Þjóðir heimsins hafa samþykkt að taka saman höndum í baráttunni gegn bráðahlýnun Jarðar. Til að berjast gegn loftslagsbreytingum setja stjórnvöld í einstökum löndum sér aðgerðaáætlun sem stefnir að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Í tilviki Íslands er einkum miðað við að flýta fyrir orkuskiptum í samgöngum, þróun nýrrar tækni í samvinnu við stóriðjufyrirtækin og síðast en ekki síst endurheimt votlendis.
Ætla verður að fáránlega stór hluti síðasnefnda markmiðsins hafi náðst á Fjölnisvellinum í gærkvöldi. Áratuga skurðgröftur íslenskra bænda á túnum sínum jafnaðist þar út á einu bretti – og það rétt áður en flautað var til leiks.
Það var blautt. Fáránlega blautt. Heimsborgarar í hópi áhorfenda mættu með risavaxnar regnhlífar. Fréttaritari Framsíðunnar er Íslendingur og veit að þegar rignir á Íslandi, þá blotnar maður. Þannig er það bara. Fyrir utan úrhellið var þokkalegt veður. Hlýtt og lygnt – alveg passlegt fyrir bláa Svals og Vals-bolinn og fráhnepptu úlpuna sem heldur að hún sé jakki.
Fréttaritarinn hefur verið á ferðalagi um jósku heiðarnar og misst af síðustu leikjum Framliðsins. Byrjunarliðið mun þó hafa verið svipað og upp á síðkastið, ef undan er skilið að Arnór Daði er farinn vestur um haf í skóla. Hlynur Örn byrjaði í markinu. Marcao og Gunnar voru miðverðir og Matthías og Unnar í bakvörðunum. Sigurður Þráinn aftastur á miðjunni með Hilmar og Tiago fyrir framan sig. Alex á kantinum og Fred og Helgi frammi.
Leikurinn byrjaði með látum – en mótaðist frá fyrstu mínútu mjög af vallaraðstæðum. Leikmenn áttu erfitt með að fóta sig, boltinn spýttist ýmist eftir vellinum eða staðnæmdist í pollum. Augljóst var að viðureignin yrði ekki markalaus.
Fyrsta kortérið hefði hæglega getað gefið af sér þrjú mörk, þar sem heimamenn fengu tvö dauðafæri og Framarar eitt, þar sem okkar gamli markvörður – Atli Gunnar frá Seyðisfirði – varði í tvígang frá Tiago í sömu sókninni áður en gulklæddur Grafarvogsbúi náði að bjarga á marklínu eftir skot frá Fred.
Upp úr miðjum fyrri hálfleiknum virtist Fjölnismaður handleika boltann inni í teig beint fyrir framan dómarann, sem dæmdi þó ekkert en spjaldaði Helga fyrir mótmæli.
Bæði lið gerðu sitt besta til að reyna að spila boltanum, þrátt fyrir að aðstæður verðlaunuðu menn ekki fyrir slíkar tilraunir. Heimamenn eru greinilega vanari að spila á hundblautum grasvöllum á meðan Framarar eru þessi dægrin meira að leika á gervigrasi og búa í borgarhluta þar sem sú kunnátta að drena leikvelli hefur verið kynnt til sögunnar. Fjölnismenn virtust því alltaf hættulegri og á 34. mínútu náðu þeir forystu eftir góðan sprett eins sóknarmanna þeirra sem skildi Marcao eftir útí mýri, 1:0.
Fátt bar til tíðinda það sem eftir lifði fyrri hálfleiks. Í hléi missti vallarþulur af dauðafæri til að spila Allt á floti allsstaðar með Skafta Ólafssyni eða bara eitthvað með Wet Wet Wet. Blastaði í staðinn gangsterarappi sem skelfdi miðaldra vallargesti en yfirgnæfði þó hamarshögginn frá nágrannanum sem kepptist við að smíða örk í garðinum.
Heimamenn komu sterkari til leiks í seinni hálfleik og eftir fimm mínútur var staðan orðin 2:0. Aftur skapaðist færið með því að Framvörnin missti fram hjá sér mann í bleytunni og í kjölfarið náðu Fjölnismenn að skora. Staðan orðin verulega erfið fyrir okkar menn.
Þegar 25 mínútur voru eftir kom Jökull inná fyrir Alex og rúmum tíu mínútum síðar Magnús fyrir Sigurð Þráinn. Fjölnismenn voru sáttir við forskotið, freistuðu þess að halda fengnum hlut og drógu sig stöðugt aftar á völlinn. Á 78. mínútu galopnaðist leikurinn þegar dæmd var hendi á einn Fjölnismanninn og Helgi minnkaði muninn úr vítaspyrnunni. Skömmu síðar mátti litlu muna að Helgi jafnaði metin, en nær komust okkar menn ekki. Undir lokin opnaðist vörnin enn og aftur og Fjölnismenn innsigluðu 3:1 sigur.
Ekki ósanngjörn úrslit þótt auðvitað hefði verið gaman að ná að stela einhverju í þessum leik. Þá er bara að einbeita sér að næsta leik gegn Keflvíkingum í Safamýri á sunnudag. Bongóblíðu og frábærum vallaraðstæðum lofað. Og það verður ekkert rapp.
Stefán Pálsson