetti hlaupin vel inn í teig. Eyþór átti svo gott skot undir lokin en varið.  Í uppbótartíma fyrri hálfleiks er svo leikmaður Hugans rekinn af velli eftir sitt annað gula spjald.
Þrátt fyrir að vera manni fleiri í 45 mín. fundum við fáar leiðir til að opna vörn Seyðfirðinga. Vorum hugmyndasnauðir og náðum ekki að teygja á þeim eða koma út úr stöðum.  Eitthvað sem við verðum að skoða betur og ég veit að Ási og Óskar munu gera það.  Náðum þó fínni sókn eftir 10 mín. í seinni hálfleik þar sem Alexander á flottan skalla fyrir Ingólf sem klárar vel af stuttu færi og við komnir yfir 1-0.  Í stað þess að þetta blási í okkur einhverju lífi eins og maður skyldi halda þá slökum við á og vorum við þó alveg rólegir fyrir.  Við fengum 2-3 hálffæri eins og Bjarni Fel myndi orða það en komum okkur aldrei í alvöru færi. Þó áttu Ingó og Eyþór fínar tilraunir og Alexander átti ágætt skot sem fór rétt framhjá.
Þegar menn nálgast verkefnið eins og þennan leik með hálfum huga þá er ekki von á góðu. Huginn sem gerði lítið í leiknum annað en að verjast mjög aftarlega á vellinum og voru nokkuð skipulagðir,  uppskáru um miðjan hálfleikinn þegar þeir fengu víti eftir klafs í teignum. Þeir skoruð svo örugglega úr vítaspyrnunni. Atli Fannar átti svo  tvö fín færi undir lokin og átti að gera betur. Niðurstaðan  jafntefli 1-1. Mikil vonbrigði.
Liðið lék  einfaldlega mjög illa. Við vorum einum leikmanni fleiri í 45 mín. á móti liði sem hefur gengið afleitlega á þessu vori.  Við  gerum einfaldlega meiri kröfur til liðsins en þetta og menn verða bara að taka því. Þetta var slakt og  getur bara  farið upp á við. Vissulega er verið að prufa ýmislegt og margir leikmenn fá tækifærið en þá er að grípa það og fara inn á völlinn eins og menn séu að berjast fyrir lífi sínu…og fyrir félagið. Það var ekki í dag og langt frá því.
Það jákvæða er að í dag er  5. mars og enn nokkuð í mót.

Liðið: Sigurður Hrannar-Sigurpáll-Mate-Eyþór-Helgi-Ingólfur-Indriði-Ingiberg-Kristófer-Brynjar K- Rúrik.
Komu inn á: Arnór Daði(45) Sigurður Þráinn(80)Einar Bjarni(45)Brynjar B(75) Alexander(45)Atli F(65)

Næst er það Keflavík sem er spáð toppsætinu í 1.deild á komandi leiktíð og þá verða menn að gera betur. Sjáumst þá.

Fréttaritari FRAM

G.Hoddle

Share this post

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
Share on pinterest
Share on email