fbpx
Gunnar vefur

GCD

Rúnar Júlíusson er mesti Keflvíkingur fyrr og síðar. Hann var ekki bara helsta poppstjarna bæjarfélagsins og knattspyrnuhetja, heldur maðurinn sem leitað var til þegar leggja þurfti hvers kyns þjóðþrifamálum lið. Til dæmis gaf hann út heila hljómplötu til stuðnings kröfunni um tvöföldun Reyjanesbrautar.

Sumarið 1991 stofnuðu þeir Rúnar og Bubbi Morthens saman hljómsveit. Rúni Júl hafði raunar ekki látið mikið fyrir sér fara í íslensku tónlistarlífi misserin á undan, en öllum fannst hann vera gamall eins og sólin. Hann var 46 ára.

Bandið fékk nafnið GCD. Stutt, hljómmikið og fól í raun í sér fullkomna stefnuyfirlýsingu: grunngripin þrjú sem nauðsynlegt er að kunna til að skapa gott rokk. Ekkert flókið. Enga stæla. Engar krúsídúllur.

Það er ekki erfitt að finna samlíkingar milli ferils Rúnars Júlíussonar og fótboltaleiks kvöldsins. Keflavík er GCD. Einfalt, hrátt og skilvirkt. Ekkert kjaftæði. Engir stælar.

Veðrið var frábært í Safamýrinni í kvöld og létt yfir áhorfendum. Framborgararnir (sáuði hvað ég gerði þarna?) í landsliðsklassa með fínsöxuðum rauðlauk, gúrkum, tómat og niðurtættu salati, sem er góð tilbreyting frá hinum klisjukenndu salatblöðum. Mæting ágæt en meðalaldur með hærra móti.

Ein breyting var gerð frá úrhellisleiknum í Grafarvogi. Haraldur kom inn í liðið og tók stöðu sína í bakverðinum en Unnar leysti Sigurð Þráinn af hólmi aftast á miðjunni. Annað var kunnuglegt með Hlyn í marki, Marcao og Gunnar í miðvörðum, Matthías í bakvarðastöðunni á móti Haraldi, Alex úti á kanti, Hilmar og Tiago á miðjunni ásamt Fred og Helgi fremstur.

Framarar voru seinir í gang og Keflvíkingar fengu tvö fyrstu færin, hvorugt þó hættulegt. Eftir um stundarfjórðung var skrekkurinn kominn úr okkar mönnum og þeir fóru að spila boltanum. Það tókst vel á löngum köflum, þar sem liðið náði um eða yfir tuttugu sendingum sín á milli án þess að Keflvíkingar næðu að vinna boltann. Spilið var stutt og lipurt, en hvorki hratt né árásargjarnt. Tiago hélt boltanum auðveldlega á miðjunni og snerist í hringi um andstæðinga og sjálfan sig og náði oftar en ekki að finna Fred sem lék svo sama leikinn. En í fæstum tilvikum megnaði þessi samleikur að skapa nein alvöru færi og fáein langskot af löngu færi voru skástu marktilraunirnar, ef frá er talið eitt gott færi þar sem Fred sópaði boltanum yfir markið eftir hornspyrnu og annað þar sem markvörður Keflvíkinga varði vel frá Marceo.

Keflvíkingar voru GCD en Framarar Trúbrot. Í stað þess að sækja hratt upp kantana, var í sífellu reynt að spila sig í gegnum miðjuna eða reyna að vippa boltanum yfir varnarmenn gestana og inn í teig af stuttu færi. Það vantaði einfaldlega kraftinn.

Á lokasekúndum fyrri hálfleiks dundi ógæfan á. Framarar misstu knöttinn á hættulegum stað á miðjunni og Keflvíkingar tóku á rás. Varnarmenn Fram bökkuðu og bökkuðu í stað þess að fara í mótherjann og misstu hann að lokum fram hjá sér. Hlynur varði bylmingsskot að marki, en Gunnólfur framherji Keflvíkinga skoraði úr frákastinu. Súr 0:1 forysta gestanna gerði lítið fyrir kleinu- og kaffiboðið í Tækvondósalnum í hléi.

Seinni hálfleikur hófst á sömu nótum. Framarar reyndu að spila sig alla leið inn í markið, en misstu boltann yfirleitt áður en í skotfæri var komið. Þá sjaldan að aukaspyrnur unnust á góðum stöðum var drifið sig í að spila stutt úr þeim, án þess að neitt kæmi út úr því, í stað þess að stilla upp og láta reyna á skot eða fyrirgjafir.

Fréttaritari Framsíðunnar var ekki fyrr búinn að hripa niður punkta um bitleysi sóknarleiksins eftir tæplega klukkutíma leik en Alex tók á sprett upp að endamörkum og náði hörkusendingu fyrir markið, þar sem þeir Helgi og Fred voru aðeins of seinir í snúningum. Mínútu síðar náði hins vegar Helgi að moða öllu betur úr sending frá Alex, stakk knettinum inn á Tiago sem kom brunandi inn í vítateiginn, sneri af sér mótherja og jafnaði glæsilega, 1:1.

Sannast sagna var jöfnunarmarkið ekkert sérstaklega í samræmi við gang leiksins, en við það lifnaði talsvert yfir okkar mönnum. Jökull kom inná fyrir Hilmar og skömmu síðar átti Fred hörkuskot að marki, en beint á Sindra markvörð. Marceo var svo nærri því að skora glæsimark með þrumuskoti lengst utan af velli sem stefndi í vinkilinn en vel varið.

Þriðja markið virtist liggja í loftinu og það varð að veruleika… bara röngu megin á vellinum. Á 68. mínútu leiddi sakleysislegt innkast Keflvíkinga til skallatennis í teignum þar sem Frömurum tókst ekki að koma boltanum frá. Skallað var í þverslá og þaðan skallað beint í netið, 1:2 og aftur á byrjunarreit!

Rétt eftir markið hefði góður dómari leiksins, Ívar Orri Kristjánsson, getað sýnt einum Keflvíkingnum rauða spjaldið eftir gróft brot á Alex, en hann ákvað að láta gula spjaldið nægja. Líklega rétt niðurstaða.

Það sem eftir lifði leiks var álíka frústrerandi og það sem á undan var gengið. Við spiluðum þokkalega saman en sköpuðum lítið. Reyndum að gera of flókna hluti, of fyrirsjáanlega og ekki nógu hratt. Ekkert GCD. Keflvíkingar gerðu sér að góðu að liggja til baka, sóttu sáralítið en náðu þó að skapa öngþveiti í Framvörninni í hvert einasta sinn sem þeir komust upp að endamörkum.

Alex og Matthías fótu af velli undir lokin fyrir Orra og Heiðar Geir, en öll þeirra samanlagða reynsla dugði þó ekki til að breyta leiknum. Keflavík hefur nú unnið báða leikina gegn Fram og fengið þar um þriðjung stiga sinna. Ég veit að Keflavík hefur mátt þola Árna Sigfússon og mengandi Kísiliðju, en þetta er þó óþarfa rausnaskapur af okkar hálfu.

Það er víst flökkusaga að óskin: „Megir þú lifa á óáhugaverðum tímum“ sé gamalkunn kínversk bölbæn, en eins og stigataflan lítur út núna virðist fátt annað bíða en tilþrifalítið miðjumoð. Jæja, verra gæti það verið. Næsta stopp er Tenerife norðursins á Ásvöllum. Áfram gakk!

Stefán Pálsson

Share this post

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
Share on pinterest
Share on email