fbpx
FRAM - KR vefur

Kotasæla og gulrætur

Internetið úir og grúir af matarbloggurum og öðrum sjálfskipuðum beturvitum sem þykjast hafa höndlað stóra sannleikann um hvernig útbúa megi hið fullkomna lasagne. Flestar útheimta þessar uppskriftir margra klukkustunda niðurbrytjun og hangs yfir bullsjóðandi tómötum að ekki sé talað um tímann sem fer í að þeytast um bæinn til að grafa upp fágæt kryddin. Húmbúkk – segir fréttaritari Framsíðunnar! Knorr-pakkalasagne er alveg nógu gott, svo fremi að fólk bæti við leynihráefnunum!

Það var einmitt þessi eldamennska sem hélt fréttaritaranum uppteknum – og fjarri Framvellinum í Safamýri – um það leyti sem flautað var til fyrsta deildarleiks Framkvenna í fótboltanum í sumar. Matartímar fjölskyldunnar eru allir orðnir á skjá og skjön. Ungviðið hangir úti frameftir öllu í góðra veðrinu og eiginkonan er prófkjörsbaráttu til að fá kommana til að velja sig aftur á þing.

Það varð því ekkert úr því að sérlegur pistlaskrifari félagsins léti sjá sig í blíðunni í kvöld. En þá kom sér vel að sú frábæra jútúbstöð, Fram-TV, var með beina útsendingu. Og þótt það þyki almennt ekki til fyrirmyndar í þessu fagi að skrifa leiklýsingar upp úr vefútsendingum þá brýtur nauðsyn stundum lög.

Framliðið er mikið breytt í ár frá því í fyrra þegar meistaraflokkurinn var endurvakinn. Liðið þá var reynslulítið og átti erfitt uppdráttar frameftir móti en var komið á nokkuð gott skrið undir lokin. Núna hefur aragrúi nýrra leikmanna bæst í hópinn og það mun vera hugur í meistaraflokksráðinu, þótt sparkspekingar hafi ekki spáð liðinu nema rétt um eða fyrir neðan miðja deild.

Með því að rýna í skjáinn og með leikskýrslu af KSÍ-vefnum til halds og trausts sýndist fréttaritaranum að uppstillingin væri eitthvað á þessa leið: Þóra í markinu, Erika Rún og Halla Helgadóttir í miðvörðum, Margrét og Sigurlaug Sara bakverðir. Gianna hin bandaríska aftast á miðjunni og fyrir framan hana landa hennar Hannah. Halla Þórdís og Oddný á köntunum og Svava og Ólöf fremstar. Mögulega er þetta tóm steypa, en fréttaritaranum til afsökunar var hann úttroðinn af Knorr-kræsingunum. Æjá, leynihráefnin tvö? Fyrst brytjar maður nokkrar vænar gulrætur í botninn og síðan slettir maður nálega fullri kotasæludós milli lags 2 og 3 af pastaplötunum. Prófið þetta og þakkið mér síðar.

Framstúlkur mættu einbeittar og sóttu nokkuð stíft á meðan Hamrarnir (sem draga nafn sitt væntanlega af KEA-verksmiðjunum gömlu) lágu til baka og hugðust beita skyndisóknum. Samkvæmt spá Fótbolta.net eru liðin talin áþekk að styrkleika og því enn mikilvægara að misstíga sig ekki á heimavelli, einkum í ljósi þeirrar skringilegu ákvörðunar KSÍ að leika einfalda umferð í 2. deild kvenna.

Skyndisóknartaktík gestanna bar ávöxt þegar á 13. mínútu þegar þær svartklæddu fengu aukaspyrnu vel inni á eigin vallarhelmingi, voru fljótar að hugsa og stungu boltanum strax inn fyrir Framvörnina þar sem ein þeirra eyfirsku stakk sér í gegn og skoraði auðveldlega, 0:1.

Fáeinum mínútum síðar jafnaði Fram metin. Það gerði Gianna sem fékk knöttinn óvölduð rétt fyrir utan vítateig og negldi í hornið, 1:1. Fögnuðu áhorfendur í Safamýri vel en enginn eins innilega og vallarþulan sem var afar lífleg og skemmtileg.

Það sem eftir leið af hálfleiknum var að mestu í eigu Framliðsins. Það átti nokkrar snarpar sóknarlotur og leikmenn hikuðu ekki við að láta vaða af löngu færi, eflaust vitandi að markvörður andstæðinganna væri fremur óörugg. Besta færið kom eftir tæplega hálftíma leik þegar Halla lyfti boltanum inn í teiginn þar sem Svava var í dauðafæri en skaut yfir af markteig.

