Á dögunum var gengið frá samningum við 4 leikmenn meistaraflokkanna, 2 úr hvorum flokk. Það er mikil ánægja að halda áfram að klára samninga við þessa frábæru leikmenn og halda þeim hjá félaginu.
Aron Kári Aðalsteinsson spilaði 12 leiki með Fram síðasta sumar á láni frá Breiðablik og nú hefur lánssamningurinn verið framlengdur til eins árs. Aron Kári er 21 árs miðvörður og kom með gæði og aukna breidd í varnarlínu okkar í sumar og við erum mjög ánægð að fá að njóta krafta hans á næsta tímabili.
Arnór Daði Aðalsteinsson er 23 ára varnarmaður og uppalinn Framari. Hann hefur spilað 65 leiki í deild og bikar frá 2015. Arnór er öflugur vinstri fótar maður sem getur leyst stöðu miðvarðar og vinstri bakvarðar. Arnór gerir nýjan 3ja ára samning við Fram.
Fríða Þórisdóttir er 36 ára og kom til Fram á síðustu leiktíð og spilaði 13 leiki. Hún er kletturinn í vörninni og kemur með mikla reynslu inn í hópinn enda spilað 132 leiki á sínum ferli. Fríða er tilnefnd sem íþróttakona Fram 2020 af hálfu knattspyrnudeildar Fram og það er okkur mikil ánægja að Fríða verði áfram hjá félaginu.
Sóley Rut Þrastardóttir er 28 ára og kom til Fram á síðasta tímabili frá Leikni Reykjavík. Sóley er ekki ókunnug Fram því hún lék 12 leiki með félaginu árið 2016. Hún spilaði 15 leiki fyrir Fram á síðasta tímabili en hún er fjölhæfur leikmaður sem getur leyst margar stöður inn á vellinum. Það er því ánægjulegt að fá að njóta krafta hennar áfram.
Knattspyrnudeild Fram