Unglingalandsmót UMFÍ verður haldið á Selfossi um verslunarmannahelgina 2021. Mótið hefur verið haldið frá árinu 1992 og er stórskemmtileg og lífleg íþrótta- og fjölskylduhátíð þar sem saman koma þúsundir barna og ungmenna ásamt fjölskyldum sínum og taka þátt í afar fjölbreyttri dagskrá.
Unglingalandsmót UMFÍ er vímuefnalaus íþrótta- og fjölskylduhátíð þar sem börn og unglingar á aldrinum 11 – 18 ára reyna með sér í fjölmörgum íþróttagreinum. Á sama tíma er boðið upp á fjölbreytta afþreyingu, leiki og skemmtun fyrir alla fjölskylduna, mömmu og pabba og yngri systkinin og það kostar ekki krónu. Í ár geta 19 ára líka tekið þátt því mótinu í fyrra var frestað.
Unglingalandsmótin hafa hvarvetna vakið mikla athygli enda frábært fjölskyldu- og vinafjör þar sem allir mótsgestir fá að prófa nýjar og forvitnilegar greinar. Við hvetjum vinahópa og fjölskyldur til að fara saman á mótið.
Búist er við gríðarlegum fjölda þátttakenda á þessu ári enda stutt af höfuðborgarsvæðinu á Selfoss.
Unglingalandsmót UMFÍ 2021 fer fram 29. júlí – 1. ágúst á Selfossi. Skráningargjald er 7.900 kr. Skráning hefst 1. júlí næstkomandi.
Mót fyrir alla fjölskylduna
Á Selfossi verður boðið upp á 24 stórskemmtilegar greinar. Þar á meðal eru knattspyrna, körfubolti og frjálsar íþróttir en líka aðrar nýlegri eins og strandhandbolta og standblak sem hafa slegið í gegn. Líka er hægt að skrá sig í hlaupaskotfimi (biathlon), bogfimi, borðtennis, golf og glímu, kökuskreytingar, rafíþróttir og margar fleiri. Fatlaðir geta eins og á fyrri mótum tekið þátt í fjölda greina.
Þátttakendur greiða eitt verð en geta skráð sig í eins margar greinar og þau vilja. Inni í verðinu er aðgangur að tjaldsvæði en greiða þarf fyrir rafmagn.
Öll kvöld verða tónleikar með vinsælasta tónlistarfólki ungu kynslóðarinnar ásamt því sem upprennandi tónlistarfólk og hljómsveitir frá Suðurlandi stíga á stokk.
Búist er við þúsund mótsgesta á Selfossi um verslunarmannahelgina og er verið að útbúa risastórt tjaldsvæði við Suðurhóla í útjaðri bæjarins fyrir þátttakendur af öllu landinu. Svæðið er í göngufæri við mótssvæðið. Til að skapa frábæra stemningu og gæta öryggis þátttakenda og mótsgesta verður ákveðnum götum lokað í kringum nokkra viðburði á Selfossi.
Vefsíða mótsins er www.ulm.is