fbpx
sigur

Skrípó

Jæja krakkar, áður en lengra er haldið skulum við vera með eitt á hreinu: þessi leikur átti aldrei að fara fram. Veðrið var fáránlegt. Það sem boðið var uppá átti ekkert skylt við fótbolta. Það er meira en vika í næstu umferð og því nægur tími til að finna nýjan leikdag og spila í boðlegum aðstæðum fyrir toppslag í þessari bestu deild allra deilda.

En við skulum líka vera með annað á hreinu: þegar fréttaritari Framsíðunnar situr eins og fínn maður og lemur inn leikskýrsluna í bókaherberginu sínu sem þykist vera borðstofa og dreypir á prýðilegum einmöltungi frá Islay, gæti honum varla staðið meira á sama. Við erum á toppnum og allt er frábært.

Gráa peysan, snjáður frakki og einstaklega ljótur trefill frá tíunda áratugnum merktur Luton Town voru með í för þegar fréttaritarinn fór að heiman. Hann þurfti fyrst að mæta á gítartónleika eldri sonarins og átti hálft í hvoru von á því að fá tilkynningu meðan á þeim stæði að ekki yrði spilað í Grafarvoginum að ótta við að fjúkandi bárujárnsplötur myndu sneiða leikmenn og áhorfendur í tvennt. Þar gleymdist að taka með í reikninginn að Pétur Guðmundsson dómari er hörkutól. Það var flautað til leiks í roki og rigningu kl. 19:15. Ekkert segir prófkjaratíð eins og 1 stk. utanríkisráðherra sem ákveður að bjóða sig fram sem dyravörð á Lengjudeildarleik…

Eina breytingin frá síðasta leik var að Tryggvi kom inn í liðið fyrir Má. Ólafur var vitaskuld í markinu og fjögurra manna varnarlínan Haraldur, Kyle, Gunnar og Alex með Aron Þórð fyrir framan sig. Indriði Áki og Albert á miðjunni, Fred og Tryggvi á köntunum og Þórir frammi.

Fáeinir fullhugar sátu eða stóðu í vallarstúkunni, en fréttaritarinn húkti undir húsvegg íþróttamiðstöðvarinnar og var þá í það minnsta þurr. Nú kann einhver að spyrja: „En hvað með tryggðatröllið Val Norðra? Var hann ekki mættur í þessa Bjarmalandsför í póstnúmer 112?“ – Nei, því var ekki að heilsa. Valur tók útskriftarveislu í stórfjölskyldunni framyfir leikinn, sem vekur alvarlegar spurningar um forgangsröðun hans.

Sterkur og stigvaxandi vindur stóð nánast horna á milli og Framarar byrjuðu með hann í bakið. Engin leið var að hemja knöttinn önnur en að senda stutt með jörðinni. Um leið og honum var lyft upp feykti næsta kviða honum hvert sem verða vildi. Það tók leikmenn mislangan tíma að átta sig á þessum sannindum. Sumir náðu því aldrei.

Fjölnir fékk fyrsta færi leiksins í blábyrjun en eftir það náðu Framarar (eða rokið – eftir því hvernig á það er litið) undirtökunum. Nokkur hálffæri sköpuðust en fátt markvert þó. Okkur tókst illa að nýta okkur veðurhaminn og fengum til að mynda engar aukaspyrnur nærri vítateignum allan fyrri hálfleikinn og sárafáar hornspyrnur – og enga frá hættulegri hliðinni.

Um hálfleikinn nákvæmlega miðjan dró til tíðinda. Þórir átti frábæra hælsendingu á Fred sem lék upp að endamörkum og átti svo hárfína sendingu út í teiginn þar sem Albert var einn og óvaldaður. Hann nýtti tímann og plássið vel og skoraði með nákvæmu skoti, 0:1. Fréttaritarinn fagnaði vel, en bölvaði í hljóði fjarveru Vals vinar síns, en einkum þó markapelans góða. Það var þó ljóstýra í myrkrinu að Kjartan, sem er önnur kynslóð tannlækna sem tekið hefur að sér það verkefni að vinna á þrálátum tannsteini og slöppu tannholdi fréttaritarans, var með sinn eigin fleyg. Öndvegismaður Kjartan. Viskýið líklega Spayside frekar en Islay, en það kvartar enginn í mannskaðaveðri með trampólínin fjúkandi allt um kring.

Rétt eftir markið kastaði annar prófkjörsframbjóðandi íhaldsins kveðju á fréttaritarann. Það var Diljá aðstoðarkona ráðherrans í miðasölunni. Kjartan Magnússon var hins vegar hvergi sjáanlegur. Skellur.