Þótt fleiri mörk litu ekki dagsins ljós fyrir hlé gat fréttaritarinn snúið sér að uppvaski og frágangi fullur bjartsýni. Það var létt verk og löðurmannlegt: ein skítug panna og fat sem þurfti að leggja í sápuvatn. Fréttaritarinn hló hrossahlátri af tilhugsun um flónin sem svína út heilu pottasettin við eldamennsku af þessu tagi. Aulabárðar!

Seinni hálfleikur hófst á sama hátt og sá fyrri endaði. Framarar sóttu og gestirnir vörðust mjög aftarlega á vellinum. Í þau fáu skipti sem Hamraliðið hætti sér fram yfir miðju gat það hins vegar skapað hættu og það gerðist nálega upp úr þurru á fimmtugustu mínútu þegar Framstúlkur voru eitthvað að gaufa við að hreinsa boltann útaf, hann féll fyrir einn gestanna sem skoraði vangkvæðalítið, 1:2 þvert gegn gangi leiksins.

Fyrsta skipting Fram var á 55. mínútu þegar Margrét Selma kom inn á fyrir Höllu Þórdísi. Hún átti eftir að láta til sín taka. Fimm mínútum síðar ákvað þjálfarateymið enn að auka sóknarþungann og Freyja leysti Svövu af hólmi.

Sóknarþunginn jókst jafnt og þétt. Oddný skaut naumlega yfir eftir hornspyrnu eftir klukkutíma leik og raunar buldu skotin á marki Hamranna. Að lokum uppskáru okkar konur laun erfiðisins þegar seinni hálfleikur var nákvæmlega hálfnaður, þar sem Gianna náði góðu skoti utarlega úr teignum og Oddný hirti frákastið og potaði boltanum inn, 2:2.

Áfram héldu Framarar að sækja, þótt jöfnunarmarkið yrði til þess að ýta gestunum líka örlítið framar á völlinn. Þriðja markið virtist ætla að líta dagsins ljós á 72. mínútu þegar Hannah lék Akureyrarvörnina grátt, vippaði snyrtilega yfir markvörðinn, en í stöngina.

Þegar tíu mínútur voru eftir fór Sigurlaug af velli en Ásta Hind kom inná. Tveimur mínútum síðar áttu Framarar bylmingsskot sem var naumlega varið í horn. Eftir hornspyrnuna átti Oddný góðan skalla sem endaði í slánni og þaðan til jarðar þar sem Ólöf kom aðvífandi og potaði inn af marklínu, 3:2 og maklegu forskoti náð!

En heimurinn er táradalur. Næstu mínútur eftir markið virtist leikurinn ætla að leysast upp í hálfgerða vitleysu þar sem liðin skiptust á að sækja frekar fálmkennt, en á 87. mínútu galopnaðist Framvörnin og ein þeirra svartklæddu náði að labba í gegn og jafna metin. Fréttaritarinn fann kotasæluna ysta í vömbinni yfir ranglæti veraldarinnar. Ætluðum við virkilega að missa leikinn niður í jafntefli eftir alla þessa yfirburði?

Blessunarlega er uppgjöf ekki til í Safamýrinni. Oddný komst í ágætt færi en skaut beint á markvörðinn beint í kjölfar jöfnunarmarksins og skömmu síðar skutu Framarar yfir eftir hornspyrnu. Á lokamínútunni tókst Margréti Selmu að brjóta sér leið fram hjá varnarmönnum Hamranna, lék inn í teiginn og lét skot ríða af. Það var fast og beint á markmanninn sem sló hann í eigið net, 4:3 og réttlætinu fullnægt. Lítið bar til tíðinda uns flautað var til leiksloka, utan eina skiptingu þar sem Alma Dögg kom inn fyrir Ólöfu.

Góður 4:3 sigur í höfn og frábær byrjun á þessu Íslandsmóti. Fréttaritarinn getur ekki lofað skýrslum um hvern leik hjá stelpunum í sumar, en ef marka má þessa viðureign ætti ekki að vanta fjörið á þeim leikjum. Það yljaði svo að heyra að kvennaliðið fagnar líka sigrum með Zigga-zagga, flottasta fagni norðan Alpafjalla. Næsta stopp: Hornafjörður.

Stefán Pálsson

Share this post

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
Share on pinterest
Share on email