fbpx
gummi magg vefur

Guðmundur og Helgi verðlaunaðir á uppskeruhátíð meistaraflokks karla

Fyrir skömmu fór fram uppskeruhátið meistaraflokks karla í knattspyrnu fyrir árið 2017 hjá Knattspyrnufélaginu Fram. Besti og efnilegasti leikmaður tímabilsins voru valdir.

Efnilegasti leikmaðurinn 2017: Helgi Guðjónsson
Borgfirðingurinn knái Helgi Guðjónsson var valinn efnilegasti leikmaður Fram tímabilið 2017. Helgi sem fæddur er árið 1999 var að leika sitt annað tímabil með meistaraflokki Fram og kom hann við sögu í 21 deildar- og bikarleik á tímabilinu og skoraði 2 mörk. Helgi átti sæti í æfingahópi U19 ára landsliðs Íslands á árinu. Hann hefur leikið 12 leiki fyrir yngri landslið Íslands og skorað í þeim 7 mörk. Fram væntir mikils af Helga í framtíðinni og það verður gaman að fylgjast með þessum mikla markaskorara á næstu árum.

Besti leikmaðurinn 2017: Guðmundur Magnússon
Guðmund Magnússon þarf vart að kynna. Hann er uppalinn Framari og lék með öllum yngri flokkum félagsins og lék sína fyrstu leiki fyrir meistaraflokk 16 ára gamall sumarið 2007. Guðmundur lék með Fram til ársins 2011 að hann gekk til liðs við Víking Ólafsvík en drengurinn á ættir að rekja á Snæfellsnesið. Eftir nokkur ár í burtu, fyrst með Víkingi en svo einnig HK og Keflavík gekk Guðmundur aftur til liðs við Fram haustið 2016. Guðmundur átti virkilega gott tímabil og lék 22 leiki í deild og bikar og skoraði 9 mörk. Hann er vel að nafnbótinni besti leikmaður Fram 2017 kominn.

Við óskum þessum leikmönnum hjartanlega til hamingju og væntum mikils af þeim á komandi tímabili.

Knattspyrnudeild Fram

Share this post

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
Share on pinterest
Share on email