Fjölnismenn, sem legið höfðu mjög til baka, vöknuðu talsvert til lífsins við markið og þurfti Óli að verja vel nokkrum mínútum síðar. Næstu tíu mínúturnar eða svo einkenndust af stöðubaráttu en lítið gerðist. Markverðasta færið var á 37. mínútu þegar Fred átti flotta sendingu á Alex sem náði ekki alveg nógu góðu skoti og Fjölnismarkvörðurinn náði að verja.

Um leið og flautað var til leikhlés gall í vallarþulinum að allir áhorfendur væru velkomnir upp á næstu hæð. Þar voru eflaust rjúkandi kaffibollar, ljúffengar snittur og fleiri íhaldsmenn í atkvæðaleit, en aðkomumennirnir úr Fram fóru dyravillt og enduðu aftur inni í anddyri sundlaugarinnar. Þar var hvorki kaffi né snittur en skjól fyrir vosbúðinni. Var það flimtan og spé mikið.

Nonni gerði varnarsinnaða breytingu í hléi, Óskar kom inn fyrir Tryggva. Ljóst var að með fárviðrið í fangið yrðu Framarar ekki í bílstjórasætinu í seinni hálfleik.

Um það leyti sem seinni hálfleikur byrjaði kom Jón Ingi Ingimarsson aðvífandi og heilsaði upp á Framarana undir þakskyggninu. Jón Ingi er ljúflingur og hvers manns hugljúfi og hefur því eðlilega viðurnefnið „Drullusokkurinn“ í anda íslenskrar uppnefnahefðar. Hann á strák í Fjölnisliðinu og var á hækjum – örugglega slasað sig í bumbubolta. Meira um Jón Inga á eftir.

Allar vonir um að veðrið dytti niður með kvöldinu ruku bókstaflega út í veður og vind. Það bætti bara í. Óli varði vel aukaspyrnu Fjölnismanna á 50. mínútu og skömmu síðar heimtuðu heimamenn víti. Prýðilegur dómari leiksins hlustaði ekkert á slíkt. Pétur hefur þann stíl að leyfa mönnum mikið og er ekkert að flauta að óþörfu. Það er góð regla.

Sókn Fjölnis var þung og öfugt við Framara í fyrri hálfleiknum höfðu þeir vit á að næla sér í nóg af hornspyrnum. Það voru sjálfkrafa hættulegustu færi leiksins. Munurinn var hins vegar sá að Framarar sköpuðu sér skyndisóknir á móti, þannig átti Albert góðan skalla eftir tæplega klukkutíma leik eftir sendingu frá Halla.

Tvær hornspyrnur Fjölnismanna á sömu mínútunni sköpuðu stórhættu á 66. mínútu og í þeirri síðari mátti Óli hafa sig allan við að koma í veg fyrir að skorað væri beint úr horninu. Í kjölfarið kom Gummi Magg inn fyrir Indriða Áka. Skynsamleg skipting þar sem litlu miðjuspili var hvort sem er til að dreifa við þessar aðstæður.

Á sjötugustu mínútu brutu Framarar sér leið upp völlinn. Gummi og Fred léku vel saman en varnarmaður Fjölnis náði á síðustu stundu að koma í veg fyrir að Albert bætti við öðru marki. Um svipað leyti sá fréttaritarinn ástæðu til að pára niður hrós til Þóris fyrir góða baráttu.

Fred fór af velli fyrir Má þegar tæpur stundarfjórðungur var eftir. Flott frammistaða hjá brasilíska undrinu og verðskulduð hvíld. Már kom hins vegar inn með látum og átti þátt í 2-3 góðum sóknarlotum áður en fyrir lauk. Þannig átti hann prýðilega sendingu á Guðmund rétt undir lokin en skot þess síðarnefnda var vel varið.

Eftir stressandi þriggja mínútna uppbótartíma sigldu Framarar frábærum útisigri í höfn og lgaman var að fylgjast með innilegum fagnaðarlátum og faðmlögum leikmanna og stuðningsmanna. Ziggi-zaggi var framreiddur að hætti hússins og stuðningsmannasveitin arkaði glaðbeitt í gegnum íþróttamiðstöðina.

Á bílaplaninu var Drullusokkurinn á hækjunum með sinni ektakvinnu að klöngrast inn í næsta bíl við hliðina á metanfák fréttaritarans. „Meira ruglið að spila þennan leik“, sagði hann. „Það hefði svo auðveldlega mátt leika bara á morgun eða fara inn í Egilshöll!“ – „Láttu ekki svona“, svaraði fréttaritarinn drýldinn, „það var ekkert að þessu veðri. Þínir menn verða bara að vera duglegri að taka lýsi.“

Næsta verkefni: Vestri frá Ísafirði.

Stefán Pálsson

Share this post

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
Share on pinterest
Share on email