fbpx
FRAM Fylkir II vefur

FÞBAVD

Vittorio Puzzo var þjálfari ítalska landsliðsins sem varð heimsmeistari árin 1934 og 1938. Undir hans stjórn urðu Ítalir kunnir fyrir agaðan varnarleik. Sumir myndu jafnvel segja alræmdir.

Eftir Puzzo eru höfð þau orð að hinn fullkomni knattspyrnuleikur sé markalaust jafntefli: hvorugt liðið gerði mistök! Samkvæmt þeirri skilgreiningu var viðureign Fram og Selfoss í kvöld fullkomin. Fæstir aðrir mælikvarðar gefa okkur þó þá niðurstöðu.

Liðsuppstillingin var strangheiðarleg 4-4-2. Sem fyrr hélt þjálfarinn áfram að hræra í markmannsstöðunni og var Hlynur Örn kominn milli stanganna í stað Atla sem lék á móti Gróttu. Högni og Dino voru miðvarðarparið en Unnar Steinn og Benedikt Októ í bakvörðunum. Sigurpáll og Hlynur Atli voru á miðjunni með Helga og Axel Frey á köntunum. Frammi voru svo Guðmundur og Bubalo að vanda. Forvitnir lesendur kunna að spyrja sig hvers vegna Bubalo sé ávalt titlaður með eftirnafni en Dino með fornafni. Við því er ekkert rökrétt svar.

Eftir innan við tvær mínútur fengu Framarar fyrsta færið, þegar ágætur skalli Guðmundar eftir fyrirgjöf frá Helga var varinn. Lífleg byrjunin gaf þó litla vísbendingu um það sem koma skyldi. Leikurinn var hægur og einkenndist af kýlingum og löngum sendingum sem einkenndust frekar af bjartsýni en nákvæmni. Einkum af okkar hálfu.

Selfyssingar voru mun nær því að ná upp spili, en sköpuðu sér harla lítið. Framarar á hinn bóginn náðu afar sjaldan mörgum sendingum í röð á samherja en áttu allt eins mörg hálffæri. Einna best var bylmingsskot frá Sigurpáli á markamínútunni. (Talar einhver undir fertugu um 43. mínútu sem markamínútuna lengur?)

Eftir vægast sagt bragðdaufan fyrri hálfleik héldur Framherjar í kaffið undir stúkunni og gæddu sér á Prince-kexi frá LU. Fáir vita að LU stendur fyrir Lefèvre Utile og er framleitt í borginni Nantes, þar sem Kolbeinn Sigþórsson leikur ekki knattspyrnu. Þau heppnu fengu líka kleinur.

Eftir hlé dofnaði enn frekar yfir leiknum, amk af hálfu Framara. Selfyssingar virtust eiga í miklu minni vandræðum með allt spil og á 64. mínútu mátti engu muna að þeir næðu forystunni, þegar Hlynur Örn varði mjög vel fast skot eins Sunnlendingsins í gegnum þvöguna. Nær komust gestirnir þó aldrei að skora.

Um þessar mundir ekur fagurlega skreyttur strætisvagn um götur höfuðborgarinnar með áletruninni: KÞBAVD. Það er skammstöfun fyrir „konur þurfa bara að vera duglegri“, sem er beinskeytt feminísk gagnrýni sem hvorki er tími né pláss til að rekja hér.

„Framarar þurfa bara að vera duglegri“ er hins vegar slagorð sem telja má ekki síður viðeigandi. Framarar þurfa að mæta ákveðnari til leiks, leika knettinum hraðar og fram á við í stað endalausra sendinga til baka. Framarar þurfa bara að vera duglegri að bera boltann sjálfir upp völlinn í stað þess að láta Hlyn Örn kýla útað hliðarlínu, sem einatt endaði með innkasti gestanna. Framarar þurfa bara að vera duglegri að halda vöku sinni í stað þess að falla trekk í trekk í rangstöðugildru andstæðinganna. Og það var grátlegt að sjá það gerast ítrekað að leikmenn sem vissu mætavel að þeir væru rangstæðir, héldu áfram að elta bolta sem réttstæðir samherjar þeirra hefðu getað náð. Og Framarar þurfa bara að vera duglegri að koma knettinum í það minnsta yfir fyrsta varnarmann í aukaspyrnum og hornum.

Það er erfitt að kvarta yfir vörninni þegar liðið heldur hreinu og Högni átti til að mynda ágætan dag. Eini leikmaður okkar sem verðskuldar sérstakt hrós fyrir frammistöðuna var þó Benedikt Októ sem var með mun meira lífsmarki en flestir aðrir á vellinum. Hann var líka sá eini sem virtist hafa einhvern möguleika á hraðabreytingum, sem vekur upp þá spurningu hvort betra hefði verið að nota hann á kantinum en í bakvarðarstöðunni?

Alex Freyr kom inná fyrir Axel Frey um miðjan seinni hálfleik og tíu mínútum síðar kom Orri inná fyrir Helga. Þriðja og síðasta skiptingin var tíu mínútum fyrir leikslok þegar Ívar Reynir tók stöðu Unnars.

Hvimleitt var að sjá dómara leiksins sleppa því að gefa einum Selfyssingnum sitt seinna gula spjald fyrir að stöðva augljóslega skyndisókn undir lok leiksins, en líklega hefði það engu breytt varðandi úrslitin. Framarar komust aldrei úr öðrum gír og því litlu skipt hvort mótherjarnir hefðu verið tíu eða ellefu.

Markalaus jafntefli í rigningarúða á örlítið svölu fimmtudagskvöldi mun seint teljast uppskrift að mikilli gleði og kátínu. En við Framarar kætumst samt, því fyrir liggur að undirrita samning um uppbyggingu glæsilegrar íþróttaaðstöðu á nýja staðnum. Því fagna allir góðir menn.

Annan laugardag halda Framarar svo til Keflavíkur… allir nema fréttaritari Framsíðunnar. Hann ætlar til Lyon í Frakklandi að gúffa í sig dýrindisrauðvíni, ostum og spörfuglum. Keflavík hefur einmitt oft verið kölluð Lyon norðursins.
Skilið kveðju til brennsluofnsins.

Stefán Pálsson

 

 

 

 

Share this post

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
Share on pinterest
Share on email
Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0

Skráðu þig á póstlistann!

Fáðu allar fréttir, tilboð og aðrar upplýsingar beint í æð!