Stelpurnar okkar í handboltanum léku í kvöld sinn fyrsta leik á Íslandsmótinu í handbolta, Olísdeildinni. Liðið er eins flestir ættu að vita ríkjandi meistarar í þeirri deild og því var fróðlegt að sjá hvernig liðið mætti til leiks þetta árið.
Það var ágætlega mætt í Safamýrina í kvöld, þó vantaði eitthvað af okkar tryggu stuðningsmönnum en við vonum að þeir láti sjá sig fljótlega.
Leikurinn var nokkuð fjörugur en ekki vel leikinn í fyrri hálfleik, liðin að gera mikið af mistökum, markverðirnir að verja ágætlega í báðum liðum en það vantaði heilmikið upp á okkar varnarleik. Við vorum yfir 9-7 eftir 15 mín. en annars var leikurinn jafn allan hálfleikinn. Staðan í hálfleik 13-12.
Síðari hálfleikur byrjaði afskaplega illa, við lékum illa í bæði vörn og sókn. Sóknarleikur ótrúlega fálkenndur og taktlaus, mikið af tæknifeilum og varnarleikurinn í molum. Staðan eftir 15 mín. 17-22.
Þá vöknuðum við og náðum áttum, skoruðum nokkur góð mörk ásamt því að standa vörnina vel. Náðum að jafna leikinn á 55 mín. 23-23.
Síðustu mínútur leiksins voru virkilega spennandi, við klaufar að ná ekki að fylgja eftir ágætu skriði sem við vorum komnar á, það vantaði yfirvegun og kjænsku til að klára þennan leik. Við vorum svo stálheppnar að tapa ekki leiknum því Grótta fékk víti þegar 3 sek. voru eftir en Guðrún varði og tryggði okkur stig úr þessum leik. Takk Guðrún Ósk.
Ljóst að við þurfum að gera betur en þetta í vetur, við vorum mjög værukærar og mér fannst eins og við ætluðum að spila þennan leik með vinstri. Það er vísir á vandræði og mun ekki skila mörgum stigum.
Guðrún Ósk var góð en allir okkar leikmenn geta gert betur.
Næsti leikur er á mánudag gegn Stjörnunni á útivelli, sjáumst þá.
ÁFRAM FRAM